Jeremía 29 - Biblían (2007)

Bréf Jeremía til útlaganna í Babýlon

1Þannig hljóðar bréfið sem Jeremía spámaður sendi frá Jerúsalem til þeirra sem eftir voru af öldungum útlaganna, til prestanna, spámannanna og alls fólksins sem Nebúkadnesar hafði flutt í útlegð frá Jerúsalem til Babýlonar.

2Hann sendi það eftir að Jekonja konungur og konungsmóðirin höfðu yfirgefið Jerúsalem ásamt hirðmönnunum, höfðingjunum í Júda og Jerúsalem, trésmiðum og járnsmiðum.

3Bréfið sendi hann með Elasa Safanssyni og Gemaría Hilkíasyni sem Júdakonungur sendi til Babýlonar, til Nebúkadnesars konungs í Babýlon. Bréfið var á þessa leið:

4Svo segir Drottinn hersveitanna, Guð Ísraels, við alla útlagana sem ég sendi frá Jerúsalem til Babýlonar:

5Reisið hús og búið í þeim. Gróðursetjið garða og neytið ávaxta þeirra.

6Takið yður konur og getið syni og dætur. Takið sonum yðar konur og giftið dætur yðar svo að þær eignist syni og dætur og yður fjölgi þarna en fækki ekki.

7Vinnið að hagsæld þeirrar borgar sem ég gerði yður útlæga til. Biðjið Drottin fyrir henni því að hennar heill er yðar heill.

8Því að svo segir Drottinn hersveitanna, Guð Ísraels: Látið hvorki spámenn né spásagnamenn, sem eru á meðal yðar, blekkja yður. Hlustið ekki á drauma sem þá dreymir.

9Því að það er lygi sem þeir boða yður í mínu nafni, ég hef ekki sent þá, segir Drottinn.

10Já, svo segir Drottinn: Þegar sjötíu ár eru liðin í Babýlon mun ég vitja yðar. Þá mun ég standa við heit mitt og flytja yður aftur til þessa staðar.

11Því að ég þekki sjálfur þær fyrirætlanir sem ég hef í hyggju með yður, segir Drottinn, fyrirætlanir til heilla en ekki til óhamingju, að veita yður vonarríka framtíð.

12Þegar þér ákallið mig og komið og biðjið til mín mun ég bænheyra yður.

13Ef þér leitið mín munuð þér finna mig. Þegar þér leitið mín af öllu hjarta

14læt ég yður finna mig, segir Drottinn. Ég mun snúa við högum yðar og safna yður saman frá öllum þeim þjóðum og stöðum sem ég hef hrakið yður til, segir Drottinn. Ég mun flytja yður aftur til þess staðar sem ég gerði yður útlæga frá.

15Þér segið: „Drottinn lét spámann koma fram vor vegna í Babýlon.“

16Svo segir Drottinn um konunginn sem situr í hásæti Davíðs og allt fólkið sem býr í þessari borg, bræður yðar sem ekki þurftu að fara í útlegð með yður:

17Svo segir Drottinn hersveitanna: Ég sendi sverð, hungur og drepsótt gegn þeim og ég fer með þá eins og með rotnu fíkjurnar sem eru svo vondar að þær eru óætar.

18Ég ofsæki þá með sverði, hungri og drepsótt og læt þá valda öllum konungsríkjum jarðar skelfingu. Ég geri þá að tilefni formælinga og skelfingar, háðs og spotts meðal allra þeirra þjóða sem ég hrek þá til

19af því að þeir hafa ekki hlustað á orð mín, segir Drottinn. Ég sendi þjóna mína, spámennina, hvað eftir annað til þeirra en þeir hlustuðu ekki, segir Drottinn.

20En þér, útlagarnir, sem ég rak frá Jerúsalem til Babýlonar, hlustið á orð Drottins.

21Svo segir Drottinn hersveitanna, Guð Ísraels, um Ahab Kólajason og Sedekía Maasejason sem boða yður lygar í mínu nafni: Ég sel þá í hendur Nebúkadresari konungi í Babýlon. Hann mun láta höggva þá fyrir augum yðar.

22Á meðal útlaganna frá Júda, sem eru í Babýlon, verða nöfn þeirra notuð til bölbæna og sagt: „Drottinn fari með þig eins og Sedekía og Ahab sem konungur Babýlonar steikti yfir eldi.“

23Þetta verður af því að þeir frömdu óhæfuverk í Ísrael, drýgðu hór með eiginkonum landa sinna og fluttu boðskap í mínu nafni, lygar sem ég hafði ekki lagt fyrir þá. Ég veit það sjálfur og er vitni þess, segir Drottinn.

Svar Semaja spámanns

24Þetta skaltu segja við Semaja frá Nehalam:

25Svo segir Drottinn hersveitanna, Guð Ísraels: Þú hefur í eigin nafni sent bréf til allra sem búa í Jerúsalem, til Sefanía prests Maasejasonar og allra hinna prestanna og sagt:

26„Drottinn hefur gert þig að presti í stað Jójada prests. Þú átt að hafa stjórn á öllum sturluðum mönnum í musterinu, sem koma fram í spámannlegri leiðslu, og setja þá í gapastokk og hálsjárn.

27Hvers vegna hefur þú ekki ávítað Jeremía frá Anatót sem nú kemur fram í spámannlegri leiðslu meðal yðar?

28Því að hann hefur sent oss í Babýlon boð: Þetta mun vara lengi. Reisið hús og búið í þeim. Gróðursetjið garða og neytið ávaxta þeirra.“

29Sefanía prestur las þetta bréf fyrir Jeremía spámann.

30Þá kom orð Drottins til Jeremía:

31Sendu þennan boðskap til allra útlaganna: Svo segir Drottinn um Semaja frá Nehalam: Semaja hefur flutt yður spámannlegan boðskap þó að ég hafi ekki sent hann. Hann hefur blekkt yður til að reiða yður á lygar.

32Þess vegna segir Drottinn: Ég mun draga Semaja frá Nehalam og niðja hans til ábyrgðar. Ekkert ættmenna hans mun búa með þessu fólki og njóta þeirra gæða sem ég mun veita þjóð minni, segir Drottinn, því að hann hefur hvatt til fráhvarfs frá Drottni.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help