Jobsbók 34 - Biblían (2007)

Önnur ræða Elíhú

1Elíhú tók til máls og sagði:

2Hlustið á orð mín, spekingar,

hlýðið á mig, vitmenn.

3Eyrað prófar orð

og gómurinn bragðar mat

4en vér skulum velja hið rétta,

komast að raun um hvað gott er.

5Job hefur sagt: „Ég hef rétt fyrir mér

en Guð hefur svipt mig rétti mínum.

6Þótt ég hafi á réttu að standa er ég talinn lygari,

ör særði mig banvænu sári þó að ég hafi ekki brotið af mér.“

7Hvaða maður líkist Job,

sem svelgir í sig lastmæli eins og vatn,

8leitar samfélags við illvirkja

og umgengst guðleysingja?

9Hann sagði jafnvel: „Það er engum ávinningur

að vera í vinfengi við Guð.“

10Hlustið því á mig, vitru menn.

Fjarri fer því að Guð breyti ranglega

og Hinn almáttki aðhafist illt,

11heldur endurgeldur hann manninum verk hans

og lætur hann gjalda breytni sinnar.

12Nei, vissulega breytir Guð ekki ranglega

og Hinn almáttki hallar ekki réttinum.

13Hver trúði honum fyrir jörðinni

og hver fékk honum heiminn í hendur?

14Ef hann hugsaði aðeins um sjálfan sig,

tæki aftur til sín anda sinn og lífskraft,

15þá mundi allt sem lifir deyja

og maðurinn hverfa aftur til moldarinnar.

16Hlustaðu þá, hafir þú skilning,

leggðu hlustir við því sem ég hef að segja.

17Getur sá stjórnað sem hatar réttinn,

getur þú sakfellt hinn réttláta og volduga,

18þann sem segir við konung: „mannleysa,“

við höfðingjann: „óguðlegur,“

19sem ekki dregur taum höfðingja

og gerir ríkum ekki hærra undir höfði en fátækum

því að allir eru þeir verk handa hans?

20Þeir deyja skyndilega um miðja nótt,

mönnum er brugðið og þeir hverfa á braut,

voldugir víkja en ekki fyrir mannshendi.

21Augu Guðs hvíla á vegferð mannsins,

hann horfir á hvert hans spor,

22ekkert það myrkur er til eða niðdimma

þar sem illvirkinn geti falist.

23Hann ákveður engum manni tíma

til að koma fyrir dóm Guðs.

24Hann molar hina voldugu án rannsóknar

og setur aðra í þeirra stað.

25Hann gjörþekkir verk þeirra,

steypir þeim um nótt og þeir kremjast.

26Hann hirtir þá fyrir illvirkin

í augsýn allra

27því að þeir viku frá honum

og gáfu ekki gaum að vegum hans

28svo að hróp nauðstaddra bárust til hans

og hann heyrði kvein hinna snauðu.

29En hafist hann ekki að, hver getur þá sakfellt hann

og hver verður hans var byrgi hann auglit sitt?

En hann vakir yfir þjóðum og mönnum

30svo að enginn óguðlegur skuli drottna

og verða þjóðinni snara.

31En getur nokkur sagt við Guð:

„Mér er refsað án þess að ég hafi breytt ranglega.

32Þú skalt kenna mér það sem ég hef ekki séð,

hafi ég gert rangt geri ég það ekki aftur.“

33Á hann að endurgjalda eftir þínum geðþótta

þar sem þú hefur hafnað úrskurði hans?

Þú átt að velja, ekki ég,

og segðu nú frá því sem þú veist.

34Skynsamir menn munu segja við mig,

vitrir menn sem hafa hlustað á mig:

35„Job talaði ekki af þekkingu

og ummæli hans eru ekki skynsamleg.“

36En Job verður reyndur áfram

því að hann hefur talað eins og vondur maður.

37Hann bætir misgjörðum ofan á synd sína,

lætur háðsyrði falla meðal vor

og sýnir mótþróa.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help