1Júdas sonur Mattatíasar, sem kallaður var Makkabeus, kom nú í stað föður síns.
2Bræður hans veittu honum fulltingi og allir fylgismenn föður hans, og reifir héldu þeir áfram baráttunni fyrir Ísrael.
3Hann jók hróður þjóðar sinnar stórum,
var sem risi er hann bjó sig brynju
og gyrti sig hertygjum.
Í orrustum varði sverð hans herinn.
4Hann líktist ljóni í dáðum sínum,
ungljóni sem öskrar eftir bráð.
5Guðlausa leitaði hann uppi og ofsótti þá
og hegndi þeim með eldi sem þjökuðu þjóð hans.
6Guðleysingjarnir urðu að gjalti af ótta við hann,
enginn lögmálsbrjótur vissi sitt rjúkandi ráð.
Handleiðsla hans reyndist frelsinu heilladrjúg.
7Mörgum konungi gerði hann lífið leitt
en gladdi Jakob með dáðum sínum.
Blessuð skal minning hans að eilífu.
8Hann fór um borgir Júdeu,
hrakti guðlausa þaðan,
reiðinni beindi hann frá Ísrael.
9Orðstír hans barst til endimarka jarðar
og hann safnaði þeim sem glötun ein beið.
10Appollóníus safnaði miklum her heiðingja og Samverja til að herja á Ísrael.
11Þegar Júdas varð þess var fór hann gegn honum. Sigraði hann Appollóníus og felldi hann. Margir féllu sárir en hinir flýðu.
12Er þeir rændu valinn tók Júdas sverð Appollóníusar og bar það jafnan síðan í orrustum.
13Seron, foringi sýrlenska hersins, frétti að Júdas hefði safnað um sig skara trúrra manna sem væru albúnir til að berjast
14og sagði: „Ég ræðst á Júdas og menn hans sem óhlýðnast boðum konungs. Af því verð ég nafnkunnur og víðfrægur í ríkinu.“
15Síðan tók hann sig upp og hélt af stað til að hegna Ísraelsmönnum. Til stuðnings sér hafði hann mikinn her guðleysingja.
16Er Seron nálgaðist gilið upp til Bet Hóron kom Júdas á móti honum og var liðfár.
17Þegar menn hans sáu herinn, sem að þeim stefndi, sögðu þeir við Júdas: „Hvernig eigum við svona fáir að berjast við þvílíkt ofurefli? Að auki erum við örmagna enda höfum við einskis neytt í dag.“
18Því svaraði Júdas: „Hæglega geta fáir borið marga ofurliði. Himninum veitist jafn auðvelt að frelsa með fáum og mörgum.
19Sigur í stríði ræðst ekki af liðstyrk heldur mætti frá himni.
20Þeir koma gegn okkur með hroka og lögmálsbrotum til að afmá okkur, konur okkar og börn og ræna eigum okkar.
21Við berjumst hins vegar fyrir lífi og arfhelgum réttindum.
22Himinninn mun sjálfur eyða þeim fyrir augum okkar. Óttist þá ekki.“
23Að orðinu slepptu réðst Júdas óvænt á óvinina og biðu Seron og her hans algjöran ósigur fyrir honum.
24Eltu hann og menn hans Seron ofan einstigið við Bet Hóron og ofan á sléttlendið. Féllu nær átta hundruð af liði Serons en hinir flýðu til lands Filistea.
25Þá tók að gæta ótta við Júdas og bræður hans og skelfing greip heiðingjana umhverfis.
26Barst orðstír hans jafnvel til konungs og allar þjóðir sögðu frá dáðum hans.
Antíokkus skipar Lýsías landstjóra27Þegar Antíokkus konungur frétti af þessum atburðum varð hann hamslaus af bræði. Gerði hann út sendiboða til að safna öllu herliði í ríki sínu. Varð það gífurlegur her.
28Hann opnaði fjárhirslu sína og galt hernum ársmála fyrir fram og bauð honum að vera viðbúinn hverju sem væri.
29En hann sá að stórum gekk á silfrið í sjóði. Skattheimtan hafði líka dregist mjög saman í ríkinu vegna þeirra óeirða og tjóns sem hann hafði bakað landinu er hann nam úr gildi helgan rétt sem virtur hafði verið frá ómunatíð.
30Þá óttaðist hann að fara kynni líkt og stundum áður að hann hefði ekki nóg til eyðslu og gjafa. Þeim hafði hann dreift af enn meira örlæti en fyrirrennarar hans.
31Vissi hann ekki hvað til bragðs skyldi taka en ákvað að halda til Persíu til að krefjast skatta í skattlöndunum og ná saman miklu fé.
32Skildi hann Lýsías, sem var vel metinn maður af konungsættum, eftir og fól honum stjórn ríkisins milli fljótsins Efrat og Egyptalands.
