Önnur Mósebók 6 - Biblían (2007)

1En Drottinn svaraði Móse: „Nú færðu að sjá hvað ég ætla að gera faraó því að neyddur af máttugri hendi lætur hann þá lausa, neyddur af máttugri hendi rekur hann þá úr landi sínu.“

Önnur frásögn af köllun Móse

2Guð ávarpaði Móse og sagði við hann: „Ég er Drottinn.

3Ég birtist Abraham, Ísak og Jakobi sem almáttugur Guð en undir nafninu Drottinn opinberaði ég mig ekki.

4Ég gerði einnig við þá þann sáttmála að gefa þeim Kanaansland, landið sem þeir dvöldust í sem aðkomumenn.

5Ég heyrði kvein Ísraelsmanna sem Egyptar gerðu að þrælum og minntist sáttmála míns.

6Segðu því við Ísraelsmenn: Ég er Drottinn. Ég ætla að leiða ykkur úr kvaðavinnunni hjá Egyptum og bjarga ykkur úr þrældómnum. Ég ætla að frelsa ykkur með útréttum armi og þungum refsidómum.

7Ég ætla að taka ykkur að mér sem þjóð og verða Guð ykkar. Þið munuð komast að raun um að ég er Drottinn, Guð ykkar, sem leiðir ykkur úr ánauð Egypta.

8Ég ætla að leiða ykkur til landsins sem ég sór að gefa Abraham, Ísak og Jakobi. Ég ætla að fá ykkur það til eignar, ég, Drottinn.“

9Móse sagði Ísraelsmönnum frá þessu en þeir hlustuðu ekki á hann af því að þeir voru kjarklausir og bugaðir af þrældómi.

10Þá ávarpaði Drottinn Móse og sagði:

11„Farðu og segðu faraó, Egyptalandskonungi, að hann eigi að sleppa Ísraelsmönnum úr landi sínu.“

12Móse talaði fyrir augliti Drottins og sagði: „Ísraelsmenn hlustuðu ekki á mig, hvers vegna ætti faraó að hlusta á mig svo málstirður sem ég er?“

13Þá talaði Drottinn við Móse og Aron og gaf þeim fyrirmæli um að fara til Ísraelsmanna og faraós, Egyptalandskonungs, til að Ísraelsmenn yrðu leiddir út úr Egyptalandi.

Ættartala Móse og Arons

14Þessir eru ættarhöfðingjar: Synir Rúbens, frumburðar Ísraels, voru Hanok, Pallú, Hesrón og Karmí; þetta eru ættir Rúbens.

15Synir Símeons voru Jemúel, Jamín, Óhad, Jakín, Sóhar og Sál sem var sonur kanverskrar konu; þetta eru ættir Símeons.

16Þetta eru nöfn sona Leví samkvæmt ættartölum þeirra: Gerson, Kahat og Merarí. Leví varð hundrað þrjátíu og sjö ára.

17Synir Gersons voru Líbní og Símeí eftir ættum þeirra.

18Synir Kahats voru Amram, Jísehar, Hebron og Ússíel. Kahat varð hundrað þrjátíu og þriggja ára.

19Synir Merarí voru Mahelí og Músí. Þetta eru ættir Leví eftir ættartölum þeirra.

20Amram tók sér Jókebed, föðursystur sína, fyrir eiginkonu. Hún ól honum Aron og Móse. Amram varð hundrað þrjátíu og sjö ára.

21Synir Jísehars voru Kóra, Nefeg og Síkrí.

22Synir Ússíels voru Mísael, Elsafan og Síkrí.

23Aron tók sér Elísebu, dóttur Ammínadabs, systur Nahsons, fyrir eiginkonu. Hún ól honum Nadab, Abíhú, Eleasar og Ítamar.

24Synir Kóra voru Assír, Elkana og Abíasaf. Þetta eru ættir Kóraíta.

25Eleasar, sonur Arons, tók sér eina af dætrum Pútíels fyrir eiginkonu. Hún ól honum Pínehas.

Þetta eru ættarhöfðingjar Levíta eftir ættum þeirra.

Aron spámaður Móse

26Það voru Aron og Móse sem Drottinn sagði við: „Leiðið Ísraelsmenn út úr Egyptalandi fylktu liði.“

27Það voru þeir sem töluðu við faraó, Egyptalandskonung, um að leiða Ísraelsmenn út úr Egyptalandi; það voru þeir Móse og Aron.

28Þegar Drottinn ávarpaði Móse í Egyptalandi

29sagði hann: „Ég er Drottinn. Segðu faraó, Egyptalandskonungi, allt sem ég segi við þig.“

30Móse svaraði frammi fyrir augliti Drottins: „Ég er maður málstirður. Hvers vegna ætti faraó að hlusta á mig?“

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help