1Davíð flutti Drottni þetta ljóð þegar hann hafði bjargað Davíð úr greipum allra fjandmanna hans og úr greipum Sáls. Hann sagði:
2Drottinn, bjarg mitt og vígi, frelsari minn.
3Guð minn, hellubjarg mitt þar sem ég leita hælis,
skjöldur minn og horn hjálpræðis míns,
háborg mín og hæli,
frelsari minn sem bjargar mér undan ofríki.
4Lofaður sé Drottinn, hrópa ég
og bjargast frá fjandmönnum mínum.
5Holskeflur dauðans umluktu mig,
eyðandi fljót skelfdu mig.
6Bönd heljar herptust að mér,
snörur dauðans ógnuðu mér.
7Í angist minni kallaði ég á Drottin,
til Guðs míns hrópaði ég.
Hann heyrði hróp mitt í helgidómi sínum,
óp mitt barst honum til eyrna.
8Þá skalf jörðin og nötraði,
undirstöður himinsins skulfu,
þær nötruðu því að hann var reiður.
9Reyk lagði úr nösum hans,
eyðandi eld úr munni hans,
eldslogar gengu út frá honum.
10Hann sveigði himininn og steig niður
og skýsorti var undir fótum hans.
11Hann steig á bak kerúb og flaug af stað,
hann birtist á vængjum vindsins.
12Hann sveipaði sig myrkri,
regnskýjum og skýsorta eins og tjaldi.
13Úr ljóma hans hrutu eldneistar.
14Þá þrumaði Drottinn af himni,
Hinn hæsti lét raust sína gjalla.
15Hann skaut örvum á víð og dreif,
slöngvaði eldingum og tvístraði þeim.
16Þá sá í mararbotn,
undirstöður jarðar birtust
vegna ógnandi heiftar Drottins
og blástursins úr nösum hans.
17Hann rétti hönd sína af himni og greip mig,
dró mig upp úr þessu fimbulvatni,
18bjargaði mér undan hinum öfluga fjandmanni,
undan hatursmönnum mínum
sem voru mér máttugri.
19Þeir réðust gegn mér á óheilladegi mínum
en Drottinn reyndist mér stoð.
20Hann leiddi mig út á víðavang,
leysti mig úr áþján því að hann hefur mætur á mér.
21Drottinn launaði mér réttlæti mitt,
endurgalt mér hreinleika handa minna
22því að ég vék ekki af vegi Drottins
og brást ekki Guði mínum.
23Af því að öll boð hans voru mér fyrir augum
og ég hafnaði ekki lögum hans
24var ég flekklaus frammi fyrir honum.
Ég varaðist að syndga,
25þess vegna launaði Drottinn mér réttlæti mitt
því að ég er hreinn í augum hans.
26Þú ert trúum trúr,
ráðvöndum ráðvandur,
27einlægur einlægum,
en andsnúinn svikurum.
28Þú frelsar undirokaða
en hefur augu á hinum hrokafullu og auðmýkir þá.
29Já, þú ert lampi minn, Drottinn.
Drottinn lýsir mér í myrkrinu.
30Með þinni hjálp brýt ég borgarveggi,
með Guði mínum stekk ég yfir múra.
31Vegur Guðs er lýtalaus,
orð Drottins er áreiðanlegt,
skjöldur er hann öllum sem leita hælis hjá honum.
32Hver er Guð nema Drottinn?
Hver er bjarg nema Guð vor?
33Guð er mitt trausta vígi,
hann greiddi mér götu sína.
34Hann gerir fót minn fráan sem hindarinnar,
veitir mér fótfestu á hæðunum.
35Hann þjálfar hendur mínar til hernaðar,
arma mína til að spenna eirbogann.
36Þú gerðir hjálp þína að skildi mínum,
heit þitt gerði mig mikinn.
37Þú rýmdir fyrir skrefum mínum
og ökklar mínir riðuðu ekki.
38Ég elti fjandmenn mína og upprætti þá
og sneri ekki aftur fyrr en ég hafði eytt þeim.
39Ég eyddi þeim, molaði þá sundur
svo að þeir risu ekki upp aftur
og lágu undir fótum mínum.
40Þú gyrtir mig styrkleika til hernaðar,
beygðir fjandmenn mína undir mig.
41Þú hraktir fjandmenn mína á flótta,
ég eyddi hatursmönnum mínum.
42Þeir hrópuðu en enginn kom til hjálpar,
hrópuðu til Drottins en hann svaraði ekki.
43Ég muldi þá, þeir urðu sem ryk,
tróð þá undir fótum eins og skarn á götu.
44Þú bjargaðir mér úr átökum þjóðar minnar,
gerðir mig að leiðtoga þjóðanna.
Þjóð, sem ég þekkti ekki áður, þjónar mér.
45Framandi menn smjaðra fyrir mér,
hlýða mér um leið og þeir heyra í mér.
46Framandi menn missa máttinn,
koma skjálfandi úr fylgsnum sínum.
47Drottinn lifir. Lofað sé bjarg mitt.
Guð, klettur hjálpræðis míns, sé upphafinn,
48Guð veitir mér hefnd,
leggur þjóðir undir mig,
49lætur mig komast undan fjandmönnum mínum.
Þú hefur mig yfir andstæðinga mína,
frelsar mig frá ofbeldismönnum.
50Þess vegna vegsama ég þig meðal þjóðanna, Drottinn,
lofsyng nafn þitt.
51Hann veitir konungi sínum mikla sigra,
auðsýnir sínum smurða trúfesti,
Davíð og niðjum hans ævinlega.
Who We AreWhat We EelieveWhat We Do
2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.