Jesaja 29 - Biblían (2007)

Þrengingar Jerúsalem og björgun

1Vei þér, Aríel, Aríel,

borgin þar sem Davíð sló upp herbúðum.

Bætið ári við ár,

látið hátíðirnar fara sinn hring

2en ég mun þrengja að Aríel

og þar verður hryggð og harmakvein.

Hún verður mér eins og brennifórnaraltari.

3Ég mun setja herbúðir gegn þér,

þrengja að þér með árásarvirkjum

og reisa turna gegn þér.

4Fallin muntu tala frá jörðinni,

orð þín berast hálfkæfð upp úr moldinni,

rödd þín sem draugsrödd upp úr jörðinni

og raust þín sem hvískur úr moldinni.

5Þá verður mergð þinna drambsömu eins og ryk

og mergð ofbeldismanna þinna eins og fjúkandi hismi.

Skyndilega, á augabragði,

6kemur refsing frá Drottni allsherjar

með þrumum, jarðskjálfta og miklum gný,

fellibyl, stormi og eyðandi eldstungum.

7Eins og í draumsýn um nótt,

þannig mun fara fyrir allri þjóðamergðinni sem herjar á Aríel,

sem ræðst á hana, reisir virki gegn henni og þrengir að henni.

8Eins og þegar hungraðan mann dreymir að hann eti

en vaknar svangur sem fyrr,

eins og þegar þyrstan mann dreymir að hann drekki

en vaknar örmagna, þyrstur sem fyrr,

þannig fer fyrir allri þjóðamergðinni sem herjar á Síonarfjall.

Blinda og afneitun

9Fallið í stafi og undrist,

starið yður blinda.

Gerist drukknir, þó ekki af víni.

Reikið, þó ekki af öli.

10Því að Drottinn hefur hellt yfir yður

anda svefnhöfgi,

lokið augum yðar, spámenn,

hyljið höfuð yðar, sjáendur.

11Yður var sérhver opinberun eins og orð í innsiglaðri bók: Sé hún fengin þeim sem kann að lesa og sagt við hann: „Lestu þetta,“ þá svarar hann: „Ég get það ekki því að bókin er innsigluð.“

12En sé bókin fengin þeim sem kann ekki að lesa og sagt við hann: „Lestu þetta,“ svarar hann: „Ég er ólæs.“

13Drottinn segir:

Þetta fólk nálgast mig með munni sínum

og heiðrar mig með vörum sínum

en hjarta þess er mér fjarri

og guðsótti þess er utanaðlærðar mannasetningar.

14Þess vegna mun ég enn fara undarlega með þetta fólk,

undarlega og undursamlega.

Speki spekinga þess hverfi

og hyggindi hyggindamannanna fari í felur.

15Vei þeim sem grafa djúpt

til að hylja áform sín fyrir Drottni

og vinna verk sín í myrkri

og hugsa: „Hver sér oss, hver veit um oss?“

16Hvílík fásinna.

Skal leggja að jöfnu leirinn og leirkerasmiðinn?

Getur verkið sagt um þann sem vann það:

„Hann hefur ekki búið mig til?“

Getur það sem var mótað sagt um þann sem mótaði:

„Hann kann ekki til verka“?

Endurnýjun

17Er ekki skammt þar til

Líbanon verður að aldingarði

og Karmel talið skóglendi?

18Á þeim degi munu daufir heyra orð lesin af bók

og augu blindra sjá þrátt fyrir skugga og myrkur.

19Þá mun gleði auðmjúkra aukast yfir Drottni

og hinir fátækustu meðal manna

munu fagna yfir Hinum heilaga Ísraels.

20Kúgarinn verður ekki lengur til,

skrumarinn líður undir lok,

öllum, sem hyggja á illt, verður tortímt

21og þeim sem sakfella menn fyrir rétti,

þeim sem leggja snörur fyrir þann sem áminnir í hliðinu

og vísa hinum saklausa frá með innantómu hjali.

22Þess vegna segir Drottinn,

sem endurleysti Abraham, við ættbálk Jakobs:

Nú þarf Jakob ekki að blygðast sín lengur

og andlit hans ekki framar að fölna

23því að þegar þjóðin sér börn sín,

verk handa minna, sín á meðal

mun hún helga nafn mitt,

helga Hinn heilaga Jakobs

og óttast Guð Ísraels

24og þeir sem eru villuráfandi í anda

munu öðlast skilning

og þeir sem mögla láta sér segjast.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help