Síraksbók 30 - Biblían (2007)

Um uppeldi barna

1Sá er ann syni sínum hirtir hann oft

svo að hann hafi síðar gleði af honum.

2Sá er agar son sinn hlýtur gagn af honum

og getur hreykt sér af honum í kunningjahópi.

3Sá er fræðir son sinn vekur öfund fjandmanns

og fagnar yfir honum meðal vina.

4Þegar faðirinn deyr er sem hann sé eigi dáinn

því að hann hefur eftir látið annan sér líkan.

5Meðan hann var lífs leit hann son og gladdist

og hryggðist eigi er ævi lauk.

6Hann lætur þann eftir er á óvinum hefnir

og launar vinum velvild þeirra.

7Sá sem dekrar við son sinn og bindur um sár hans

óróast innra við hvert hans óp.

8Ótaminn hestur verður þrár

og þrjóskur sá sonur sem ekkert taumhald er á.

9Dekra við son þinn og hann skelfir þig síðar,

leik við hann og hann mun hryggja þig.

10Hlæ eigi með honum, ella muntu þjást með honum,

og loks gnístir þú tönnum.

11Lát hann ekki fara sínu fram á æskuárum.

Þú skalt ekki umbera yfirsjónir hans,

lát hann hlýða meðan hann er ungur.

12Strýktu hann um lendar meðan hann er barn

svo að hann verði ekki þrjóskur og óhlýðinn.

13Agaðu son þinn og lát hann vinna,

ella kann taumleysi hans að verða þér til falls.

Um heilsuna

14Betra er að vera fátækur og njóta heilsu og þróttar

en auðugur og þjakaður meinum.

15Betra en allt veraldarinnar gull er heilsa og þróttur

og glaðvært geð betra en ómælanlegur auður.

16Enginn auður er meiri en heilbrigði líkamans,

engin hamingja æðri gleði hjartans.

17Betri er dauðinn en kvalafullt líf,

eilíf hvíld en stöðug veikindi.

Um fæðu

18Ljúfmeti borið að lokuðum munni

er eins og matgjafir lagðar á gröf.

19Hvaða gagn gera fórnir goðamyndum?

Hvorki geta þær etið né notið ilms.

Svo er og um þann sem Drottinn hirtir.

20Hann mænir á það sem fyrir augu ber og stynur

eins og geldingur dæsir með mey í örmum.

Um gleði og depurð

21Gef sál þína eigi sorg á vald,

angra ekki sjálfan þig á áhyggjum.

22Gleði í hjarta er mönnum lífgjafi,

gleði manns fjölgar lífdögum.

23Dreif huga þínum og hresstu hjartað,

haltu harmi langt frá þér

því að hugarvíl hefur mörgum eytt,

það hefur engum hjálpað hið minnsta.

24Öfund og reiði stytta ævina,

áhyggjur gera mann gamlan um aldur fram.

25Þeim sem á bjart sinni og snæðir með gleði

mun verða gott af því sem hann neytir.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help