Fjórða Mósebók 31 - Biblían (2007)

Stríð við Midían

1Drottinn talaði til Móse og sagði:

2„Láttu Ísraelsmenn hefna sín á Midíanítum. Eftir það skaltu safnast til feðra þinna.“

3Þá ávarpaði Móse þjóðina og sagði: „Látið nokkra af mönnum ykkar búast til herþjónustu. Þeir skulu ráðast á Midían til þess að koma fram hefnd Drottins á Midían.

4Þið skuluð senda þúsund manns úr hverjum ættbálki alls Ísraels til herþjónustu.“

5Voru þá þúsund menn valdir til herþjónustu af hverjum ættbálki Ísraels, tólf þúsund vígbúnir menn.

6Móse sendi þessa þúsund menn frá hverjum ættbálki í herinn ásamt Pínehas Eleasarssyni presti sem hafði með sér hin heilögu áhöld og lúðra til að gefa merki.

7Þeir réðust gegn Midían eins og Drottinn hafði boðið Móse og drápu alla karlmenn.

8Þeir drápu einnig konunga Midíans auk annarra sem höfðu verið felldir, þá Eví, Rekem, Súr, Húr og Reba, fimm konunga Midíans. Þeir drápu einnig Bíleam Beórsson með sverði.

9Ísraelsmenn tóku konur Midíaníta og börn þeirra að herfangi og auk þess allt búfé þeirra, nautgripi og öll auðæfi.

10Þeir brenndu allar borgir á landsvæði þeirra og einnig tjaldbúðir þeirra til ösku.

11Þeir tóku með sér allt herfangið og ránsfenginn, bæði menn og skepnur.

12Þeir fóru með fangana, ránsfenginn og herfangið til Móse og Eleasars prests og alls safnaðar Ísraelsmanna inn í herbúðirnar á gresjum Móabs við Jórdan gegnt Jeríkó.

13Móse, Eleasar prestur og allir höfðingjar safnaðarins gengu út úr herbúðunum til móts við þá.

14En Móse reiddist hershöfðingjunum, höfuðsmönnum þúsundmannaliða og hundraðshöfðingjunum sem komu heim úr stríðinu

15og sagði við þá: „Hvers vegna hafið þið gefið öllum konunum líf?

16Það voru einmitt þær sem fylgdu ráði Bíleams og urðu til þess að Ísrael brást Drottni í málinu við Peór svo að plága kom yfir söfnuð Drottins.

17Drepið nú öll sveinbörn, drepið einnig allar konur sem hafa haft mök við karlmann og sofið hjá honum.

18En öllum stúlkubörnum, sem ekki hafa enn haft mök við karlmann, skuluð þið gefa líf og halda þeim fyrir ykkur sjálfa.

19En sjálfir skuluð þið tjalda í sjö daga utan við herbúðirnar. Sérhver sem hefur drepið einhvern og sérhver sem hefur snert veginn mann verður að hreinsa sig af synd á þriðja og sjöunda degi, bæði þið sjálfir og fangar ykkar.

20Þið verðið einnig að hreinsa synd af öllum klæðisplöggum, öllu sem gert er úr leðri, öllu sem gert er úr geitahári og öllum áhöldum úr tré.“

21Eleasar prestur sagði við hermennina sem höfðu farið í stríðið: „Þetta er lagaákvæði sem Drottinn hefur boðið Móse:

22Gull, silfur, eir, járn, tin og blý,

23í stuttu máli allt sem þolir að fara gegnum eld, skuluð þið senda gegnum eld svo að það verði hreint. En það þarf einnig að hreinsa það af synd með hreinsunarvatni. Allt, sem ekki þolir að fara gegnum eld, skuluð þið senda gegnum vatn.

24Þið skuluð þvo klæði ykkar sjöunda daginn svo að þið verðið hreinir. Því næst megið þið ganga aftur inn í herbúðirnar.“

25Drottinn talaði til Móse og sagði:

26„Kastaðu tölu á herfangið, bæði menn og skepnur, þú sjálfur, Eleasar prestur og ættarhöfðingjar safnaðarins.

27Síðan skaltu skipta því sem tekið var til helminga á milli þeirra sem tóku þátt í stríðinu, þeirra sem fóru á vígvöllinn og alls safnaðarins.

28Þú skalt taka gjald til Drottins af hermönnunum sem fóru í stríðið, eitt af hverjum fimm hundruð sem tekin voru herfangi, af mönnum, nautum, ösnum, sauðfé og geitfé.

29Þú skalt taka þetta af hlut hermannanna og fá það Eleasar presti í afgjald til Drottins.

30Af helmingi Ísraelsmanna skaltu taka af handahófi eitt af hverjum fimmtíu, af mönnum, nautum, ösnum, sauðfé og geitfé, það er af öllu búfé, og fá það Levítunum sem gæta bústaðar Drottins.“

31Móse og Eleasar prestur gerðu það sem Drottinn bauð Móse.

32Herfangið, það sem eftir var af því sem hermennirnir höfðu tekið, taldist vera 675.000 sauðfjár og geitfjár,

3372.000 nautgripir,

3461.000 asnar

35og 32.000 konur sem ekki höfðu haft mök við karlmann.

36Helmingur hlutar þeirra sem höfðu farið í stríðið taldist vera 337.500 sauðfjár og geitfjár,

37af þeim komu 675 í hlut Drottins.

38Nautin voru 36.000 og 72 voru hlutur Drottins.

39Asnar voru 30.500 og var 61 hlutur Drottins.

40Konurnar voru 16.000 og 32 voru hlutur Drottins.

41Móse fékk Eleasar presti hlut Drottins eins og Drottinn hafði boðið Móse.

42Sá hlutur Ísraelsmanna, sem Móse hafði tekið af öllu herfangi hermannanna,

43taldist vera 337.500 sauðfjár og geitfjár,

4436.000 naut,

4530.500 asnar

46og 16.000 konur.

47Af þessum helmingi, sem ætlaður var Ísraelsmönnum, tók Móse einn af hverjum fimmtíu, bæði af mönnum og búfénaði, og fékk Levítunum sem gættu bústaðar Drottins eins og Drottinn hafði boðið honum.

48Leiðtogarnir, sem settir voru yfir þúsundir Ísraels, höfuðsmenn þúsundmannaliða og hundraðshöfðingjar, komu til Móse

49og sögðu: „Þjónar þínir hafa talið hermennina sem voru undir stjórn okkar og einskis þeirra var saknað.

50Við færum því fram gjöf til Drottins, sérhver það sem hann hefur fundið: gripi úr gulli, armbönd, armhringi, fingurgull, eyrnahringi og hálsmen til að friðþægja fyrir líf okkar.“

51Móse og Eleasar prestur tóku við gullinu af þeim og var það allt listasmíð.

52Allt gullið, sem þeir færðu Drottni í fórnargjöf, var 16.750 siklar.

53Hermennirnir höfðu tekið herfang handa sjálfum sér.

54Móse og Eleasar prestur tóku við gullinu og fóru með það í samfundatjaldið til þess að Ísraelsmanna yrði minnst frammi fyrir augliti Drottins.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help