1Á tuttugasta og þriðja stjórnarári Jóasar Ahasíasonar, konungs í Júda, varð Jóahas Jehúson konungur yfir Ísrael. Hann ríkti sautján ár í Samaríu.
2Hann gerði það sem illt var í augum Drottins. Hann drýgði sömu syndir og Jeróbóam Nebatsson hafði komið Ísrael til að drýgja og lét ekki af því.
3Þess vegna blossaði reiði Drottins upp gegn Ísrael svo að hann seldi þá í hendur Hasael Aramskonungi og í hendur Benhadad Hasaelssyni í langan tíma.
4Jóahas bað til Drottins og Drottinn bænheyrði hann. Hann hafði séð neyð Ísraels þegar Aramskonungur þrengdi að þeim.
5Drottinn sendi þá Ísraelsmönnum frelsara svo að þeir losnuðu undan valdi Arams og gátu aftur búið í tjöldum sínum.
6Samt sneru þeir ekki baki við synd ættar Jeróbóams sem hann kom Ísrael til að drýgja. Þeir héldu áfram að syndga og meira að segja stóð Asérustólpi áfram í Samaríu.
7Jóahas átti ekkert eftir af liði sínu nema fimmtíu vagnliðsmenn, tíu stríðsvagna og tíu þúsund fótgönguliða því að Aramskonungur hafði eytt öðru liði hans og farið með það eins og ryk sem gengið er á.
8Það sem ósagt er af sögu Jóahasar, verkum hans og afrekum er skráð í annála Ísraelskonunga.
9Jóahas var lagður til hvíldar hjá feðrum sínum. Hann var grafinn í Samaríu. Jóas sonur hans varð konungur eftir hann.
Jóas Ísraelskonungur10Á þrítugasta og sjöunda stjórnarári Jóasar Júdakonungs varð Jóas Jóahasson konungur yfir Ísrael. Hann ríkti sextán ár í Samaríu.
11Hann gerði það sem illt var í augum Drottins. Hann sneri ekki baki við neinum þeim syndum sem Jeróbóam Nebatsson drýgði og kom Ísrael til að drýgja heldur hélt áfram að drýgja þær.
12Það sem ósagt er af sögu Jóasar, verkum hans og afrekum og frásögnum af því þegar hann barðist gegn Amasía, konungi Júda, er skráð í annála Ísraelskonunga.
13Jóas var lagður til hvíldar hjá feðrum sínum en Jeróbóam settist í hásæti hans. Jóas var grafinn í Samaríu hjá konungum Ísraels.
Elísa deyr14Þegar Elísa veiktist af þeim sjúkdómi sem dró hann til dauða vitjaði Jóas Ísraelskonungur hans, brast í grát frammi fyrir honum og sagði: „Faðir minn, faðir minn, þú stríðsvagn Ísraels og vagnstjóri hans.“
15„Taktu boga og örvar,“ svaraði Elísa honum. Og hann tók boga og örvar.
16Þá sagði hann við Ísraelskonung: „Leggðu hönd þína á bogann.“ Hann gerði það og Elísa lagði hendur sínar á hendur konungs.
17Síðan sagði hann: „Opnaðu gluggann sem snýr í austur.“ Konungur opnaði gluggann. „Skjóttu,“ skipaði Elísa og hann skaut. Þá sagði Elísa: „Þetta er sigurör frá Drottni og sigurör gegn Aram. Þú munt gersigra Aram við Afek.“
18Síðan sagði hann: „Taktu örvarnar.“ Konungur tók þær. Þá sagði hann við Ísraelskonung: „Sláðu á jörðina.“ Hann sló þrisvar en hætti síðan.
19Þá reiddist guðsmaðurinn honum og sagði: „Hefðir þú slegið fimm eða sex sinnum hefðir þú gersigrað Aram. En nú muntu aðeins sigra þá þrisvar.“
20Elísa dó og var grafinn. Ræningjaflokkar frá Móab komu jafnan inn í landið við árslok.
21Eitt sinn bar svo við að nokkrir menn, sem voru að greftra mann, sáu einn þessara ræningjaflokka. Þeir fleygðu þá manninum í gröf Elísa og þegar hann snerti bein Elísa lifnaði hann og stóð á fætur.
Sigur unninn á Aram22Hasael Aramskonungur þjakaði Ísrael á meðan Jóahas lifði.
23En Drottinn var náðugur, sýndi þeim miskunn og sneri sér til þeirra vegna sáttmála síns við Abraham, Ísak og Jakob. Hann vildi ekki eyða þeim og hafði ekki enn hrakið þá frá augliti sínu.
24Þegar Hasael Aramskonungur dó varð Benhadad, sonur hans, konungur eftir hann.
25Þá gat Jóas Jóahasson náð borgunum aftur undan stjórn Benhadads Hasaelssonar sem Hasael hafði tekið með áhlaupi frá Jóahas föður hans. Jóas sigraði hann þrisvar og tók aftur borgir Ísraels.
Who We AreWhat We EelieveWhat We Do
2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.