Orðskviðirnir 22 - Biblían (2007)

1Gott mannorð er dýrmætara en mikill auður,

vinsældir eru betri en silfur og gull.

2Ríkur og fátækur mætast

en Drottinn skapaði báða.

3Vitur maður sér ógæfuna og felur sig

en einfeldningarnir halda áfram og gjalda þess.

4Laun auðmýktar og ótta Drottins

eru auður, sæmd og líf.

5Þyrnar og snörur eru á vegi hinna fláráðu,

sá sem annt er um líf sitt forðast þá.

6Fræð hinn unga um veginn sem hann á að halda

og á gamals aldri mun hann ekki af honum víkja.

7Ríkur maður drottnar yfir fátækum

og lánþeginn verður þræll lánardrottins síns.

8Sá sem sáir ranglæti uppsker ógæfu,

sproti heiftar hans verður að engu.

9Hinn örláta munu menn blessa

því að hann gefur hinum fátæka af brauði sínu.

10Rektu spottarann burt, þá hverfur deilan

og þá linnir þrætu og smán.

11Sá sem ástundar hreinleika hjartans

vinnur hylli konungs með geðfelldum orðum vara sinna.

12Augu Drottins gæta viskunnar

en orðum svikarans kollvarpar hann.

13Letinginn segir: „Ljón er úti fyrir,

ég verð drepinn fari ég út.“

14Djúp gröf er munnur framandi kvenna,

sá sem verður fyrir reiði Drottins fellur í hana.

15Setjist heimskan að í hjarta sveinsins,

þá mun vöndur agans reka hana þaðan.

16Að kúga fátækan sér til ávinnings

er eins og að gefa ríkum manni;

hvort tveggja verður til þess eins að gera mann snauðan.

Orð hinna vitru

17Hneig eyra þitt og hlusta á orð hinna vitru,

veit fræðslu minni athygli.

18Gott er að þú geymir þau í brjósti þér,

að þau verði sífellt á vörum þér.

19Til þess að traust þitt sé á Drottni

fræði ég þig í dag, já, þig.

20Hef ég ekki ritað þér þrjátíu sinnum

heilræði og fræðslu

21til þess að gera þér ljósan sannleika, sannleiksorð,

svo að þú flytjir þeim áreiðanleg orð er senda þig?

22Rændu ekki fátæklinginn af því að hann er fátækur

og níðstu ekki á lítilmagnanum í borgarhliðinu

23því að Drottinn mun flytja mál þeirra

og ræna þá lífinu er þá ræna.

24Leggðu ekki lag þitt við reiðigjarnan mann

og eigðu ekki samneyti við hinn skapbráða

25til þess að þú temjir þér ekki hegðun hans

og leggir snörur fyrir líf þitt.

26Vertu ekki einn af þeim sem ganga til handsala,

þeim sem ganga í ábyrgð fyrir skuldum.

27Þegar þú átt ekkert að greiða með,

þá verður hvílan tekin undan þér.

28Færðu ekki úr stað hin fornu landamerki

sem forfeður þínir hafa sett.

29Sjáir þú mann vel færan í verki sínu

mun hann veita konungum þjónustu sína

en ekki þjóna ótignum mönnum.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help