Sálmarnir 118 - Biblían (2007)

1Þakkið Drottni því að hann er góður,

því að miskunn hans varir að eilífu.

2Það mæli Ísrael

því að miskunn hans varir að eilífu.

3Það mæli Arons ætt

því að miskunn hans varir að eilífu.

4Það mæli þeir sem óttast Drottin

því að miskunn hans varir að eilífu.

5Í þrengingunni ákallaði ég Drottin,

hann bænheyrði mig og rýmkaði um mig.

6Drottinn er með mér, ég óttast eigi,

hvað geta menn gert mér?

7Drottinn er með mér, hann hjálpar mér

og ég get hlakkað yfir hatursmönnum mínum.

8Betra er að leita hælis hjá Drottni

en að treysta mönnum,

9betra er að leita skjóls hjá Drottni

en að treysta tignarmönnum.

10Framandi þjóðir umkringdu mig

en í nafni Drottins hef ég sigrað þær.

11Þær umkringdu mig á alla vegu

en ég sigraði þær í nafni Drottins.

12Þær umkringdu mig eins og býflugnasveimur,

fuðruðu upp eins og eldur í þyrnum,

en í nafni Drottins hef ég sigrað þær.

13Mér var hrint og var nærri fallinu

en Drottinn veitti mér lið.

14Drottinn er styrkur minn og lofsöngur,

hann varð mér til hjálpræðis.

15Fagnaðar- og siguróp kveða við í tjöldum réttlátra:

„Hægri hönd Drottins vinnur máttarverk,

16hægri hönd Drottins er upphafin,

hægri hönd Drottins vinnur stórvirki.“

17Ég mun eigi deyja heldur lifa

og kunngjöra dáðir Drottins.

18Drottinn hefur hirt mig harðlega

en eigi ofurselt mig dauðanum.

19Ljúkið upp fyrir mér hliðum réttlætisins

að ég megi ganga inn um þau og lofa Drottin.

20Þetta er hlið Drottins,

réttlátir ganga þar inn.

21Ég þakka þér að þú bænheyrðir mig

og komst mér til hjálpar.

22Steinninn, sem smiðirnir höfnuðu,

er orðinn að hyrningarsteini.

23Að tilhlutan Drottins er þetta orðið,

það er dásamlegt í augum vorum.

24Þetta er dagurinn sem Drottinn gerði,

fögnum og verum glaðir á honum.

25Drottinn, hjálpa þú,

Drottinn, gef þú gengi.

26Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins,

frá húsi Drottins blessum vér yður.

27Drottinn er Guð, hann lætur oss skína ljós,

fylkið yður með laufgreinum

að hornum altarisins.

28Þú ert Guð minn, ég þakka þér,

Guð minn, ég vegsama þig.

29Þakkið Drottni því að hann er góður,

því að miskunn hans varir að eilífu.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help