Jeremía 26 - Biblían (2007)

Sögukaflar úr lífi JeremíaMusterisræðan

1Í upphafi stjórnar Jójakíms Jósíasonar Júdakonungs kom þetta orð frá Drottni:

2Svo segir Drottinn: Gakktu inn í forgarð húss Drottins og ávarpaðu alla þá sem koma frá borgunum í Júda til að biðjast fyrir í húsi Drottins. Flyttu þeim allt sem ég býð þér án þess að draga neitt undan.

3Ef til vill hlusta þeir og snúa hver og einn frá villu síns vegar. Þá mun ég iðrast þeirrar ógæfu sem ég hugðist leiða yfir þá vegna illrar breytni þeirra.

4Þú skalt segja við þá: Svo segir Drottinn: Ef þér hlýðið ekki á mig og fylgið ekki lögmáli mínu sem ég hef lagt fyrir yður

5og hlustið ekki á ræður þjóna minna, spámannanna, sem ég hef hvað eftir annað sent til yðar án þess að þér hlustuðuð á þá,

6mun ég fara með þetta hús eins og Síló. Þessa borg mun ég gera að bölvun fyrir allar þjóðir jarðar.

7Prestarnir, spámennirnir og allt fólkið hlustaði á Jeremía þegar hann flutti þessa ræðu í húsi Drottins.

8En þegar Jeremía hafði lokið við að segja allt það sem Drottinn hafði falið honum að tala til fólksins gripu prestarnir hann, spámennirnir og allt fólkið og hrópuðu: „Þú skalt svo sannarlega deyja.

9Hvers vegna boðar þú í nafni Drottins að fyrir þessu húsi fari eins og Síló og þessi borg verði lögð í rúst og yfirgefin?“ Síðan þyrptist allt fólkið að Jeremía í húsi Drottins.

10Þegar höfðingjar Júda fréttu þetta gengu þeir frá konungshöllinni til húss Drottins og settust við Nýja hliðið.

11Því næst ávörpuðu prestarnir og spámennirnir höfðingjana og allt fólkið og sögðu: „Þessi maður er dauðasekur því að hann hefur flutt spádómsorð gegn þessari borg eins og þér hafið heyrt með eigin eyrum.“

12Þá ávarpaði Jeremía höfðingjana og allt fólkið og sagði: „Drottinn sendi mig til að tala gegn þessu húsi og þessari borg allt sem þér hafið heyrt.

13Bætið nú framferði yðar og breytni og hlýðið á boð Drottins, Guðs yðar. Þá mun Drottinn iðrast þeirrar ógæfu sem hann hefur boðað yður.

14Sjálfur er ég á yðar valdi. Farið með mig eins og yður sýnist best og réttast.

15En það skuluð þér vita fyrir víst að líflátið þér mig látið þér saklaust blóð koma yfir sjálfa yður, þessa borg og íbúa hennar. Drottinn hefur í sannleika sent mig til yðar til þess að flytja yður þessa ræðu.“

16Þá sögðu höfðingjarnir við allt fólkið, prestana og spámennina: „Þessi maður er ekki dauðasekur því að hann hefur talað til vor í nafni Drottins, Guðs vors.“

17Ýmsir af öldungum landsins risu þá á fætur, ávörpuðu allt fólkið og sögðu:

18„Míka frá Móreset var spámaður þegar Hiskía var konungur í Júda. Hann sagði við alla Júdamenn:

Svo segir Drottinn hersveitanna:

Síon verður plægð sem akur,

Jerúsalem verður rúst

og musterisfjallið kjarri vaxnar hæðir.

19Létu Hiskía Júdakonungur og allir Júdamenn taka hann af lífi? Óttaðist hann ekki öllu heldur Drottin svo að hann mildaði auglit Drottins sem hætti við að senda þeim þá ógæfu sem hann hafði hótað? En vér erum að því komnir að kalla ógæfu yfir sjálfa oss.“

Morðið á Úría spámanni

20Annar maður, Úría Semajason, spáði í nafni Drottins. Hann var frá Kirjat Jearím. Hann flutti boðskap gegn þessari borg og þessu landi alveg eins og Jeremía.

21Þegar Jójakím konungur, allir herforingjar hans og hirðmenn heyrðu um ræður hans leitaðist konungur við að ráða hann af dögum. En þegar Úría frétti það varð hann hræddur og flýði og komst til Egyptalands.

22En Jójakím konungur sendi Elnatan Akbórsson til Egyptalands ásamt nokkrum mönnum öðrum.

23Þeir sóttu Úría til Egyptalands og fóru með hann til Jójakíms konungs. Hann lét taka hann af lífi með sverði og henda líki hans á grafir múgamanna.

24En Jeremía naut verndar Ahíkams Safanssonar svo að hann var ekki framseldur múgnum í hendur til lífláts.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help