Jeremía 20 - Biblían (2007)

Jeremía húðstrýktur

1Pashúr Immersson prestur, sem var yfirumsjónarmaður í húsi Drottins, heyrði Jeremía flytja þessa ræðu.

2Hann lét því húðstrýkja Jeremía spámann og setja hann í gapastokkinn sem var í efra Benjamínshliðinu við hús Drottins.

3Þegar Pashúr sleppti Jeremía úr gapastokknum morguninn eftir sagði Jeremía við hann: „Drottinn nefnir þig ekki lengur Pashúr heldur Skelfingu hvarvetna.

4Því að svo segir Drottinn: Ég geri þig að skelfingu fyrir sjálfan þig og alla vini þína. Þeir munu falla fyrir sverði fjandmanna sinna og þú munt horfa á það með eigin augum. Ég mun selja allt Júda í hendur konungsins í Babýlon. Hann mun flytja íbúana í útlegð til Babýlonar og höggva þá með sverði.

5Ég framsel allan auð þessarar borgar, allar eignir hennar, alla dýrgripi hennar og alla fjársjóði Júdakonunga í hendur fjandmanna þeirra. Þeir munu taka það herfangi og flytja til Babýlonar.

6En þú, Pashúr, ferð í útlegð ásamt öllum sem búa í húsi þínu. Þú ferð til Babýlonar þar sem þú deyrð og verður grafinn, þú og allir vinir þínir sem þú hefur boðað lygi.“

Harmljóð spámannsins

7Þú blekktir mig, Drottinn, og ég lét blekkjast,

þú tókst mig tökum og barst hærri hlut.

Ég verð sífellt að athlægi,

allir hæða mig.

8Í hvert skipti sem ég tala verð ég að hrópa

og verð að kalla: „Ofbeldi og kúgun.“

Því að orð Drottins varð mér til skammar

og skapraunar allan daginn.

9Ef ég sagði: „Ég vil ekki hugsa um hann lengur

og ekki tala í hans nafni,“

fannst mér eldur loga í hjarta mér,

brenna í beinum mínum.

Ég örmagnaðist við áreynsluna,

hún varð mér um megn.

10Ég hef heyrt baktal fjöldans:

„Skelfing hvarvetna.

Kærið hann, vér skulum kæra hann.“

Allir nánir vinir mínir bíða þess að ég hrasi:

„Ef til vill lætur hann blekkjast

svo að vér getum yfirbugað hann

og hefnt vor á honum.“

11En Drottinn stendur með mér eins og voldug hetja,

þess vegna hrasa þeir sem ofsækja mig og sigra ekki.

Þeir gera sjálfum sér hneisu því að þeir erfiða án árangurs,

baka sér ævarandi smán sem aldrei gleymist.

12Drottinn hersveitanna, þú sem prófar hinn réttláta,

þú sem sérð nýrun og hjartað,

láttu mig sjá hefnd þína á þeim.

Þér fel ég málstað minn.

13Lofsyngið Drottni, vegsamið Drottin

því að hann frelsar líf hins snauða

úr greipum illvirkjanna.

14Bölvaður sé dagurinn þegar ég fæddist.

Dagurinn, sem móðir mín ól mig,

sé ekki blessaður.

15Bölvaður sé maðurinn

sem færði föður mínum gleðitíðindin:

„Þér er fæddur sonur,“

og gladdi hann með því stórlega.

16Fyrir þessum manni fari eins og borgunum

sem Drottinn eyddi vægðarlaust:

Hann heyri neyðaróp að morgni

og heróp um hádegi

17því að hann eyddi mér ekki í móðurkviði

svo að móðir mín yrði mér gröf

og móðurlíf hennar ævinlega þungað.

18Hvers vegna þurfti ég að koma úr skauti móður minnar

til þess að sjá mæðu og andstreymi

og enda ævidaga mína í smán?

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help