Esekíel 26 - Biblían (2007)

Gegn Týrus

1Á fyrsta degi mánaðarins á ellefta árinu kom orð Drottins til mín:

2Mannssonur, Týrus segir um Jerúsalem: „Hlið þjóðanna er brotið. Mér hlotnast auður hennar þar sem hún liggur í rústum.“

3Því segir Drottinn Guð: Nú held ég gegn þér, Týrus. Ég mun senda margar þjóðir gegn þér, eins og brimöldur hafsins.

4Þær munu brjóta múra Týrusar og rífa niður turna hennar. Ég mun sópa burt jarðvegi hennar og gera hana að berri klöpp.

5Borgin skal verða þerrireitur fyrir fiskinet úti í miðju hafi því að ég hef talað, segir Drottinn Guð. Hún verður herfang framandi þjóða.

6En dætur hennar á meginlandinu verða vegnar með sverði. Þá munu menn skilja að ég er Drottinn.

7Því að svo segir Drottinn Guð: Nú sendi ég Nebúkadresar, konung í Babýlon, konung konunganna, úr norðri gegn Týrus með hesta, vagna, riddara, herlið og mikinn herstyrk.

8Hann mun fella dætur þínar á meginlandinu með sverði. Hann mun reisa umsátursvirki gegn þér, gera víggirðingu gegn þér og setja upp skjaldþök gegn þér.

9Hann mun láta högg múrbrjóts síns dynja á múrum þínum og mölva turna þína með járnkörlum.

10Mergð hrossa hans er slík að jóreykurinn færir þig í kaf. Dynur frá hófaskellum og vagnhjólum skekur múra þína þegar hann fer um borgarhlið þín eins og þegar haldið er inn í hálfhrunda borg.

11Hann mun traðka stræti þín með hófum hesta sinna, fella íbúana með sverði og steypa voldugum súlum þínum til jarðar.

12Þeir munu ræna auðæfum þínum, hirða gróðann af verslun þinni. Múra þína munu þeir rífa og brjóta niður hinar glæsilegu byggingar þínar. Þeir munu fleygja steinunum, viðunum og leirnum úr þér út í hafsauga.

13Ég mun þagga niður söngva þína og sítarhljómur þinn mun ekki heyrast framar.

14Ég mun gera þig að berri klöpp. Þú skalt verða þerrireitur fyrir fiskinet, þú verður aldrei endurreist því að ég, Drottinn, hef talað, segir Drottinn Guð.

15Svo segir Drottinn Guð við Týrus: Munu eyjarnar ekki nötra við dynkinn af falli þínu og stunur helsærðra þegar blóðbaðið verður skefjalaust í borginni?

16Þá munu allir þjóðhöfðingjar strandríkjanna stíga niður úr hásætum sínum, leggja af sér skikkjur sínar og fara úr skartklæðum sínum. Þeir munu klæðast ótta, setjast á jörðina og titra og skjálfa vegna þín.

17Þeir munu flytja harmljóð yfir þér og segja við þig:

Nú ertu eydd,

horfin af höfunum,

þú víðfræga borg

sem varst voldug á hafinu,

þú og íbúar þínir,

þú sem skelfdir alla

sem bjuggu þar.

18En nú skjálfa eyjarnar

á degi falls þíns.

Eyjarnar í hafinu

skelfast yfir afdrifum þínum.

19Því að svo segir Drottinn Guð: Ég geri þig að rúst eins og borgirnar sem ekki eru lengur byggðar. Þegar ég læt frumdjúpið ganga yfir þig og hin miklu vötn hylja þig

20steypi ég þér niður ásamt þeim sem fara ofan í gryfjuna til fyrri tíðar manna. Ég bý þér stað í iðrum jarðar eins og í eldfornum rústum svo að þú ríkir ekki aftur á landi lifenda.

21Ég bý þér skelfileg endalok og þú munt ekki framar til verða. Þín verður leitað en þú finnst aldrei, segir Drottinn Guð.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help