1Drottinn talaði til Móse og sagði:
2„Ávarpaðu Ísraelsmenn og segðu við þá: Nú vill karl eða kona gera eitthvað einstakt með því að vinna heit nasírea og gerast nasírei Drottins.
3Skulu þau þá forðast vín og sterka drykki. Hvorki má drekka gerjað vín né gerjað öl og ekki heldur vínberjasafa og hvorki neyta ferskra né þurrkaðra vínberja.
4Allan þann tíma, sem hann er nasírei, má hann ekki neyta neinna afurða vínviðarins, hvorki kjarna né hýðis.
5Allan þann tíma, sem hann er nasírei, skal rakhnífur ekki fara yfir höfuð hans. Hann verður heilagur og skal láta hár sitt vaxa allan þann tíma sem hann er nasírei Drottins.
6Á meðan hann er nasírei Drottins skal hann ekki koma nálægt líki.
7Hann skal hvorki saurga sig á föður sínum né móður, bróður sínum né systur þegar þau deyja því að helgun Guðs hans er á höfði honum.
8Svo lengi sem hann er nasírei er hann helgaður Drottni.
9En verði einhver bráðkvaddur nálægt honum svo að vígt höfuð hans saurgast skal hann raka höfuð sitt daginn sem hann verður hreinn. Á sjöunda degi skal hann raka það
10en áttunda daginn skal hann færa presti tvær turtildúfur eða tvær dúfur við dyr samfundatjaldsins.
11Presturinn skal búa aðra til syndafórnar en hina til brennifórnar og friðþægja fyrir hann af því að hann syndgaði með því að snerta lík. Sama dag skal presturinn helga höfuð hans.
12Síðan skal hann vígjast Drottni á ný það tímabil sem hann vill vera nasírei og leiða fram veturgamalt lamb í sektarfórn. En fyrra tímabilið fellur úr gildi því að nasíreavígsla hans saurgaðist.
13Þetta eru lög um nasírea: Daginn sem nasíreatíma hans lýkur skal leiða hann að dyrum samfundatjaldsins.
14Hann skal færa Drottni gjöf sína: lýtalaust, veturgamalt hrútlamb í brennifórn, lýtalausa, veturgamla gimbur í syndafórn og lýtalausan hrút í heillafórn,
15einnig körfu með ósýrðum kökum úr fínu olíublönduðu mjöli og ósýrðu flatbrauði, smurðu með olíu, ásamt þeirri kornfórn og dreypifórn sem heyrir til.
16Presturinn skal færa þetta fram fyrir auglit Drottins og fórna því sem syndafórn og brennifórn fyrir hann.
17Hann skal búa hrútinn til heillafórnar ásamt körfunni með ósýrðu kökunum. Presturinn skal einnig færa kornfórn hans og dreypifórn.
18Síðan skal nasíreinn raka vígt höfuð sitt við dyr samfundatjaldsins, taka síðan nasíreahárið og kasta því á eldinn sem er undir heillafórninni.
19Presturinn skal taka soðinn bóg af hrútnum, ósýrða köku og ósýrt flatbrauð úr körfunni og fá það nasíreanum í hendur eftir að hann hefur rakað nasíreahár sitt.
20Því næst skal presturinn veifa því frammi fyrir augliti Drottins. Þetta er heilagt og verður eign prestsins ásamt bringunni sem veifað hefur verið og lærinu sem fer í afgjald. Upp frá því má nasíreinn aftur drekka vín.
21Þetta eru lögin um nasíreann sem hefur heitið Drottni fórnargjöf vegna vígslu sinnar auk þess sem hann kann að hafa efni á að gefa. Hann skal halda eiðinn sem hann hefur unnið og fylgja lögunum um vígslu nasírea.“
Blessunarorðin22Drottinn talaði til Móse og sagði:
23„Ávarpaðu Aron og syni hans og segðu: Með þessum orðum skuluð þið blessa Ísraelsmenn:
24Drottinn blessi þig og varðveiti þig,
25Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur,
26Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið.
27Þannig skuluð þið leggja nafn mitt yfir Ísraelsmenn og ég mun blessa þá.“
Who We AreWhat We EelieveWhat We Do
2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.