1Þar sem liðið var á kvöld hröðuðu þjónar Hólofernesar sér brott. Bagóas lokaði tjaldinu að utanverðu og lét þjónana fara frá húsbónda sínum. Þeir gengu til hvílu enda allir þreyttir því að veislan hafði staðið lengi.
2En Júdít var látin ein eftir í tjaldinu hjá Hólofernesi sem hafði oltið dauðadrukkinn út af í rúm sitt.
3Júdít hafði sagt ambátt sinni að standa úti fyrir svefnhýsi sínu og bíða þess að hún gengi út eins og hún hafði gert á hverju kvöldi. Sagðist hún ætla út til að biðjast fyrir. Hið sama sagði hún Bagóasi.
4Er nú allir voru gengnir út og ekki nokkur maður eftir í svefnhúsinu, hvorki lágur né hár, gekk Júdít að hvílu Hólofernesar og bað í hljóði: „Drottinn, Guð alls máttar. Lít á þessari stundu í náð á það verk sem hönd mín vinnur Jerúsalem til vegsemdar.
5Nú er stundin runnin upp. Kom arfleifð þinni til hjálpar. Lát það sem ég hyggst fyrir verða tortímingu óvinanna sem ráðist hafa á okkur.“
6Síðan gekk Júdít að rúmstólpanum við höfðalagið á rúmi Hólofernesar, tók sverð hans sem hékk þar,
7studdi sig við rúmið, greip í hár hans og sagði: „Styrktu mig, Drottinn, Guð Ísraels, á þessari stundu.“
8Hjó hún síðan tvívegis af öllum kröftum í háls honum og sneið höfuðið af.
9Því næst velti hún bolnum niður úr rúminu og tók flugnanetið af rúmstoðunum. Gekk hún síðan strax út og fékk þernu sinni höfuð Hólofernesar
10sem lét það í malpoka hennar.
Júdít og þernan snúa aftur til BetúlúuSíðan gengu þær báðar saman út, eins og þær voru vanar, til bæna. Þegar þær svo voru komnar í gegnum herbúðirnar gengu þær á svig við dalinn, héldu upp Betúlúufjall og komu að borgarhliðinu.
11Meðan hún var enn langt undan kallaði Júdít til varðmannanna við hliðið: „Ljúkið upp, ljúkið hliðinu upp. Guð er með okkur, Guð okkar. Enn gerir hann máttarverk í Ísrael og sýnir óvinum okkar mátt sinn eins og hann gerði í dag.“
12Þegar borgarbúar heyrðu rödd hennar hröðuðu þeir sér ofan að borgarhliðinu og stefndu öldungum borgarinnar saman.
13Allir komu hlaupandi, lágir sem háir, og furðuðu sig á því að hún skyldi komin aftur. Opnuðu þeir hliðið, hleyptu báðum konunum inn, kveiktu eld til að lýsa upp og söfnuðust kringum þær.
14Þá hrópaði Júdít hárri röddu: „Lofið Guð, lofið hann! Lofið Guð sem hefur ekki látið af að sýna Ísraelsmönnum miskunn heldur hefur hann í nótt eytt óvinum okkar með hendi minni.“
15Því næst tók hún höfuð Hólofernesar upp úr malnum, sýndi það og sagði: „Þetta er höfuð Hólofernesar, yfirhershöfðingja hers Assýríumanna. Hér er flugnanetið sem hann lá ofurölvi undir. Drottinn deyddi hann með kvenmannshendi.
16Svo sannarlega sem Drottinn lifir, hann sem hefur verndað mig á veginum sem ég gekk, þá var það útlit mitt sem tældi manninn til glötunar en enga synd drýgði hann með mér til flekkunar mér eða vanvirðu.“
17Allt fólkið varð furðu lostið og féll á kné í lotningu fyrir Guði og bað einum huga: „Lofaður sért þú, Guð, sem í dag hefur eytt óvini þjóðar þinnar.“
18En Ússía sagði við Júdít: „Blessuð sért þú, dóttir, af Guði hinum hæsta, blessuð sért þú framar öllum konum á jörðu. Lofaður sé Drottinn, Guð vor, skapari himins og jarðar, sem leiddi þig er þú hjóst höfuðið af foringja óvinanna.
19Vonarríkt traust þitt mun aldrei að eilífu líða úr minni þeirra manna sem minnast máttar Guðs.
20Guð láti þetta verða þér til ævarandi sæmdar og veiti þér farsæld fyrir að hætta lífinu þegar þjóð vor var í nauðum og fyrir að hindra að vér færumst. Þú hefur gengið réttan veg frammi fyrir Guði vorum.“ Og allt fólkið sagði: „Amen, amen!“
Who We AreWhat We EelieveWhat We Do
2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.