Jesaja 7 - Biblían (2007)

Von og staðfesta

1Á dögum Akasar, konungs í Júda, Jótamssonar, Ússíasonar, héldu Resín, konungur í Aram, og Peka Remaljason Ísraelskonungur upp til Jerúsalem til að ráðast á borgina en gátu ekki unnið hana.

2Þegar húsi Davíðs var tilkynnt að Aramear hefðu náð fótfestu í Efraím skalf hjarta konungs og hjarta þjóðar hans eins og skógartré skjálfa fyrir vindi.

3Þá sagði Drottinn við Jesaja: „Gakktu með son þinn Sear-Jasúb að efri enda vatnsleiðslunnar úr efri tjörninni, við götuna út á þvottavöllinn, til móts við Akas

4og segðu við hann: Gættu þín, haltu ró þinni, óttastu ekki. Láttu ekki hugfallast fyrir þessum tveimur hálfbrunnu sprekum, fyrir brennandi reiði Resíns, Arams og sona Remalja.

5Aram, Efraím og sonur Remalja hafa illt í hyggju gegn þér og segja:

6Vér skulum fara gegn Júdamönnum, hræða þá og leggja landið undir oss og gera son Tabels að konungi yfir þeim.

7Þess vegna segir Drottinn Guð:

Það skal ekki takast, það skal ekki verða,

8því að Damaskus er höfuð Arams

og Resín er höfuð Damaskus.

Innan sextíu og fimm ára

verður Efraím gjörsigrað og ekki framar þjóð.

9Samaría er höfuð Efraíms

og sonur Remalja höfuð Samaríu.

Standist trú yðar ekki

standist þér alls ekki.“

Fæðing Immanúels boðuð

10Drottinn talaði aftur við Akas og sagði:

11„Bið þú Drottin, Guð þinn, um tákn, hvort heldur neðst neðan úr undirheimum eða ofan frá hæstu hæðum.“

12Akas svaraði: „Ég bið einskis því að ég vil ekki freista Drottins.“

13Þá sagði Jesaja: „Hlýðið nú á, niðjar Davíðs. Finnst yður ekki nóg að reyna á þolinmæði manna? Ætlið þér einnig að reyna á þolinmæði Guðs míns?

14Þess vegna mun Drottinn sjálfur gefa yður tákn. Sjá, yngismær verður þunguð og fæðir son og lætur hann heita Immanúel.

15Rjómi og hunang verður fæða hans þar til hann hefur vit á að hafna hinu illa og velja hið góða.

16Áður en sveinninn hefur lært að hafna hinu illa og velja hið góða verður mannauðn í landi þeirra tveggja konunga sem þú óttast.

17Drottinn mun senda yfir þig, þjóð þína og fjölskyldu þvílíka daga að aðrir eins dagar hafa ekki komið síðan Efraím skildist frá Júda − hann mun senda Assýríukonung.“

Sagt fyrir um innrás

18Á þeim degi mun Drottinn blístra á flugurnar við ósa Nílar í Egyptalandi og býflugurnar í Assýríu.

19Þær munu allar koma

og setjast að í gljúfrum

og hamragiljum,

þyrnirunnum

og vatnsbólum.

20Á þeim degi mun Drottinn raka bæði höfuð- og skapahár með rakhníf

sem hann leigði handan fljóts

− með Assýríukonungi −

hann mun jafnvel raka skeggið burt.

21Á þeim degi mun maður hafa kvígu og tvær ær

22og þær mjólka svo vel

að hann hefur rjóma til matar.

Þeir sem eftir verða í landinu

munu nærast á rjóma og hunangi.

23Á þeim degi mun svo fara

að alls staðar þar sem áður stóðu þúsund vínviðir,

þúsund sikla virði,

munu vaxa þyrnar og þistlar.

24Menn fara þangað með boga og örvar

því að landið allt verður þyrnum og þistlum þakið.

25Og á þau fjöll, sem nú eru erjuð með haka,

mun enginn koma

af ótta við þyrna og þistla.

Þau verða bithagi nauta

og niður tröðkuð af sauðfé.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help