Jósúabók 3 - Biblían (2007)

Förin yfir Jórdan

1Snemma morguns ferðbjóst Jósúa og hélt af stað frá Sittím ásamt öllum Ísraelsmönnum. Þegar þeir komu að Jórdan héldu þeir kyrru fyrir áður en þeir fóru yfir ána.

2Að þremur dögum liðnum fóru eftirlitsmennirnir um búðirnar

3og gáfu fólkinu þessi fyrirmæli: „Þegar þið sjáið sáttmálsörk Drottins, Guðs ykkar, og Levítaprestana sem bera hana skuluð þið fara á eftir henni hvar sem þið eruð stödd.

4Þannig fáið þið að vita hvaða leið þið eigið að fara en hana hafið þið aldrei farið áður. Gætið þess að um tvö þúsund álnir skulu vera á milli ykkar og arkarinnar, komið ekki of nálægt henni.“

5Þá sagði Jósúa við fólkið:

„Helgið ykkur því að á morgun mun Drottinn vinna kraftaverk á meðal ykkar.“

6Því næst sagði Jósúa við prestana: „Hefjið sáttmálsörkina upp og haldið af stað á undan fólkinu.“ Þá hófu þeir sáttmálsörkina upp og gengu á undan fólkinu.

7Drottinn sagði þá við Jósúa:

„Í dag tek ég að upphefja þig í augum alls Ísraels svo að hann komist að raun um að ég verð með þér eins og ég var með Móse.

8En bjóð þú prestunum sem bera sáttmálsörkina: Þegar þið eruð komnir að Jórdan skuluð þið nema staðar úti í ánni.“

9Því næst ávarpaði Jósúa Ísraelsmenn:

„Komið hingað og hlustið á boðskap Drottins, Guðs ykkar.“

10Síðan sagði hann: „Þannig skuluð þið komast að raun um að lifandi Guð er meðal ykkar og hann mun ryðja Kanverjum, Hetítum, Hevítum, Peresítum, Gírgasítum, Amorítum og Jebúsítum úr vegi ykkar.

11Sáttmálsörk Drottins allrar jarðar fer nú fyrir ykkur yfir Jórdan.

12Veljið nú tólf menn úr ættbálkum Ísraels, einn mann úr hverjum ættbálki.

13Jafnskjótt og fætur prestanna sem bera sáttmálsörk Drottins, sem er Drottinn allrar veraldar, snerta vatn Jórdanar mun vatn árinnar skiptast og vatnið, sem rennur ofan að, standa sem veggur.“

14Þegar fólkið hélt af stað úr tjöldum sínum til þess að fara yfir Jórdan fóru prestarnir, sem báru sáttmálsörkina, fyrir fólkinu.

15Allan uppskerutímann flæðir Jórdan yfir bakka sína. Þegar þeir sem báru örkina komu að Jórdan og prestarnir drápu fæti í fljótið

16stöðvaðist vatnið sem streymdi ofan að og stóð eins og veggur langt frá þeim eða við Adamborg sem er í nánd við Sartan. En vatnið, sem rann niður eftir í áttina að Arabavatni, að salta vatninu, hvarf með öllu. Þá fór fólkið yfir um gegnt Jeríkó.

17Prestarnir, sem báru sáttmálsörk Drottins, stóðu föstum fótum á þurru, mitt í Jórdan, á meðan allur Ísrael fór yfir ána þurrum fótum, þar til öll þjóðin var komin yfir Jórdan.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help