Síðari kroníkubók 8 - Biblían (2007)

Enn af verkum Salómons

1Þegar þau tuttugu ár voru liðin sem það tók Salómon að reisa musteri Drottins og eigið hús

2víggirti hann borgirnar sem Húram hafði afhent Salómon og lét Ísraelsmenn setjast þar að.

3Því næst fór Salómon til Hama Sóba og tók hana.

4Hann víggirti einnig Tadmor í eyðimörkinni og allar birgðaborgirnar sem hann hafði reist í Hamat.

5Hann víggirti einnig Efra og Neðra Bethóron og gerði þessar borgir að virkjum með múrum, hliðum og slagbröndum.

6Salómon víggirti einnig Baalat og allar birgðaborgirnar sem hann átti og allar borgirnar fyrir hervagna sína, hesta og allt sem hann vildi reisa í Jerúsalem, í Líbanon og hvarvetna í ríki sínu.

7Salómon lagði kvaðavinnu á alla sem eftir voru af Hetítum, Amorítum, Peresítum, Hevítum og Jebúsítum og ekki voru Ísraelsmenn.

8Það voru niðjar þeirra sem enn voru eftir í landinu og Ísraelsmenn höfðu ekki eytt. Á þá lagði Salómon kvaðavinnu sem þeir hafa unnið til þessa dags.

9En Salómon gerði enga Ísraelsmenn að þrælum til að vinna fyrir sig. Þeir voru hermenn hans, embættismenn, hershöfðingjar og höfuðsmenn, vagnstjórar og foringjar yfir hervögnum hans og hervagnaliðum.

10Tvö hundruð og fimmtíu verkstjórar undir stjórn landstjóra Salómons konungs stjórnuðu verkamönnunum.

11Salómon lét dóttur faraós fara úr borg Davíðs í húsið sem hann hafði reist handa henni því að hann sagði: „Engin kona á að búa í húsi Davíðs, konungs Ísraels, því að það er heilagt þar sem örk Drottins hefur komið í það.“

12Á þeim tíma færði Salómon Drottni brennifórn á altari Drottins sem hann hafði látið reisa fyrir framan forsalinn.

13Hann færði fórnirnar eins og við átti hverju sinni, á hvíldardögum og við nýtt tungl, samkvæmt skipun Móse. Þetta gerði hann einnig á hátíðunum sem haldnar eru þrisvar á ári, hátíð hinna ósýrðu brauða, viknahátíðinni og laufskálahátíðinni.

14Í samræmi við ákvörðun Davíðs, föður síns, setti hann þjónustuflokka prestanna til þjónustu og Levítana til starfa að flytja lofgjörð og þjóna ásamt prestunum eftir því sem þurfti hvern dag. Eins setti hann hliðverðina við hvert hlið samkvæmt þjónustuflokkum þeirra því að þannig hafði guðsmaðurinn Davíð mælt fyrir.

15Ekki var vikið í neinu frá fyrirmælum konungs um prestana og Levítana né heldur um fjárhirsluna.

16Þar með var öllu verki Salómons lokið sem unnið hafði verið að, frá því að grunnur húss Drottins var lagður. Hús Drottins var fullgert.

17Þá hélt Salómon til Esjón Geber og Elat á strönd hafsins í Edómslandi.

18Húram sendi honum skip og reynda sjómenn ásamt öðrum mönnum úr þjónustu sinni. Þeir komu með mönnum Salómons til Ófír, fluttu þaðan fjögur hundruð og fimmtíu talentur gulls og færðu Salómon konungi.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help