Hósea 4 - Biblían (2007)

Ákærur og afturhvarfÁkæra á hendur Ísrael

1Hlýðið á orð Drottins, Ísraelsmenn,

því að Drottinn ákærir íbúa landsins

þar sem í landinu er engin trúfesti, kærleikur né þekking á Guði.

2Meinsæri, svik, morð, þjófnaður og hórdómur breiðist út

og blóðbað fylgir blóðbaði.

3Þess vegna skrælnar landið

og allir íbúar þess visna

ásamt dýrum merkurinnar og fuglum himinsins,

meira að segja fiskum hafsins verður svipt burt.

Ákæra gegn prestum

4Nei, enginn skal ákæra

og enginn áminna,

heldur mun ég sjálfur ákæra þig, prestur,

5og þú munt hrasa um hábjartan dag

og spámaður með þér um nætur

og móðir þín mun deyja,

6þjóð mín mun farast

því að hún hefur enga þekkingu.

Þar sem þú hefur hafnað þekkingunni

hafna ég þér sem presti fyrir mig.

Þú hefur gleymt kenningu Guðs þíns

og þess vegna gleymi ég sonum þínum.

7Því fleiri sem þeir urðu, því meira syndguðu þeir gegn mér.

Þeir skiptu á sæmd sinni og smán.

8Þeir lifa á synd þjóðar minnar

og eru sólgnir í afbrot hennar.

9En prestinum skal farnast eins og þjóðinni

og ég mun draga hann til ábyrgðar fyrir breytni sína

og endurgjalda honum verk hans.

10Þeir munu nærast en ekki verða saddir,

þeir munu hórast en þeim mun ekki fjölga

því að þeir hættu að gefa Drottni gaum

til að drýgja hór.

Drottinn fordæmir heiðna guðsdýrkun

11Hórdómur og víndrykkja sviptir þjóð mína viti,

12hún leitar ráða hjá trjádrumbum sínum

og stafur hennar á að gefa henni fyrirmæli.

Já, hórdómsandinn hefur leitt þá afvega,

hórdómur þeirra fjarlægir þá Guði sínum.

13Þeir færa sláturfórnir á fjallatindum

og brenna reykelsi á hæðum, undir eikum, öspum og terebintum

því að skuggi þeirra er notalegur.

Þess vegna hórast dætur yðar

og tengdadætur yðar halda fram hjá.

14Ég mun hvorki gera dætur yðar ábyrgar vegna þess að þær hórast

né tengdadætur yðar fyrir að halda fram hjá

því að þeir ganga sjálfir afsíðis með hórum

og halda fórnarveislur með musterisskækjum.

Þjóð, sem ekkert skilur, mun líða undir lok.

15Ef þú hórast, Ísrael,

skal Júda ekki verða sek.

Farið því ekki til Gilgal

og farið ekki til Betaven

og sverjið ekki: „Svo sannarlega, sem Drottinn lifir.“

16Já, Ísrael er þrjóskur eins og þrjósk kýr.

Á Drottinn þá að halda Ísraelsmönnum á beit eins og lömbum í haga?

17Efraím er bundinn á klafa skurðgoða.

Látið hann afskiptalausan.

18Þegar drykkjusvalli þeirra lýkur hórast þeir,

meta skömm meira en sæmd sína.

19Stormur sviptir þeim burt með vængjum sínum

og þeir hljóta smán fyrir ölturu sín.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help