Önnur Mósebók 38 - Biblían (2007)

Brennifórnaraltarið og vatnskerið

1Hann gerði brennifórnaraltarið úr akasíuviði. Það var fimm álna langt, fimm álna breitt, ferhyrnt og þriggja álna hátt.

2Hann gerði horn á það upp af fjórum hornum þess. Hornin voru föst við það. Hann lagði altarið eir.

3Hann gerði öll áhöldin fyrir altarið: kerin, skóflurnar, skálar fyrir dreypifórnir, gaffla og eldpönnur. Hann gerði öll áhöld þess úr eir.

4Hann gerði grindur um altarið, eins og riðið net, úr eir neðan við brúnina upp að miðju þess.

5Hann steypti fjóra hringi á fjögur horn eirgrindverksins til að smeygja stöngunum í.

6Hann gerði stengurnar úr akasíuviði og lagði þær eir.

7Hann smeygði stöngunum í hringina á hliðum altarisins svo að hægt væri að bera það. Hann gerði altarið úr borðum, holt að innan.

8Hann gerði ker úr eir og stétt úr eir undir það úr speglum þeirra kvenna sem gegndu þjónustu við dyr samfundatjaldsins.

Forgarðurinn

9Hann gerði forgarðinn. Á suðurhliðinni var forgarðurinn búinn veggtjöldum úr tvinnuðu, fínu líni, hundrað álna löngum.

10Þar voru tuttugu súlur á tuttugu sökklum úr eir en naglarnir í súlunum og þverslárnar voru úr silfri.

11Að norðanverðu voru einnig veggtjöld eftir endilangri hliðinni, hundrað álna löng, einnig tuttugu súlur á tuttugu sökklum úr eir en naglarnir í súlunum og þverslárnar voru úr silfri.

12Að vestanverðu voru fimmtíu álna löng tjöld og tíu súlur á sökklum.

13Að austanverðu voru einnig fimmtíu álna löng tjöld.

14Öðrum megin voru fimmtán álna löng tjöld og þrjár súlur ásamt þremur sökklum

15og hinum megin, báðum megin við hlið forgarðsins, voru einnig fimmtán álna löng tjöld og þrjár súlur á þremur sökklum.

16Öll tjöld umhverfis forgarðinn voru úr tvinnuðu, fínu líni.

17Sökklarnir undir súlunum voru úr eir en naglarnir og þverslárnar úr silfri og súlnahöfuðin voru lögð silfri. Allar súlur forgarðsins höfðu þverslár úr silfri.

18Forhengið fyrir hliði forgarðsins var úr bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnuðu, fínu líni, listilega gert. Það var tuttugu álna langt og fimm álna hátt í samræmi við breiddina á tjöldum forgarðsins.

19Þar til heyrðu fjórar súlur á fjórum undirstöðum úr eir en naglarnir í þeim voru úr silfri, súlnahöfuðin lögð silfri og þverslárnar úr silfri.

20Allir tjaldhælar búðarinnar og forgarðsins voru úr eir, hringinn í kring.

Kostnaðaruppgjör vegna helgidómsins

21Þetta er kostnaðaruppgjör vegna samfundatjaldsins, bústaðar sáttmálstáknsins, sem var gert að fyrirmælum Móse. Það var gert af Levítunum undir stjórn Ítamars Aronssonar prests.

22Besalel Úríson, Húrssonar, af ættbálki Júda, annaðist allt sem Drottinn hafði falið Móse og

23Oholíab Akísamaksson af ættbálki Dans vann ásamt honum að steinskurði, listvefnaði og glitvefnaði úr bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og úr fínu líni.

24Allt gullið, sem var notað til þess sem gert var, til alls verksins við að reisa helgidóminn, var gull sem gefið var í helgigjafir. Það var tuttugu og níu talentur og sjö hundruð og þrjátíu siklar að þyngd miðað við helgidómssikil.

25Silfrið frá þeim í söfnuðinum, sem höfðu verið taldir í manntali, var hundrað talentur og sautján hundruð sjötíu og fimm siklar að þyngd miðað við helgidómssikil,

26hálfur sikill á hvern þann sem hafði verið talinn og var tuttugu ára og eldri. Það voru sex hundruð og þrjú þúsund fimm hundruð og fimmtíu manns.

27Hundrað talentur silfurs voru notaðar til að steypa sökkla helgidómsins og sökkla fortjaldsins, hundrað sökkla úr hundrað talentum eða hvern sökkul úr einni talentu.

28Úr sautján hundruð sjötíu og fimm siklum gerði hann nagla í súlurnar, lagði súlnahöfuðin silfri og bjó til þverslárnar.

29Eirinn, sem hafði verið gefinn í helgigjafir, var sjötíu talentur og tvö þúsund og fjögur hundruð siklar að þyngd.

30Úr því gerði hann sökkla undir dyr samfundatjaldsins, eiraltarið og eirgrindurnar umhverfis og öll altarisáhöldin,

31sökkla umhverfis allan forgarðinn, sökkla undir hlið forgarðsins, alla tjaldhæla fyrir tjaldbúðina og alla hæla allt í kringum forgarðinn.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help