1Þá svaraði Drottinn Job úr storminum og sagði:
2Hver er sá sem hylur ráðsályktunina myrkri
með innihaldslausum orðavaðli?
3Gyrtu lendar þínar eins og manni sæmir,
nú ætla ég að spyrja þig en þú skalt svara.
4Hvar varstu þegar ég grundvallaði jörðina?
Segðu það ef þú veist það og skilur.
5Hver ákvað umfang hennar, veist þú það,
eða hver þandi mælivað yfir henni?
6Á hvað var sökklum hennar sökkt
eða hver lagði hornstein hennar
7þegar morgunstjörnurnar sungu saman gleðisöng
og allir synir Guðs fögnuðu?
8Hver byrgði hafið inni með hliðum
þegar það braust fram úr móðurlífi
9og ég fékk því klæðnað úr skýjum
og reifaði það svartaþoku,
10þegar ég ruddi því markaða braut,
setti slagbranda fyrir og hlið
11og sagði: „Hingað kemstu og ekki lengra,
hér stöðvast hreyknar hrannir þínar.“
12Hvenær hefur þú kallað á morguninn,
vísað aftureldingunni á sinn stað
13svo að hún grípi í klæðafald jarðar
og óguðlegir hristist af henni?
14Hún breytist eins og leir undir innsigli
og litast líkt og klæði.
15Óguðlegir verða sviptir ljósi sínu
og upplyftur armur þeirra brotinn.
16Hefurðu komið að uppsprettum hafsins,
gengið á botni frumdjúpsins?
17Hafa hlið dauðans opinberast þér,
hefurðu litið hlið myrkursins?
18Hefurðu horft yfir víðáttur jarðar?
Segðu frá þeim ef þú þekkir þær allar.
19Hvar er leiðin til heimkynna ljóssins
og hvar er bústaður myrkursins
20svo að þú getir komið því á sinn stað
og vísað því veginn heim?
21Þetta veistu því að þá varstu fæddur
og ævidagar þínir eru margir.
22Hefurðu komið að forðabúri snævarins
og séð geymslur haglsins
23sem ég geymi til þrengingatíma,
til orrustu- og ófriðardags?
24Hvar er vegurinn þangað sem ljósinu er dreift
og austanvindurinn tvístrast um jörðina?
25Hver gerði göng fyrir regnskúrina
og veg fyrir eldingarnar
26svo að rignir yfir óbyggt land,
yfir eyðimörkina þar sem enginn býr,
27og mettar auðn og eyðilönd
og lætur grængresi spretta?
28Á regnið sér föður
eða hver hefur getið daggardropana
29og hver fæddi hrímið sem kemur af himni?
30Vatnið stirðnar sem steinn
og yfirborð djúpsins þéttist.
31Hnýtir þú strengi Sjöstjörnunnar
eða leysir þú fjötra Óríons?
32Lætur þú stjörnumerkin koma í ljós á réttum tíma,
leiðir fram ljónynjuna og hvolpa hennar?
33Þekkir þú lög himinsins,
ákveður þú vald hans á jörðinni?
34Hefur þú rödd þína upp til skýja
svo að vatnsflaumur hylji þig?
35Sendirðu eldingar frá þér svo að þær þjóta af stað
og segja við þig: „Hér erum vér“?
36Hver veitti íbisfuglinum speki,
hver gaf hananum skilning?
37Hver telur skýin af þekkingu
og hver hellir úr vatnskerum himins
38þegar moldin verður að kekkjum
og hnausarnir loða saman?
39Veiðir þú bráð handa ljónynjunni?
Seður þú hungur ljónshvolpanna
40þegar þeir kúra í bæli sínu
og liggja í leyni í runnanum?
41Hver færir hrafninum bráð
þegar ungar hans hrópa til Guðs,
flögra fram og aftur án ætis?
Who We AreWhat We EelieveWhat We Do
2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.