Nehemíabók 9 - Biblían (2007)

Fólkið játar syndir sínar

1Tuttugasta og fjórða dag þessa mánaðar söfnuðust Ísraelsmenn saman og föstuðu, klæddir hærusekk og með mold á höfði.

2Niðjar Ísraels greindu sig frá öllum þeim sem voru af öðru þjóðerni, gengu fram og játuðu syndir sínar og afbrot feðra sinna

3og tóku sér stöðu á sínum stað. Fjórðung dagsins var lesið úr lögmálsbók Drottins, Guðs þeirra, og annan fjórðung játuðu þeir syndir sínar og féllu fram fyrir Drottni, Guði sínum.

4Jesúa, Baní, Kadmíel, Sebanja, Búnní, Serebja, Banní og Kenaní stóðu á Levítapallinum og hrópuðu hárri röddu til Drottins, Guðs síns.

5Levítarnir Jesúa, Kadmíel, Baní, Hasabneja, Serebja, Hódía, Sebanja og Patahja sögðu: „Rísið upp og lofið Drottin, Guð ykkar, ævinlega. Lofað sé þitt dýrlega nafn þó að það sé hafið yfir alla lofgjörð og þökk.“

Beðið fyrir þjóðinni

6Þú ert Drottinn, þú einn.

Þú hefur gert himininn,

himin himinsins og allan hans her,

jörðina og allt sem á henni er,

höfin og allt sem í þeim er.

Þú fyllir þau öll lífi

og himinsins her sýnir þér lotningu.

7Þú, Drottinn, ert Guð.

Þú sem valdir Abram.

Þú leiddir hann frá Úr í Kaldeu

og gafst honum nafnið Abraham.

8Þú reyndir hjarta hans að trúfesti við þig,

þess vegna gerðir þú við hann þann sáttmála

að gefa niðjum hans land

Kanverja, Hetíta, Amoríta,

Peresíta, Jebúsíta og Gírgasíta.

Þú hefur efnt fyrirheit þitt

því að þú ert réttlátur.

9Þú sást eymd feðra vorra í Egyptalandi

og heyrðir neyðaróp þeirra við Sefhafið.

10Þú gerðir tákn og undur gegn faraó

og öllum mönnum hans og allri þjóðinni í landi hans

því að þú vissir að þeir hreyktu sér gegn Ísraelsmönnum

og þú ávannst þér það nafn

sem þú berð nú í dag.

11Þú klaufst hafið fyrir framan þá

svo að þeir gengu á þurru mitt í gegnum hafið

en þeim sem eltu þá steyptir þú í djúpið

eins og steini í ólgandi vatnsflaum.

12Þú leiddir þá í skýstólpa um daga

og í eldstólpa um nætur

til þess að lýsa fyrir þá veginn

sem þeir áttu að ganga.

13Þú steigst niður á Sínaífjall

og ávarpaðir þá frá himni.

Þú gafst þeim skýr fyrirmæli

og traust lög,

góð boð og ákvæði,

14boðaðir þeim hinn heilaga hvíldardag þinn

og ákvæði, boð og lög

fékkstu þeim fyrir munn Móse, þjóns þíns.

15Þú gafst þeim brauð af himni

til að seðja hungur þeirra,

lést vatn streyma úr kletti

til að slökkva þorsta þeirra.

Þú skipaðir þeim að koma

og taka það land til eignar

sem þú hafðir svarið að gefa þeim

með upplyftri hendi.

16En þeir, feður vorir, fylltust hroka,

urðu harðsvíraðir og hlýddu ekki boðum þínum.

17Þeir vildu ekki hlýða

og minntust ekki máttarverka þinna sem þú vannst fyrir þá.

Þeir þverskölluðust og einsettu sér

að halda aftur í þrælkunina í Egyptalandi.

En þú ert Guð sem fyrirgefur,

náðugur og miskunnsamur,

seinn til reiði og gæskuríkur

og þú yfirgafst þá ekki.

18Þeir gerðu sér meira að segja steyptan kálf

og sögðu: „Þetta er Guð þinn sem leiddi þig út úr Egyptalandi,“

og guðlöstuðu ákaflega.

19En þrátt fyrir þetta yfirgafstu þá ekki í eyðimörkinni

vegna þinnar miklu miskunnsemi:

skýstólpinn vék ekki frá þeim

heldur leiddi þá um daga

og eldstólpinn um nætur

til að lýsa þeim veginn

sem þeir áttu að ganga.

20Þú gafst þeim þinn góða anda til að auka þeim skilning.

