Fyrsta Mósebók 44 - Biblían (2007)

Bikar Jósefs í sekk Benjamíns

1Jósef gaf ráðsmanni sínum þessi fyrirmæli: „Fylltu sekki mannanna af korni, eins mikið og þeir geta borið, og láttu silfurpeninga hvers og eins efst í sekk hans.

2Bikar mínum, silfurbikarnum, skaltu koma fyrir efst í sekk hins yngsta ásamt silfurpeningunum sem hann greiddi fyrir kornið.“ Hann gerði eins og Jósef bauð honum.

3Árla morguninn eftir fengu mennirnir að leggja af stað, þeir og asnar þeirra.

4Þeir voru ekki komnir langt frá borginni þegar Jósef sagði við ráðsmann sinn: „Farðu og veittu mönnunum eftirför og þegar þú nærð þeim skaltu segja við þá: Hví hafið þið launað gott með illu?

5Þetta er bikarinn sem húsbóndi minn drekkur af og hann notar til að spá í. Þið hafið brotið illa af ykkur.“

6Þegar hann náði þeim sagði hann þetta við þá.

7Bræðurnir svöruðu: „Hvers vegna segir þú þetta, herra? Okkur, þjónum þínum, kæmi aldrei til hugar að gera slíkt.

8Við komum aftur frá Kanaanslandi með silfrið sem við fundum efst í sekkjum okkar. Hvers vegna ættum við þá að stela silfri eða gulli úr húsi húsbónda þíns?

9Finnist bikarinn hjá einhverjum okkar skal hann deyja og við hinir skulum vera þrælar herra míns.“

10Hann svaraði: „Gerum eins og þið leggið til. Sá sem bikarinn finnst hjá verði þræll minn en þið skuluð vera lausir.“

11Bræðurnir flýttu sér að taka ofan hver sinn sekk og þeir opnuðu þá.

12Ráðsmaðurinn hóf að leita, byrjaði á hinum elsta og endaði á hinum yngsta og fannst þá bikarinn í sekk Benjamíns.

13Þá rifu þeir klæði sín, létu hver upp á sinn asna og sneru aftur til borgarinnar.

Júda talar máli bróður síns

14Jósef var enn heima er Júda og bræður hans komu þangað. Þeir féllu til jarðar frammi fyrir honum

15en hann sagði við þá: „Hvað hafið þið gert? Vissuð þið ekki að maður eins og ég getur ráðið í leynda hluti?“

16Júda svaraði: „Hvað getum við sagt, herra? Hvernig getum við með orðum sýnt fram á sakleysi okkar þegar Guð hefur fundið okkur seka? Við erum þrælar þínir, herra, bæði við og sá sem bikarinn fannst hjá.“

17Jósef svaraði: „Nei, það skal ekki verða. Aðeins sá sem bikarinn fannst hjá verður þræll minn. Þið hinir getið áhyggjulausir haldið heim til föður ykkar.“

18Þá sneri Júda sér að honum og mælti: „Vertu svo góður, herra minn, að leyfa þjóni þínum að tala nokkur orð til þín án þess að reiði þín blossi upp gegn mér, þú sem ert sem faraó.

19Þú, herra, spurðir okkur, þjóna þína, hvort við ættum föður eða bróður.

20Við svöruðum þér þannig, herra minn: Við eigum aldraðan föður og ungan bróður sem hann gat í elli sinni. Bróðir drengsins er látinn, hann er einn á lífi af börnum móður sinnar og faðir hans elskar hann.

21Þú sagðir við þjóna þína: Komið með hann til mín svo að ég fái litið hann með eigin augum.

22Við sögðum þér, herra, að drengurinn mætti ekki yfirgefa föður sinn því að yfirgæfi hann föður sinn mundi það draga hann til dauða.

23Þá sagðir þú við þjóna þína: Ef yngsti bróðir ykkar kemur ekki hingað með ykkur þá skuluð þið ekki framar fá að sjá auglit mitt.

24Síðan fórum við heim til þjóns þíns, föður okkar, og sögðum honum hvað þú hefðir sagt.

25Faðir okkar sagði: Snúið aftur og kaupið okkur dálítið af korni.

26Við svöruðum: Við getum ekki farið þangað nema yngsti bróðir okkar komi með okkur, þá getum við farið. Við fáum ekki að sjá auglit mannsins ef yngsti bróðir okkar er ekki með í för.

27Þjónn þinn, faðir okkar, svaraði okkur: Þið vitið að kona mín ól mér tvo syni.

28Annar þeirra hvarf að heiman frá mér og ég taldi víst að dýr hefðu rifið hann í sig. Ég hef ekki séð hann síðan.

29Ef þið takið nú líka þennan frá mér og verði hann fyrir slysi, þá munuð þið valda mér slíkri sorg að það mun leiða hærur mínar til heljar.

30Snúi ég heim til föður míns án þess að drengurinn, sem hann elskar svo mjög, sé með okkur

31þá mun það leiða hann til dauða þegar hann sér að drengurinn er ekki með okkur. Við hefðum þá valdið honum slíkri sorg að það leiddi hærur hans til heljar.

32Ég tók ábyrgð á drengnum gagnvart föður mínum og sagði: Komi ég ekki með hann aftur skal ég vera sekur við föður minn alla ævi.

33Þess vegna bið ég þig um að leyfa mér að verða hér eftir sem þræll herra míns í stað drengsins og að hann fái að snúa heim með bræðrum sínum.

34Hvernig gæti ég farið heim til föður míns án þess að hafa drenginn með mér? Ég þoli ekki að sjá þá óhamingju koma yfir föður minn.“

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help