Speki Salómons 16 - Biblían (2007)

Egyptum refsað, Ísraelsmönnum bjargað

1Þess vegna var þeim maklega refsað með slíkum kvikindum og þeir kvaldir með mergð þeirra.

2Þeim var refsað þannig en þú gerðir vel við lýð þinn. Til að seðja hungur hans tilreiddir þú honum lynghænsni til matar, óvanalegt sælgæti.

3Þegar óvinina hungraði misstu þeir jafnvel hina eðlilegu löngun í fæðu vegna þess hve kvikindin, sem stefnt var gegn þeim, voru viðbjóðsleg. En lýður þinn fékk ljúffenga saðningu eftir að hann hafði þolað skort um hríð.

4Yfir kúgarana skyldi koma óumflýjanleg neyð en lýð þínum átti aðeins að sýna hvernig óvinir þeirra voru kvaldir.

5Jafnvel þegar ógurleg óargadýr æddu að þeim og iðandi höggormar bitu þá og eyddu þeim léstu reiði þína ekki gera út af við þá.

6Þeir voru gerðir hræddir um skeið til að vara þá við og hlutu tákn um hjálp sem minnti þá á lögmálsboð þín.

7Hver sem leit á táknið varð heill, ekki af því sem hann sá heldur hjálpaðir þú sem frelsar alla.

8Þannig færðir þú óvinum vorum heim sanninn um að þú ert sá sem frelsar frá öllu illu.

9Bit engisprettna og flugna deyddi þá og ekkert lyf fannst lífi þeirra til bjargar enda verðskulduðu þeir hegningu af slíkum dýrum.

10En á börnum þínum unnu ekki einu sinni tennur eitraðra snáka því að miskunn þín kom þeim til hjálpar og læknaði þau.

11Þau voru stungin til þess að þau minntust orða þinna en hlutu skjóta hjálp. Það var til þess að þeim gleymdust ekki velgjörðir þínar eða þau létu sér fátt um gæsku þína finnast.

12Hvorki grös né smyrsl læknuðu þau heldur orð þitt, Drottinn, sem græðir allt.

13Þú hefur líf og dauða á valdi þínu, færir okkur niður að hliðum heljar og leiðir okkur upp þaðan.

14Maðurinn getur að sönnu deytt annan í illsku sinni en andann, sem burt er farinn, getur hann hvorki sótt aftur né leyst út sál sem dauðinn hefur tekið.

Hagl og manna

15Enginn getur komist undan hendi þinni.

16Þú laust hina guðlausu máttugum armi þínum þegar þeir neituðu að þekkja þig. Á þeim skall firnamikið steypiregn, hagl og sterkviðri, sem ekki varð undan flúið, og svo eyddi þeim eldur.

17Undarlegast var þó að eldurinn mátti sín mest í vatninu, sem allt slekkur, því að náttúran berst með hinum réttlátu.

18Stundum lægði bálið sig til þess að það eyddi ekki dýrunum sem send voru gegn hinum guðlausu. Þeir skyldu sjá og játa að réttlætisdómur Guðs bitnaði á þeim.

19Svo átti bálið það til að funa heitar en annars gerist, umlukt vatni, til þess að spilla því sem ranglátt landið gefur af sér.

20En lýð þínum gafst þú þess í stað englafæðu að eta. Þú sendir þeim brauð af himni sem neyta mátti án fyrirhafnar og veitti alla unaðssemd og var að allra smekk.

21Efnið frá þér opinberaði hve mildur þú ert börnum þínum. Það lagaði sig að óskum þess er neytti og breyttist í það sem sérhver vildi.

22Það þoldi eld, og snjór og ís hélst og þiðnaði ekki. Það skyldi minna þá á að eldurinn, sem brann í haglhríðinni og sindraði í steypiregninu, eyddi jarðargróða óvinanna

23en gleymdi jafnvel eigin krafti til þess að hinir réttlátu hlytu saðning.

24Því að sköpunin þjónar þér, skapara sínum, og beitir sér gegn hinum ranglátu til að refsa þeim en mildast til að gera vel við þá sem þér treysta.

25Þess vegna þjónaði sköpunin þér einnig þegar þú sendir gjöfina sem seður alla. Hún tók á sig hverja þá mynd sem þörf krafði

26til þess að börn þín, sem þú, Drottinn, elskar, kæmust að raun um að það er ekki gróður jarðar sem mettar manninn heldur er það orð þitt sem nærir þá sem á þig trúa.

27Jafnvel það sem eldur vann ekki á bráðnaði óðar fyrir skammvinnum sólargeisla

28svo að lýðum yrði ljóst að þér ber að þakka fyrir sólaruppkomu og þig ber að tilbiðja þegar lýsir af degi.

29Von hins vanþakkláta bráðnar eins og vetrarhrím og skolast burt líkt og skólp.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help