Síraksbók 33 - Biblían (2007)

1Þann sem óttast Drottin hendir ekkert illt

nema freisting, en hann frelsast aftur.

2Hygginn maður hatar ei lögmálið

en sá sem þykist unna því líkist stormhröktu fleyi.

3Skynsamur maður treystir lögmálinu,

lögmálið bregst honum ekki fremur en heilagt hlutkesti.

4Hugsa mál þitt og á þig mun hlýtt,

nota það sem þú lærðir og svara síðan.

5Vit heimskingjans er sem vagnhjól,

hugsanir hans snúast í hring.

6Kaldhæðinn vinur er líkur fola,

hann hneggjar við sérhverjum sem situr hann.

Um mannamun

7Hví ber einn dagur af öðrum

þótt allir dagar ársins þiggi birtu af sólu?

8Viska Drottins greindi þá að

og aðgreindi árstíðir og hátíðir.

9Suma daga hóf hann upp og helgaði,

aðra valdi hann að virkum dögum.

10Eins eru allir menn af jörðu,

af jörðu var Adam skapaður.

11Af miklum vísdómi greindi Drottinn þá að

og lagði þeim ólíkar brautir.

12Suma þeirra blessaði hann og hóf hátt,

aðra helgaði hann og lét þá nálgast sig.

Enn öðrum bjó hann bölvun og smán,

steypti þeim úr stöðu sinni.

13Líkir leir í hendi leirkerasmiðs,

sem hann mótar eins og honum þóknast,

eru menn í hendi þess er skapaði þá.

Hann umbunar þeim eins og hann metur réttast.

14Illt er andstæða góðs

og dauði andstæða lífs.

Eins er syndarinn andstæða guðrækins manns.

15Þannig ber þér að líta öll verk Hins æðsta,

tvennt og tvennt, eitt er andhverfa annars.

16Sjálfur gekk ég síðastur til verka

eins og sá sem gerir eftirleit að lokinni vínberjatínslu.

17En fyrir náð Drottins miðaði mér vel,

ég fyllti vínþröngina eins og sá sem berin tíndi.

18Gefið því gaum að ég vann ekki aðeins í eigin þágu

heldur allra þeirra er leita ögunar.

19Hlýðið á mig, þér leiðtogar lýðsins,

leggið við hlustir, þér safnaðarstjórar.

Um að vera óháður öðrum mönnum

20Gef þig engum á vald meðan ævin endist,

hvorki syni né konu, bróður né vini.

Gef eigi heldur neinum eigur þínar,

svo að þig iðri þess eigi og þú biðjir um þær aftur.

21Jafnlengi og þú lifir og lífsanda dregur

skaltu engan láta hafa ráð yfir þér

22því að betra er að börn þín leiti liðsinnis þíns

en að þú þurfir að treysta á örlæti þeirra.

23Haltu hlut þínum í hverju verki

og lát ekki flekk á heiður þinn falla.

24Á hinsta degi ævi þinnar,

er að dauða dregur, skaltu útdeila arfi.

Um meðferð þræla

25Asna hæfir fóður, barefli og byrði

en þrælnum brauð, agi og erfiði.

26Haltu þræli að verki og þú munt hljóta hvíld,

sitji hann auðum höndum mun hann heimta frelsi.

27Helsi og svipa beygja hálsinn,

illum þræli hæfir hýðing og kvöl.

28Haltu honum að vinnu svo að hann sé ekki iðjulaus

29því að margt illt kennir iðjuleysið.

30Fáðu honum verk, það hæfir honum,

óhlýðnist hann skaltu þyngja fjötur hans.

En gakk ei of hart að neinum manni

og ger ei neitt sem ekki er rétt.

31Eigir þú þræl, þá haf hann sem jafningja

enda aflaðir þú hans með blóði.

Eigir þú þræl, ver við hann sem bróður

því að þú þarfnast hans eins og eigin lífs.

32Ef þú leikur hann hart og hann flýr á brott,

33hvert ferðu þá að leita hans?

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help