33Einnig fól konungur honum Antíokkus son sinn til fósturs þar til hann kæmi aftur.
34Hann afhenti Lýsíasi helming hersins og fílana og gaf honum fyrirmæli um allt sem hann hafði í hyggju, einkum varðandi íbúa Júdeu og Jerúsalem.
35Hann bauð Lýsíasi að senda her til að brjóta Ísraelsmenn á bak aftur og eyða herliði Ísraelsmanna og þeim sem enn bjuggu í Jerúsalem og afmá allt sem á þá minnti í borginni.
36Enn fremur átti hann að láta útlendinga setjast að í öllum byggðum landsins og skipta landinu upp á milli þeirra.
37Hinn helminginn af her sínum tók konungur með sér og hélt á brott frá höfuðborg sinni, Antíokkíu. Var það árið eitt hundrað fjörutíu og sjö. Hélt hann yfir Efratfljót og lagði leið sína um upplöndin.
Nýir sigrar Júdasar38Lýsías valdi Ptólemeus Dórýmenesson, Níkanor og Gorgías, dugmikla menn úr hópi vina konungs,
39og sendi þá af stað með fjörutíu þúsund fótgönguliða og sjö þúsund riddara. Áttu þeir að gera innrás í Júdeu og gera hana að auðn eins og konungur hafði mælt fyrir um.
40Foringjarnir héldu af stað með allt lið sitt og er þeir komu á sléttuna við Emmaus slógu þeir upp herbúðum.
41Þegar kaupmennirnir þar í grennd fréttu af þeim komu þeir í herbúðirnar. Höfðu þeir meðferðis gnótt gulls og silfurs og fótfjötra því að þeir hugðust kaupa ísraelska herfanga. Hernum jókst svo liðstyrkur frá Sýrlandi og Filisteu.
42Júdas og bræður hans sáu að ástandið varð stöðugt ískyggilegra því að herinn hafði komið sér fyrir í landi þeirra. Einnig fréttu þeir af fyrirmælum konungs um að uppræta þjóðina og eyða henni.
43Þeir sögðu hver við annan: „Við skulum rísa gegn eyðingu þjóðar okkar og berjast fyrir hana og helgidóminn.“
44Allir bjuggu þeir sig síðan til bardaga og sameinuðust í bæn og ákalli um náð og miskunn.
45Jerúsalem var sem óbyggð auðn,
ekkert barna hennar fór þar um.
Helgidómurinn var fótum troðinn,
útlendingar héldu virkinu
svo að það varð heiðingjum hæli.
Gleði var horfin Jakobi,
flauta og harpa þögnuð.
46Júdas og menn hans söfnuðust saman og héldu til Mispa, gegnt Jerúsalem, en Mispa hafði fyrr á tímum verið bænastaður Ísraelsmanna.
47Daginn þann föstuðu þeir, klæddust hærusekk, jusu ösku yfir höfuð sér og rifu klæði sín.
48Síðan luku þeir lögmálsbókinni upp til að finna það sem heiðingjarnir leita eftir hjá skurðgoðamyndum sínum.
49Þeir báru einnig skrúða prestanna fram, frumgróðann og tíundirnar og sóttu nasírea sem fullnað höfðu helgunardaga sína.
50Síðan hrópuðu þeir hárri röddu til himins: „Hvað eigum við að gera við þetta og hvert á að fara með þetta?
51Helgidómur þinn er fótum troðinn og svívirtur orðinn og prestar þínir hryggir og niðurlægðir.
52Og nú hafa heiðingjarnir sameinast gegn okkur til að uppræta okkur. Þú veist hvað þeir hafa í hyggju með okkur.
53Hvernig eigum við að standa í gegn þeim ef þú hjálpar okkur ekki?“
54Síðan þeyttu þeir lúðra og hrópuðu hástöfum.
55Eftir þetta skipaði Júdas fyrirliða fyrir lið sitt. Stýrðu sumir þúsund, aðrir fimm hundruð, hundrað, fimmtíu eða tíu manna deildum.
56En eins og lögmálið kveður á um sendi hann þá heim til sín sem voru að reisa sér hús, höfðu fastnað sér konu eða plantað víngarð eða kenndu hræðslu.
57Þá yfirgaf herinn búðir sínar og kom sér fyrir að nýju fyrir sunnan Emmaus.
58Þar sagði Júdas: „Brynjið ykkur og hleypið kappi í kinn. Búist til að berjast í bítið á morgun við þessa heiðingja sem sameinast hafa móti okkur til að afmá okkur og helgidóm okkar.
59Betra mun okkur að falla í orrustu en að horfa upp á ógæfu þjóðar okkar og helgidómsins.
60En hver sem vilji himinsins er, það lætur hann verða.“
Who We AreWhat We EelieveWhat We Do
2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.