Þú lést þá ekki skorta manna

og þú gafst þeim vatn til að slökkva þorstann.

21Þú ólst önn fyrir þeim í fjörutíu ár,

þá skorti ekkert í eyðimörkinni:

klæði þeirra slitnuðu ekki

og fætur þeirra þrútnuðu ekki.

22Þú gafst þeim konungsríki og þjóðir

og úthlutaðir þeim sem landamærahéruðum.

Þannig tóku þeir land Síhons

og land konungsins af Hesbon

og land Ógs, konungs í Basan.

23Þú gerðir niðja þeirra

jafnmarga stjörnum himinsins

og leiddir þá inn í landið

sem þú hafðir heitið feðrum þeirra

að þeir skyldu komast inn í og taka til eignar.

24Niðjar þeirra komu og tóku landið til eignar

og þú lagðir undir þá íbúa landsins, Kanverjana.

Þú seldir þá í hendur þeirra

ásamt konungum þeirra og öðrum íbúum landsins

svo að þeir gætu farið með þá að vild.

25Þeir unnu víggirtar borgir og frjósama akra,

tóku til eignar vel búin hús,

úthöggna brunna, víngarða og ólífutré og fjölmörg ávaxtatré.

Þeir átu, urðu mettir og fitnuðu

og lifðu í velsæld af þínum ríkulegu gjöfum.

26En þeir þrjóskuðust og gerðu uppreisn gegn þér

og sneru baki við lögmáli þínu.

Þeir drápu spámenn þína sem áminntu þá

og vildu leiða þá aftur til þín.

Þá guðlöstuðu þeir mjög.

27Þú seldir þá í hendur fjandmanna þeirra

og þeir kúguðu þá.

Í nauðum hrópuðu þeir til þín

og þú bænheyrðir þá af himni.

Þú sendir þeim frelsara af mikilli miskunn þinni

og þeir björguðu þeim úr höndum kúgara þeirra.

28Um leið og þeir fengu frið

frömdu þeir aftur illvirki fyrir augliti þínu.

Þú yfirgafst þá í greipum fjandmanna sinna

og þeir kúguðu þá.

Þá hrópuðu þeir aftur til þín

og þú bænheyrðir þá af himni.

Þú bjargaðir þeim margsinnis af miskunn þinni.

29Þú áminntir þá um að snúa aftur til lögmáls þíns

en þeir voru hrokafullir

og hlýddu ekki boðum þínum.

Þeir syndguðu gegn fyrirmælum þínum

en hver sá hlýtur líf sem breytir eftir þeim.

En þeir sneru baki við þér í þverúð

og urðu harðsvíraðir og hlýddu ekki.

30Þú sýndir þeim þolinmæði í mörg ár

og varaðir þá við með anda þínum

fyrir munn spámanna þinna

en þeir hlustuðu ekki.

Þá framseldir þú þá í hendur þjóðum

í öðrum löndum.

31En vegna þinnar miklu miskunnsemi

tortímdir þú þeim ekki

og þú yfirgafst þá ekki

því að þú ert náðugur og miskunnsamur Guð.

32Guð vor, þú mikli, voldugi og ógurlegi Guð.

Þú sem heldur sáttmálann í trúfesti.

Lítilsvirtu ekki allt það harðræði

sem vér höfum þolað,

konungar vorir og höfðingjar,

prestar og spámenn,

feður vorir og öll þjóð þín,

frá dögum Assýríukonunga

og allt til þessa dags.

33Þú varst réttlátur í öllu sem yfir oss kom

því að þú sýndir trúfesti þegar vér breyttum óguðlega.

34Já, konungar vorir, höfðingjar, prestar og feður

fóru ekki eftir lögmáli þínu.

Þeir gáfu hvorki gaum boðum þínum né viðvörunum

sem þú gafst þeim.

35Þegar þeir bjuggu í eigin konungsríki,

í velsæld sem þú veittir þeim,

í víðu og frjósömu landi sem þú gafst þeim,

þjónuðu þeir þér ekki

og létu ekki af illum verkum sínum,

36þess vegna erum vér þrælar nú í dag.

Þú gafst feðrum vorum landið

til þess að þeir nytu ávaxta þess og auðs,

en vér erum þrælar í því.

37Ríkulegir ávextir þess

fara til konunga sem þú settir yfir oss vegna þess

að vér syndguðum.

Þeir drottna yfir líkömum vorum og fénaði

að eigin geðþótta.

Þess vegna þrengir að oss.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help