1Þegar Ehúð var dáinn gerðu Ísraelsmenn enn að nýju það sem illt var í augum Drottins.
2Og Drottinn seldi þá í hendur Jabín, konungi í Kanaanslandi, sem hafði aðsetur í Hasór. Hershöfðingi hans hét Sísera og bjó hann í Haróset Hagojím.
3Ísraelsmenn hrópuðu til Drottins því að Jabín átti níu hundruð járnvagna og hafði kúgað Ísraelsmenn harðlega í tuttugu ár.
4Kona hét Debóra. Hún var spámaður og eiginkona manns er hét Lapídót. Hún var dómari í Ísrael á þessum tíma.
5Hún sat undir Debórupálma milli Rama og Betel á Efraímsfjöllum og Ísraelsmenn komu þangað upp til hennar og lögðu mál sín fyrir hana.
6Hún sendi boð og lét kalla til sín Barak Abínóamsson frá Kedes í Naftalí og sagði við hann: „Hefur Drottinn, Guð Ísraels, ekki boðið svo: Farðu og haltu til Taborfjalls og hafðu með þér tíu þúsund menn af niðjum Naftalí og Sebúlons?
7Og ég mun leiða til þín Sísera, hershöfðingja Jabíns, með vögnum sínum og herliði að Kísonlæk og ég mun gefa hann þér á vald.“
8Barak sagði við hana: „Ég fer ef þú ferð með mér en viljir þú ekki fara með mér mun ég hvergi fara.“
9Hún svaraði: „Víst mun ég fara með þér þótt þú munir enga sæmd hljóta af þessari för þinni því að Drottinn mun selja Sísera í hendur konu.“ Síðan fór Debóra af stað og hélt með Barak til Kedes.
10Þá kallaði Barak saman Sebúlon og Naftalí í Kedes, tíu þúsund menn fóru með honum og Debóra var honum samferða.
11Heber Keníti hafði skilist við Kenítana, niðja Hóbabs, tengdaföður Móse, og sló hann tjöldum sínum allt að Elon Besaanaím sem er hjá Kedes.
12Sísera var sagt frá því að Barak Abínóamsson væri farinn upp á Taborfjall.
13Dró Sísera þá saman alla vagna sína, níu hundruð járnvagna, og allt það lið sem með honum var, frá Haróset Hagojím til Kísonlækjar.
14Þá sagði Debóra við Barak: „Rístu upp því að nú er sá dagur kominn að Drottinn mun selja Sísera þér í hendur. Vissulega fer Drottinn fyrir þér.“ Fór Barak þá ofan af Taborfjalli og tíu þúsund menn fylgdu honum.
15Og Drottinn hrelldi Sísera og alla vagna hans og allan her hans með sverðseggjum frammi fyrir Barak svo að Sísera stökk af vagni sínum og flýði á hlaupum.
16En Barak elti vagnana og herinn allt til Haróset Hagojím og allur her Sísera féll fyrir sverði. Enginn komst undan.
17Sísera flýði á hlaupum til tjalds Jaelar, konu Hebers Keníta, því að friður var milli Jabíns, konungs í Hasór, og ættar Hebers Keníta.
18Jael gekk út til móts við Sísera og sagði við hann: „Gakktu inn, herra minn, gakktu inn til mín og vertu óhræddur.“ Og hann gekk inn til hennar í tjaldið og hún lagði ábreiðu yfir hann.
19Þá sagði hann við hana: „Gefðu mér vatnssopa að drekka því að ég er þyrstur.“ Hún opnaði þá mjólkurbelg og gaf honum að drekka og breiddi síðan ofan á hann aftur.
20Þá sagði hann við hana: „Stattu í tjalddyrunum. Ef einhver kemur og spyr þig: Er nokkur hér? þá skaltu neita því.“
21Jael, kona Hebers, þreif tjaldhæl og tók hamar í hönd sér og gekk hljóðlega inn til Sísera sem fallinn var í fastasvefn því að hann var þreyttur. Hún rak hælinn gegnum gagnauga hans svo að hann gekk í jörð niður. Varð þetta hans bani.
22Í sama bili kom Barak og var að elta Sísera. Jael gekk þá út á móti honum og sagði við hann: „Komdu hingað, ég skal sýna þér þann sem þú leitar að.“ Og hann gekk inn til hennar og lá þá Sísera þar dauður með hælinn gegnum gagnaugað.
23Þannig sigraði Guð á þeim degi Jabín, konung í Kanaan, fyrir Ísraelsmenn.
24Og hönd Ísraelsmanna hvíldi æ þyngra á Jabín Kanverjakonungi uns þeir að lokum gerðu út af við hann.
Who We AreWhat We EelieveWhat We Do
2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.