1Á þriðja stjórnarári Belsassars konungs birtist mér, Daníel, enn sýn eftir hina fyrri.
2Er ég sá sýnina var ég staddur í virkisborginni Súsa í Elamhéraði og virtist mér í sýninni sem ég væri staddur við fljótið Úlaí.
3Ég leit upp og sá þá hrút standa milli mín og fljótsins. Tvíhyrndur var hann og bæði hornin há. Var annað hornið hærra en hitt og hafði þó vaxið fram síðar.
4Ég sá að hrúturinn stangaði í vestur, norður og suður. Engin skepna fékk veitt honum viðnám og enginn var sá að frelsað gæti nokkurn undan valdi hans. Og hann fór sínu fram og óx honum máttur.
5Meðan ég horfði á birtist geithafur úr vestri og barst hann yfir jörðina alla án þess að snerta hana. Sá hafur hafði horn mikið milli augna.
6Hann stefndi á tvíhyrnda hrútinn sem ég hafði séð standa milli mín og árinnar og rann á hann af miklum ofsa.
7Ég sá hann renna á hrútinn og hamast gegn honum af miklu offorsi. Hann stangaði hrútinn og braut bæði horn hans en hrúturinn megnaði ekki að veita honum viðnám. Hann slengdi honum til jarðar og tróð hann undir og enginn var til að frelsa hrútinn undan valdi hans.
8Geithafrinum óx mjög ásmegin en er hann mátti sín sem mest brotnaði hornið mikla. Í stað þess uxu fram fjögur stór horn mót höfuðáttunum fjórum.
9Af einu þeirra spratt enn lítið horn og óx stórum í átt til suðurs, norðurs og landsins fagra.
10Það óx og náði til herskara himnanna, varpaði til jarðar nokkru af herskaranum og stjörnunum og tróð undir fæti.
11Það atti jafnvel kappi við höfðingja herskarans þannig að hin daglega fórn var afnumin og hinn helgi dvalarstaður hans yfirgefinn.
12Herskara var stefnt gegn hinni daglegu fórn, hornið varpaði sannleikanum til jarðar og hafði árangur í hverju verki.
13Þá heyrði ég á mál heilagrar veru og önnur heilög vera spurði viðmælanda sinn: „Hve lengi mun svo verða sem sýnin boðar að hin daglega fórn verði afnumin vegna misgjörða, helgidómurinn yfirgefinn og herskarinn fótum troðinn?“
14Hann svaraði mér: „Tvö þúsund og þrjú hundruð kvöld og morgna. Þá verður helgidómurinn hreinn á ný.“
Gabríel túlkar sýnina15Þegar ég, Daníel, var að virða fyrir mér sýnina og leitast við að skilja hana birtist mér einhver sem var í mannsmynd.
16Og ég heyrði mannsrödd úr Úlaífljóti sem kallaði: „Gabríel, útskýrðu sýnina fyrir þessum manni.“
17Hann gekk til mín þar sem ég stóð og þegar hann kom skelfdist ég og féll á grúfu. En hann sagði við mig: „Skildu það, mannsbarn, að þessi sýn varðar síðustu tíma.“
18Og meðan hann talaði við mig kom yfir mig djúpur svefn þar sem ég lá á grúfu á jörðinni. Þá snerti hann mig og reisti mig á fætur
19og sagði: „Nú greini ég þér frá því sem verða mun er reiðinni linnir því að sýnin varðar síðustu tíma.
20Tvíhyrndi hrúturinn, sem þú sást, táknar konungana í Medíu og Persíu
21en hafurinn, það er geithafurinn, merkir konung Javans og stóra hornið milli augna hans táknar fyrsta konunginn.
22Það brotnaði en fjögur uxu fram í þess stað. Þetta þýðir að fjögur konungsríki munu hefjast af þjóðinni en ekki erfa mátt hennar.
23Þegar konungsríkin taka enda og mælir misgjörðanna er fylltur mun illur konungur og lævís hefjast til valda.
24Og vald hans verður mikið og þó ekki af eigin rammleik. Mikill skaðvaldur verður hann, öll verk hans munu ganga honum að óskum. Hann mun tortíma bæði valdhöfum og þjóð hinna heilögu.
25Slægð hans mun tryggja vélabrögðum hans framgang. Hann mun hyggja á stórræði og steypa mörgum í glötun er þeir ugga ekki að sér. Hann mun jafnvel etja kappi við höfðingja höfðingjanna. En honum verður steypt og án þess að menn komi nærri.
26Og satt er það sem sagt var í sýninni um kvöld og morgna. En þeirri sýn skaltu leyna því að enn er langt í að hún komi fram.“
27Mér, Daníel, var mjög brugðið og var ég máttvana í marga daga. Þá reis ég upp og sinnti erindum konungs. En sýnin olli mér hugarangri og enginn kunni skýringu á henni.
Who We AreWhat We EelieveWhat We Do
2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.