Fimmta Mósebók 6 - Biblían (2007)

Þú skalt elska Guð einan

1Þetta eru fyrirmælin, lögin og ákvæðin, sem Drottinn, Guð okkar, hefur falið mér að kenna ykkur að halda í landinu sem þið eruð að fara yfir til og slá eign ykkar á

2svo að þú, börn þín og barnabörn virðið Drottin, Guð ykkar, alla ævidaga þína með því að halda öll lög hans og fyrirmæli sem ég set ykkur til þess að þú verðir langlífur.

3Hlýð því á þau, Ísrael, og gættu þess að halda þau svo að þér vegni vel og þér fjölgi stórum í landinu sem flýtur í mjólk og hunangi eins og Drottinn, Guð þinn, hét þér.

4Heyr, Ísrael. Drottinn, Guð vor, Drottinn er einn.

5Þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og af öllum mætti þínum.

6Þessi orð, sem ég boða þér í dag, skulu vera þér hugföst.

7Þú skalt brýna þau fyrir börnum þínum. Þú skalt hafa þau yfir þegar þú situr heima og þegar þú ert á faraldsfæti, þegar þú leggst til svefns og þegar þú ferð á fætur.

8Þú skalt binda þau sem tákn á hönd þína og hafa þau sem merki milli augna þinna.

9Þú skalt skrifa þau á dyrastafi húss þíns og borgarhlið þín.

10Drottinn, Guð þinn, mun leiða þig inn í landið sem hann sór feðrum þínum, Abraham, Ísak og Jakobi, að gefa þér, land með stórum og fögrum borgum sem þú byggðir ekki,

11með húsum fullum af alls kyns góðum hlutum sem þú safnaðir ekki, úthöggnum brunnum sem þú hjóst ekki, víngörðum og ólífutrjám sem þú gróðursettir ekki. Þegar þú matast og verður mettur,

12gæt þess þá að þú gleymir ekki Drottni sem leiddi þig út úr Egyptalandi, úr þrælahúsinu.

13Þú skalt óttast Drottin, Guð þinn, þú skalt þjóna honum og sverja við nafn hans.

14Þið skuluð ekki fylgja öðrum guðum, ekki neinum af guðum þjóðanna sem búa umhverfis ykkur

15því að Drottinn, Guð þinn, sem er með þér, hann er vandlátur Guð. Reiði Drottins, Guðs þíns, gæti blossað upp gegn þér og hann kynni að afmá þig af yfirborði jarðar.

16Þið skuluð ekki reyna Drottin eins og þið reynduð hann við Massa.

17Þið eigið að halda fyrirmæli Drottins, Guðs ykkar, í einu og öllu, lög þau og ákvæði sem hann hefur sett ykkur.

18Þú skalt gera það sem rétt er og gott í augum Drottins svo að þér vegni vel og þú komist inn í og fáir til eignar landið góða sem Drottinn hét feðrum þínum.

19Drottinn mun ryðja öllum fjandmönnum úr vegi þínum eins og hann hefur heitið.

20Þegar sonur þinn spyr þig seinna meir: „Hvaða fyrirmæli, lög og ákvæði eru þetta sem Drottinn, Guð okkar, setti ykkur?“

21skaltu svara syni þínum: „Við vorum þrælar faraós í Egyptalandi en Drottinn leiddi okkur út úr Egyptalandi með sterkri hendi.

22Fyrir augum okkar gerði Drottinn mikil tákn og máttarverk sem skæð urðu Egyptalandi, faraó og allri fjölskyldu hans.

23En okkur leiddi hann þaðan til þess að fara með okkur inn í landið sem hann hafði heitið feðrum okkar að gefa okkur.

24Drottinn bauð okkur að fara að öllum þessum lögum og óttast Drottin, Guð okkar, svo að okkur vegnaði ætíð vel og hann léti okkur lífi halda eins og allt til þessa.

25Því aðeins hljótum við réttlæti að við gætum þess að fylgja öllum þessum fyrirmælum frammi fyrir augliti Drottins, Guðs okkar, eins og hann hefur boðið okkur.“

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help