1Makkabeusi og mönnum hans auðnaðist með Guðs hjálp að ná musterinu og borginni á sitt vald.
2Þeir rifu niður ölturun, sem útlendingarnir höfðu reist á torginu, og aðra helgidóma þeirra.
3Eftir að hafa hreinsað musterið reistu þeir þar nýtt altari. Með því að ljósta saman steinum tendruðu þeir eld til að nota er þeir færðu fórnir eftir tveggja ára hlé. Þeir brenndu og reykelsi, tendruðu lampana og lögðu skoðunarbrauðin fram.
4Að þessu loknu féllu þeir fram á jörðina og báðu Guð að þyrma þeim við slíkri ógæfu sem þeir höfðu mátt þola en aga þá vægilega ef þeir brytu af sér á ný og gefa þá ekki grimmum og guðlastandi heiðingjum á vald.
5Daginn sem þeir hreinsuðu musterið bar upp á sama dag og útlendingarnir höfðu saurgað það, tuttugasta og fimmta dag sama mánaðar sem er kíslevmánuður.
6Þeir héldu fagnaðarhátíð í átta daga sem líktist laufskálahátíðinni og minntust þess að þeir höfðu nýverið haldið þá hátíð í hellum á fjöllum uppi eins og villidýr.
7Þess vegna báru þeir laufstafi og laufgaða kvisti og pálmagreinar og lofsungu honum sem veitti þeim að hreinsa musterið sem honum var helgað.
8Í almennum kosningum var samþykkt að árlega skyldu allir Gyðingar halda þessa hátíð.
9Antíokkus, sem nefndur var Epífanes, hafði lokið lífi sínu svo sem frá var sagt.
10Nú segir frá því sem við kemur Antíokkusi Evpator, syni hins óguðlega, og í stuttu máli verður greint frá ógæfunni sem styrjaldir hans bökuðu.
11Þegar hann var sestur að ríkjum skipaði hann mann nokkurn, Lýsías að nafni, ráðsherra og gerði hann landstjóra í Norður-Sýrlandi og Fönikíu.
Ptólemeus Makron styttir sér aldur12Ptólemeus, sem kallaður var Makron, kom fram við Gyðinga af slíkri sanngirni að til fyrirmyndar var, eftir alla þá rangsleitni sem þeir máttu þola. Hann lagði sig fram um að koma á friðsamlegum samskiptum við þá.
13Vegna þessa rægðu vinir konungsins hann við Evpator. Þeir notuðu hvert tækifæri til að kalla hann landráðamann fyrir það að hann fór frá Kýpur, sem Fílometor fól honum stjórn á, og gekk Antíokkusi Epífanes á hönd. Hann gat ekki lengur sinnt embætti sínu með sóma og stytti sér aldur með því að taka inn eitur.
Júdas sigrar Ídúmea14Þegar Gorgías var orðinn landstjóri hafði hann um sig fjölmennan her málaliða og ól stöðugt á ófriði við Gyðinga.
15Enn fremur létu Ídúmear Gyðinga hafa fullt í fangi en þeir réðu nokkrum hernaðarlega mikilvægum virkjum. Ídúmear tóku þeim opnum örmum sem flúið höfðu frá Jerúsalem og gerðu sitt til að ala á ófriðnum.
16En menn Makkabeusar ákölluðu Guð og báðu hann að veita sér fulltingi í baráttunni. Síðan gerðu þeir árás á virki Ídúmea
17og náðu því á sitt vald eftir snarpa atlögu. Þeir brutu þá á bak aftur sem voru til varnar á virkismúrunum, stráfelldu alla sem fyrir þeim urðu og grönduðu ekki færri en tuttugu þúsundum.
18En níu þúsundum hið minnsta tókst að komast undan í tvo mjög rammbyggða virkisturna þar sem völ var á hverju því sem þurfti til að standast umsátur.
19Þar sem Makkabeus átti brýnum erindum að sinna annars staðar skildi hann Símon og Jósef eftir hjá þeim og auk þess Sakkeus og alla menn hans. Þetta lið allt var nógu máttugt til að sitja um virkisturnana.
