Fyrri kroníkubók 15 - Biblían (2007)

Örkin flutt til Jerúsalem

1Þegar hann hafði látið byggja sér hús í borg Davíðs lét hann einnig búa örk Guðs stað og reisa tjald fyrir hana.

2Þá skipaði Davíð svo fyrir: „Enginn má bera örk Guðs nema Levítarnir því að Drottinn hefur valið þá til að bera örk Drottins og til að þjóna sér ævinlega.“

3Því næst kallaði Davíð allan Ísrael saman í Jerúsalem til þess að flytja örk Drottins þangað upp eftir á staðinn sem hann hafði búið henni.

4Davíð stefndi saman niðjum Arons og Levítunum.

5Af niðjum Kahats kom höfðinginn Úríel og bræður hans, 120 menn.

6Af niðjum Merarí kom höfðinginn Asaja og bræður hans, 220 menn.

7Af niðjum Gersons kom höfðinginn Jóel og bræður hans, 130 menn.

8Af niðjum Elísafans kom höfðinginn Semaja og bræður hans, 200 menn.

9Af niðjum Hebrons kom höfðinginn Elíel og bræður hans, 80 menn.

10Af niðjum Ússíels kom höfðinginn Ammínadab og bræður hans, 112 menn.

11Davíð kallaði til sín prestana Sadók og Abjatar og Levítana Úríel, Asaja, Jóel, Semaja, Elíel og Ammínadab

12og gaf þeim þessi fyrirmæli: „Þið eruð ættarhöfðingjar Levítanna. Helgið ykkur nú ásamt bræðrum ykkar og flytjið örk Drottins, Guðs Ísraels, til staðarins sem ég hef búið henni.

13Vegna þess að þið voruð ekki með okkur í fyrsta skiptið hefur Drottinn, Guð okkar, steypt yfir okkur ófarnaði. Við leituðum ekki úrskurðar hans eins og okkur bar.“

14Prestarnir og Levítarnir helguðu sig nú til þess að flytja örk Drottins, Guðs Ísraels, upp eftir.

15Því næst tóku niðjar Leví örk Guðs á axlir sér með burðarstöngum hennar eins og Móse hafði gefið fyrirmæli um að boði Drottins.

16Davíð skipaði höfðingjum Levítanna að láta ættbræður þeirra, söngvarana, taka sér stöðu með hljóðfæri sín, hörpur, sítara og bjöllur, til þess að leika undir fagnaðarsöngnum.

17Þá létu þeir Heman Jóelsson og Asaf Berekíason, ættbróður þeirra, taka sér stöðu, enn fremur ættbróður þeirra, Etan Kúsajason af niðjum Merarí.

18Þeir létu einnig nokkra af bræðrum þeirra úr öðrum þjónustuflokki taka sér stöðu með þeim: Sakaría, Jaasíel, Semíramót, Jehíel, Únní, Elíab, Benaja, Maaseja, Mattitja, Elífala, Mikneja, Óbeð Edóm og Jeíel.

19Söngvararnir Heman, Asaf og Etan léku á tvö klukkuspil úr eir,

20Sakaría, Jaasíel, Semíramót, Jehíel, Únní, Elíab, Maaseja og Benaja léku á hörpur að elamítískum hætti.

21Mattitja, Elífala, Mikneja, Óbeð Edóm, Jeíel og Asasja léku á gígjur að símjónítískum hætti til að stjórna söngnum.

22Kenanja, höfðingi Levítanna, stjórnaði flutningi tónlistarinnar. Hann stjórnaði flutningnum af því að hann hafði kunnáttu til þess.

23Berekía og Elkana voru hliðverðir arkarinnar.

24Prestarnir Sebanja, Jósafat, Netaneel, Amasaí, Sakaría, Benaja og Elíeser blésu í lúðra frammi fyrir örk Guðs.

Óbeð Edóm og Jehía voru hliðverðir arkarinnar.

25Davíð, öldungar Ísraels og foringjar þúsund manna sveitanna fóru nú glaðir í bragði til þess að flytja sáttmálsörk Drottins upp eftir úr húsi Óbeðs Edóms.

26Sjö nautum og sjö hrútum var fórnað af því að Guð styrkti Levítana sem báru sáttmálsörk Drottins.

27Davíð bar yfirhöfn frá Byssos, einnig allir Levítarnir sem báru örkina, söngvararnir og Kenanja, stjórnandi söngvaranna, en Davíð bar línhökul.

28Þannig flutti allur Ísrael sáttmálsörk Drottins upp eftir með fagnaðarópum og hafurshornablæstri, með lúðrablæstri, bjölluhljómi, hörpuleik og gígjuleik.

29Þegar sáttmálsörk Drottins kom til borgar Davíðs varð Míkal, dóttur Sáls, litið út um glugga. Þegar hún sá Davíð konung hoppa og dansa frammi fyrir augliti Drottins fyrirleit hún hann í hjarta sínu.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help