Esterarbók 7 - Biblían (2007)

1Er konungur og Haman komu til veislu hjá Ester drottningu

2spurði konungur hana hins sama og daginn áður þegar þau voru sest að drykkju: „Hvers óskarðu þér, Ester drottning? Það skal veitast þér. Hvað viltu biðja um? Þótt þú biðjir um hálft konungsríkið mun ég verða við þeirri bón.“

3Þá svaraði Ester drottning: „Hafi ég fundið náð fyrir augum þínum og þóknist það konunginum er ósk mín sú að ég fái að halda lífi og að þjóð mín verði mér gefin fyrir bænastað minn.

4Við höfum verið seld, ég og þjóð mín, til eyðingar, dauða og tortímingar. Hefðum við aðeins verið seld mansali sem þrælar og ambáttir hefði ég þagað enda væri ánauð okkar þá ekki þess verð að konungur hefði af henni ónæði.“

5Þá sagði Xerxes konungur að bragði við Ester drottningu: „Hver er sá sem dirfist að gera slíkt og hvar er hann?“

6Ester svaraði: „Sá ofríkismaður og óvinur er hrakmennið hann Haman.“ Haman varð nú dauðhræddur við þau konung og drottningu.

7Konungur spratt upp frá drykkjunni ævareiður og gekk út í hallargarðinn. Haman varð eftir og hugðist biðja Ester drottningu að þyrma lífi sínu því að hann sá að einskis góðs var að vænta af konungi.

8Þegar konungur sneri aftur inn í veislusalinn utan úr hallargarðinum hafði Haman látið sig falla á hvílubekk þann sem Ester sat á. Þá sagði konungur: „Ætlar hann nú líka að fara að nauðga drottningunni fyrir augunum á mér hér í höllinni?“ Ekki hafði konungur fyrr sleppt orðinu en menn drógu hulu yfir andlit Hamans.

9Harbóna, einn af geldingum konungs, sagði þá: „Haman lét reisa gálga og ætlaði hann Mordekaí, manninum sem þó hafði bjargað konungi með orðum sínum. Og nú stendur gálginn tilbúinn í húsagarði Hamans, fimmtíu álnir á hæð.“ Þá sagði konungur: „Festið Haman á hann!“

10Og Haman var festur á gálgann sem hann sjálfur hafði reist og ætlað Mordekaí. Eftir þetta mildaðist reiði konungs.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help