Síðari Samúelsbók 7 - Biblían (2007)

Fyrirheit um ævarandi konungdóm

1Þegar konungur var sestur að í húsi sínu og Drottinn hafði veitt honum frið við alla óvini umhverfis

2sagði hann við Natan spámann: „Þú sérð að ég bý í húsi úr sedrusviði en örk Guðs býr í tjaldi.“

3Natan svaraði konungi: „Gerðu það sem þú hefur í huga án þess að hika því að Drottinn er með þér.“

4Þá um nóttina kom orð Drottins til Natans:

5„Farðu og segðu við þjón minn, Davíð: Svo segir Drottinn: Ætlar þú að reisa mér hús að búa í?

6Frá þeim degi er ég leiddi Ísraelsmenn út úr Egyptalandi og til þessa dags hef ég ekki búið í húsi heldur ferðast um og búið í tjaldi.

7Hef ég nokkurn tíma spurt einhvern af leiðtogum Ísraels sem ég setti sem hirða þjóðar minnar þann tíma sem ég hef verið á ferð með Ísraelsmönnum: Hvers vegna hafið þið ekki byggt mér hús úr sedrusviði?

8Þess vegna skaltu nú segja við þjón minn, Davíð: Svo segir Drottinn allsherjar: Ég sótti þig í haglendið þar sem þú gættir fjár og gerði þig að höfðingja yfir lýð mínum, Ísrael.

9Ég hef verið með þér á öllum ferðum þínum og tortímt öllum óvinum þínum. Ég mun gera nafn þitt jafnfrægt nöfnum frægustu manna á jörðinni.

10Ég mun fá lýð mínum, Ísrael, samastað og ég mun gróðursetja hann svo að hann geti búið þar öruggur og óttalaus um alla framtíð. Ofbeldismenn skulu ekki kúga hann framar eins og fyrrum,

11jafnvel eftir að ég setti dómara yfir lýð minn, Ísrael. Ég veiti þér frið fyrir öllum óvinum þínum. Hér með kunngjörir Drottinn þér að hann muni reisa þér hús.

12Þegar dagar þínir eru allir og þú hefur verið lagður til hvíldar hjá forfeðrum þínum mun ég gera son þinn, sem er getinn af þér, að eftirmanni þínum og ég mun styðja konungdóm hans.

13Hann á að byggja nafni mínu hús og ég mun ævinlega styðja konunglegt hásæti hans.

14Ég verð honum faðir og hann verður mér sonur. Þegar hann brýtur af sér mun ég hirta hann með höggum og slögum eins og tíðkast meðal manna.

15Trúfesti mína skal ég ekki frá honum taka eins og frá Sál sem ég fjarlægði frá augliti mínu.

16Ætt þín og konungdæmi skulu ævinlega standa fyrir augliti mínu. Hásæti þitt skal að eilífu stöðugt standa.“

17Natan flutti Davíð öll þessi orð og alla þessa opinberun.

Bæn Davíðs

18Þá gekk Davíð konungur inn, settist frammi fyrir augliti Drottins og sagði: „Hver er ég, Drottinn Guð, og hvað er ætt mín úr því að þú hefur látið mig ná svona langt?

19Og samt nægði það þér ekki, Drottinn Guð, því að þú hefur að auki gefið ætt minni, sem er þjónn þinn, fyrirheit um fjarlæga framtíð. Það er mönnum til leiðsagnar, Drottinn Guð.

20Hvað getur Davíð sagt við þig umfram þetta? Þú þekkir þjón þinn, Drottinn Guð.

21Þú hefur unnið þetta stórvirki vegna loforðs þíns og samkvæmt vilja þínum og skýrt mér, þjóni þínum, frá því.

22Þess vegna ert þú mikill, Drottinn Guð. Enginn jafnast á við þig og enginn er Guð nema þú eins og við höfum heyrt með okkar eigin eyrum.

23Er nokkur þjóð á þessari jörð sem jafnast á við þjóð þína, Ísrael? Hvenær hefur Guð farið og leyst nokkra þjóð úr ánauð, gert hana að sínum eignarlýð, víðfrægt nafn hennar og unnið fyrir hana mikil og ógnvekjandi verk? Þetta gerðirðu þegar þú hraktir á braut aðrar þjóðir og guði þeirra undan þjóð þinni sem þú hafðir leyst úr ánauð í Egyptalandi.

24Þú hefur gert Ísrael að lýð þínum um aldur og ævi og þú, Drottinn, hefur gerst Guð hans.

25Drottinn Guð, haltu ævinlega það fyrirheit sem þú gafst þjóni þínum og ætt hans. Gerðu það sem þú hefur lofað.

26Þá verður nafn þitt ævinlega mikið og menn munu segja: Drottinn hersveitanna er Guð Ísraels. Ætt Davíðs, þjóns þíns, mun þá jafnan standa fyrir augliti þínu.

27Þú, Drottinn herskaranna, Guð Ísraels, hefur opinberað þjóni þínum þetta og sagt: Ég mun reisa þér hús. Þess vegna hef ég, þjónn þinn, vogað mér að biðja þig þessarar bónar.

28Drottinn Guð, þú einn ert Guð. Orð þín munu rætast. Þú hefur heitið mér, þjóni þínum, þessari farsæld.

29Blessa þú nú ætt þjóns þíns svo að hún sé ævinlega fyrir augliti þínu. Því að þú sjálfur, Drottinn Guð, hefur lofað þessu. Fyrir blessun þína verður ætt mín, sem er þjónn þinn, blessuð um aldur og ævi.“

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help