Jósúabók 24 - Biblían (2007)

Þingið í Síkem

1Nú stefndi Jósúa öllum ættbálkum Ísraels saman í Síkem. Hann kvaddi til öldunga Ísraels, höfðingja hans, dómara og embættismenn og þeir gengu fram fyrir auglit Guðs.

2Þá ávarpaði Jósúa allt fólkið:

„Svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Feður ykkar, þeir Tara, faðir Abrahams og Nahors, bjuggu í fyrndinni handan við Efrat og þjónuðu öðrum guðum.

3Þá sótti ég Abraham, forföður ykkar, yfir um Efrat og leiddi hann um allt Kanaansland og gaf honum fjölmarga niðja. Ég gaf honum Ísak

4og Ísak gaf ég Jakob og Esaú. Ég fékk Esaú Seírfjalllendið og hann tók það til eignar en Jakob og synir hans fóru suður til Egyptalands.

5Þá sendi ég Móse og Aron og ég laust Egyptaland með því sem ég vann þar og leiddi ykkur þaðan.

6Þegar ég leiddi forfeður ykkar út úr Egyptalandi komuð þið að hafinu. Egyptar veittu forfeðrum ykkar eftirför að Sefhafinu með hervögnum og riddurum.

7Þá hrópuðu forfeður ykkar til Drottins um hjálp og hann lagði sorta milli ykkar og Egyptanna og steypti hafinu yfir þá svo að það huldi þá. Með eigin augum sáuð þið hvernig ég fór með Egypta. Því næst dvöldust þið lengi í eyðimörkinni

8og ég leiddi ykkur til lands Amoríta sem bjuggu handan Jórdanar. Þeir réðust á ykkur en ég seldi þá ykkur í hendur. Þið tókuð land þeirra til eignar og ég tortímdi þeim fyrir ykkur.

9Balak Sippórsson Móabskonungur tók þá að ráðast á Ísrael. Hann sendi eftir Bíleam Beórssyni og kallaði hann til sín til að bölva ykkur.

10En ég vildi ekki hlusta á Bíleam en hann varð að blessa ykkur og ég bjargaði ykkur úr greipum hans.

11Þá fóruð þið yfir Jórdan og komuð til Jeríkó. Höfðingjarnir í Jeríkó börðust gegn ykkur, einnig Amorítar, Peresítar, Kanverjar, Hetítar, Gírgasítar, Hevítar og Jebúsítar, en ég seldi þá ykkur í hendur.

12Ég sendi skelfingu á undan ykkur sem hrakti Amorítakonungana báða úr vegi ykkar, en hvorki sverð þitt né bogi.

13Ég fékk ykkur land sem þið höfðuð ekkert haft fyrir og borgir, sem þið reistuð ekki en hafið sest að í, ég gaf ykkur víngarða og olíuviðarlundi sem þið hafið ekki plantað en lifið af.

14Óttist því Drottin og þjónið honum af fullkominni trúmennsku. Kastið burt guðunum sem forfeður ykkar þjónuðu handan við Efrat og í Egyptalandi.

15En líki ykkur ekki að þjóna Drottni, kjósið þá í dag hverjum þið viljið þjóna, hvort heldur guðunum sem forfeður ykkar þjónuðu handan Efrat eða guðum Amoríta en í landi þeirra búið þið nú. En ég og mínir ættmenn munum þjóna Drottni.“

16Fólkið svaraði og sagði: „Það sé fjarri okkur að yfirgefa Drottin til að þjóna öðrum guðum.

17Drottinn er Guð okkar. Hann leiddi okkur og forfeður okkar frá Egyptalandi, úr þrælahúsinu. Það var hann sem gerði þessi miklu tákn fyrir augum okkar. Hann verndaði okkur á allri þeirri vegferð, sem við höfum lagt að baki, og fyrir öllum þeim þjóðum sem leið okkar lá meðal.

18Og Drottinn rýmdi úr vegi okkar öllum þjóðunum, þeirra á meðal Amorítum sem bjuggu í landinu á undan okkur. Við munum einnig þjóna Drottni því að hann er Guð okkar.“

19Þá sagði Jósúa við fólkið: „Þið getið ekki þjónað Drottni. Hann er heilagur Guð, vandlátur Guð. Hann mun ekki fyrirgefa ykkur afbrot ykkar og syndir.

20Ef þið yfirgefið Drottin og þjónið framandi guðum mun hann snúa baki við ykkur og senda böl yfir ykkur og tortíma ykkur þótt hann hafi áður reynst ykkur vel.“

21Fólkið sagði við Jósúa: „Nei, við viljum þjóna Drottni.“

22Þá sagði Jósúa við fólkið: „Þið eruð vitni þess gegn sjálfum ykkur að þið hafið sjálf kosið að þjóna Drottni.“

Fólkið svaraði: „Já, við erum vitni þess.“

23„Kastið frá ykkur þeim framandi guðum sem enn eru á meðal ykkar. Snúið hjarta ykkar til Drottins, Guðs Ísraels.“

24Fólkið svaraði Jósúa: „Við viljum þjóna Drottni, Guði okkar, og hlýða boðum hans.“

25Á þeim degi gerði Jósúa sáttmála við fólkið og setti því lög og rétt í Síkem.

26Jósúa skráði þessi ákvæði í lögbók Guðs. Því næst tók hann stein mikinn og reisti hann þar upp undir eikinni sem er í helgidómi Drottins.

27Síðan ávarpaði Jósúa allt fólkið: „Þessi steinn skal vera vitni gegn okkur því að hann hefur heyrt öll orðin sem Drottinn hefur talað til okkar. Hann skal vera vitni gegn ykkur svo að þið afneitið ekki Guði ykkar.“

28Síðan lét Jósúa fólkið fara, hvern til síns erfðalands.

Greftrun Jósúa, Jósefs og Eleasars

29Eftir þessa atburði dó Jósúa Núnsson, þjónn Drottins, hundrað og tíu ára.

30Hann var grafinn í erfðalandi sínu, í Timnat Sera í fjalllendi Efraíms, norðan við Gaasfjall.

31Ísrael þjónaði Drottni á meðan Jósúa var á lífi og þeir öldungar sem lifðu Jósúa og þekktu öll þau máttarverk sem Drottinn hafði unnið fyrir Ísrael.

32Bein Jósefs, sem Ísraelsmenn höfðu flutt með sér frá Egyptalandi, voru grafin í Síkem á landspildunni sem Jakob keypti fyrir hundrað kesíta af sonum Hemors, föður Síkems, og varð erfðahluti niðja Jósefs.

33Eleasar Aronsson dó einnig og var grafinn í Gíbeu, borg sem Pínehas sonur hans hafði fengið í sinn hlut í Efraímsfjalllendinu.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help