Síraksbók 27 - Biblían (2007)

1Margan hefur gróði ginnt til syndar,

sá er auði vill safna lokar augum fyrir mörgu.

2Líkt og fleygur er rekinn milli steina

þröngvar syndin sér milli kaupa og sölu.

3Sá sem eigi iðkar guðsótta heils hugar

sér hús sitt fljótt lagt í rústir.

Af máli má manninn þekkja

4Þegar sáldið er hrist verður skarnið eftir,

eins birtast brestir manna við rökræður.

5Leirker eru reynd í brennsluofni

en maðurinn í samræðum.

6Ávextir sýna hvernig hlúð var að trénu,

eins má greina innræti manns af orðum hans.

7Lofaðu engan fyrr en þú hlýðir á mál hans

því að þannig eru menn reyndir.

Um heiðarleika

8Ef þú keppir að réttlæti muntu hljóta það

og íklæðast því sem vegsemdarskikkju.

9Fuglar hreiðra sig með sínum líkum

og heiðarleiki leitar þeirra sem iðka hann.

10Ljónið situr um bráð sína

og syndin um þá sem breyta illa.

Um þvaður

11Mál guðhrædds manns er ætíð viska

en óskynsamur umhverfist sem máninn.

12Sóa ei tíma í heimskingjahópi

en ver öllum stundum hjá hyggindamönnum.

13Frásagnir fávísra ergja mjög

og hinar verstu syndir eru þeim aðhlátursefni.

14Bölv þeirra og ragn fær hárin til að rísa

og menn stinga upp í eyrun er þeir stæla.

15Deilur drambsamra enda með úthelltu blóði

og karp þeirra er skelfing að heyra.

Um að ljóstra upp leyndarmáli

16Sá er ljóstrar upp leyndarmáli fyrirgerir trausti,

náinn vin eignast hann aldrei.

17Elska vin þinn og ver honum trúr.

En ljóstrir þú upp leyndarmáli hans

skaltu ei leita samfunda við hann.

18Því að eins og maður deyðir óvin sinn,

þannig hefur þú deytt vináttu náunga þíns.

19Líkt og þú slepptir fugli úr hendi

misstir þú vin sem þú fangar ei framar.

20Eltu hann ekki því að hann er allur á braut,

hlaupinn á brott eins og hind úr snöru.

21Um sár má binda og fyrirgefa níð

en sá er ljóstrar upp leyndarmáli á enga von.

Um hræsni og fláræði

22Sá er augum deplar hefur illt í hyggju,

sá sem þekkir hann heldur sig fjarri honum.

23Andspænis þér er hann blíður í máli

og dáist að öllu sem þú segir.

Síðar kveður mjög við annan tón,

hann umsnýr orðum þínum þér til falls.

24Margt er mér andstyggð en ekkert sem hann,

viðurstyggð er hann í augum Drottins.

25Steinn kemur þeim í koll sem kastar honum beint upp

og sá er svíkst að öðrum særir sjálfan sig.

26Sá fellur í gröf sem grefur hana,

sá er egnir gildru fangast sjálfur.

27Sá er gerir illt fær illt yfir sig

án þess að skilja hvaðan það kemur.

28Háð og spott hendir dramblátan,

hefndin situr um hann líkt og ljón.

29Þeir sem hlakka yfir falli guðhræddra fangast í snöru

og kvöl mun tæra þá fyrir banadægur.

Um hefndarhuga

30Heift og reiði eru einnig andstyggð,

syndarinn heldur fast við hvort tveggja.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help