Jobsbók 10 - Biblían (2007)

1Mér býður við lífi mínu,

ég ætla að gefa kveinstöfum mínum lausan tauminn,

tala af bitrum huga.

2Ég segi við Guð: Sakfelldu mig ekki,

skýrðu fyrir mér hvers vegna þú ákærir mig.

3Er það þér ávinningur að beita ofbeldi,

að hafna verki handa þinna

og láta ljós skína yfir ráðabrugg guðlausra?

4Hefur þú augu dauðlegs manns,

sérðu eins og menn sjá?

5Eru dagar þínir eins og dagar dauðlegra,

ár þín eins og mannsævin?

6Þú leitar misgjörða minna,

spyrð um synd mína

7þó að þú vitir að ég er ekki sekur

og enginn slíti mig úr hendi þér.

8Hendur þínar mótuðu mig og sköpuðu,

síðan snerir þú frá mér og tortímdir mér.

9Minnstu þess að þú mótaðir mig úr leir,

ætlar þú að gera mig aftur að mold?

10Helltir þú mér ekki sem mjólk

og hleyptir mig eins og ost?

11Þú klæddir mig hörundi og holdi

og fléttaðir mig úr beinum og sinum,

12gafst mér líf og náð

og vaktir yfir andardrætti mínum.

13En þetta faldir þú í hjarta þér,

ég vissi að þú hafðir þetta í huga.

14Ætlaðir þú að fylgjast með mér ef ég syndgaði

og ekki sýkna mig af misgjörð minni?

15Vei mér, væri ég sekur.

Væri ég saklaus gæti ég samt ekki borið höfuðið hátt,

ég er mettaður smán, drukkinn af eymd.

16En bæri ég höfuðið hátt mundir þú elta mig eins og ljón

og fara aftur með mig á undarlegan hátt,

17leiða fram vitni þín gegn mér að nýju,

auka óvild þína í minn garð

og stefna hverri hersveitinni af annarri gegn mér.

18Hví hjálpaðir þú mér úr móðurkviði?

Hefði ég dáið áður en nokkurt auga leit mig

19væri eins og ég hefði aldrei verið til,

hefði verið borinn frá móðurlífi til grafar.

20Á ég ekki fáa ævidaga ólifaða?

Farðu frá mér svo að ég megi gleðjast örlítið

21áður en ég fer og kem aldrei aftur,

fer í land myrkurs og niðdimmu,

22land svartamyrkurs og sorta.

Niðdimma ríkir þar og óreiða,

þar er birtan sjálf sem svartnætti.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help