20En menn Símonar létu tælast af ágirnd til að þiggja mútur af nokkrum hinna umsetnu. Gegn sjötíu þúsund drökmum leyfðu þeir nokkrum hópi manna að sleppa út.
21Þegar Makkabeusi bárust tíðindi um þetta til eyrna kallaði hann leiðtoga fólksins saman og ákærði menn Símonar fyrir að hafa selt bræður sína fyrir peninga með því að sleppa óvinum þeirra lausum.
22Hann lét taka þá af lífi sem gerst höfðu landráðamenn og vann báða virkisturnana skjótlega.
23Vopnin léku í höndum hans og honum heppnaðist allt. Felldi hann meira en tuttugu þúsundir manna í báðum virkjunum.
Júdas sigrar Tímóteus24Tímóteus, sem hafði einu sinni áður beðið ósigur fyrir Gyðingum, hafði safnað um sig miklum her málaliða og auk þess fjölmennu riddaraliði frá Asíu. Kom hann nú til þess að hertaka Júdeu með vopnavaldi.
25En er hann nálgaðist sneru Makkabeus og menn hans sér til Guðs í bæn, stráðu ryki yfir höfuð sér, gyrtu sig hærusekkjum
26og létu sig falla fram á ásjónu sína á gráðurnar við altarið. Báðu þeir Guð að vera sér náðugur, vera óvinur óvina þeirra og veita mótstöðu mótstöðumönnum þeirra eins og segir í lögmálinu.
27Þegar þeir höfðu beðist fyrir tóku þeir vopn sín, héldu drjúgan spöl frá borginni og námu staðar er þeir nálguðust óvinina.
28Þegar í sólarupprás laust herjunum saman. Annar batt traust sitt við að Drottinn mundi veita farsæld og frækinn sigur en hinn lét stjórnast af geðofsa sínum og vígamóði í bardaganum.
29Er orrustan stóð sem hæst vitraðist andstæðingum Gyðinga sýn frá himni. Fimm glæstir menn sátu gullbeislaða fáka og fóru fyrir liði Gyðinga.
30Tveir þeirra tóku Makkabeus á milli sín og brugðu vopnum sínum fyrir hann svo að ekki varð sári á hann komið en sendu örvadrífu á óvinina og slöngvuðu eldingum yfir þá svo að þeir voru slegnir blindu og riðluðust, skelfingu lostnir.
31Þar féllu tuttugu þúsund og fimm hundruð fótgönguliðar og sex hundruð riddarar að auki.
32Sjálfur flýði Tímóteus til staðar sem heitir Geser sem er tryggilega varið virki. Þar var Kereas höfuðsmaður.
33Makkabeus og menn hans sátu hugdjarfir um borgina í fjóra daga.
34Þeir sem umsetnir voru reiddu sig á traustleika vígisins, létu ókvæðisorð dynja á Gyðingum og löstuðu Guð þeirra.
35En þegar lýsti af fimmta degi réðust tuttugu ungir menn úr liði Makkabeusar til atlögu upp á virkismúrinn. Þeir voru frá sér af reiði vegna lastmælanna, gengu hetjulega fram og felldu af mikilli grimmd hvern þann sem fyrir varð.
36Jafnframt notuðu aðrir tækifærið og ruddust annars staðar til uppgöngu í virkið og réðust á hina umsetnu á sama hátt. Þeir lögðu eld í turnana og brenndu guðlastarana lifandi á báli. Annar hópur hjó borgarhliðin niður, hleypti inn þeim hermönnum sem enn voru fyrir utan og náðu þeir borginni brátt á sitt vald.
37Tímóteus hafði falið sig í brunni og var hann drepinn og Kereas bróðir hans sem og Appollófanes.
38Þegar þetta var afstaðið vegsömuðu Gyðingar Drottin með lofsöngvum og þakkargjörð fyrir miklar velgjörðir hans við Ísrael og fyrir að hafa veitt þeim sigur.
Who We AreWhat We EelieveWhat We Do
2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.