Síðari Samúelsbók 19 - Biblían (2007)

Jóab ávítar Davíð

1Konungi var mjög brugðið, hann gekk upp í herbergið yfir borgarhliðinu og brast í grát. Á meðan hann gekk um gólf sagði hann: „Sonur minn, Absalon. Sonur minn, sonur minn, Absalon. Ég hefði betur dáið í þinn stað. Sonur minn, Absalon, sonur minn!“

2Jóab var þá tilkynnt: „Konungurinn grætur og syrgir Absalon.“

3Sigurinn varð öllum hernum harmsefni þennan dag þegar honum bárust tíðindin: „Konungurinn syrgir son sinn.“

4Þennan dag laumaðist herinn inn í borgina eins og her sem hefur flúið með skömm úr orrustu.

5En konungur huldi andlit sitt og kveinaði hástöfum: „Sonur minn, Absalon. Absalon, sonur minn, sonur minn.“

6Þá gekk Jóab inn í húsið til konungs og sagði: „Í dag hefur þú smánað alla þjóna þína sem hafa bjargað lífi þínu, lífi sona þinna og dætra, lífi kvenna þinna og hjákvenna,

7með því að sýna hatursmönnum þínum vináttu en vinum þínum fjandskap. Í dag hefur þú gert okkur ljóst að hershöfðingjar þínir og hermenn eru þér einskis virði. Í dag hef ég komist að raun um að þú vildir helst að Absalon væri á lífi en við allir dauðir.

8Rístu nú á fætur, farðu út og segðu nokkur viðurkenningarorð við menn þína. Ég sver við Drottin að enginn verður eftir hjá þér næstu nótt ef þú ferð ekki út til þeirra. Það verður meiri ógæfa en þú hefur orðið fyrir frá barnæsku og allt til þessa dags.“

9Þá reis konungur á fætur og settist í borgarhliðið. Og þegar hernum var tilkynnt að konungurinn sæti í borgarhliðinu gekk allur herinn fyrir konung.

Davíð snýr aftur

Eftir að Ísraelsmenn voru flúnir til tjalda sinna

10tók fólk í öllum ættbálkum Ísraels að kvarta og sagði: „Konungurinn bjargaði okkur úr greipum fjandmanna okkar og hann bjargaði okkur úr greipum Filistea. Nú hefur hann sjálfur þurft að flýja land undan Absalon

11en Absalon, sem við smurðum til konungs yfir okkur, er fallinn í stríðinu. Hvers vegna hikið þið þá við að sækja konunginn aftur nú þegar?“

12Konungi barst nú orðrómur um þessa afstöðu Ísraelsmanna. Þá sendi Davíð konungur boð til prestanna Sadóks og Abjatars: „Segið við öldunga Júda: Ætlið þið að verða síðastir til að flytja konunginn heim aftur?

13Þið eruð ættmenn mínir, þið eruð bein mín og hold. Ætlið þið að verða síðastir til að sækja konunginn?

14Og þið skuluð segja við Amasa: Ert þú ekki hold mitt og bein? Guð láti mig gjalda þess nú og síðar ef þú verður ekki ævinlega hershöfðingi hjá mér í stað Jóabs.“

15Þannig vann Davíð hjörtu allra Júdamanna svo að þeir studdu hann allir sem einn og sendu konungi þessi boð: „Snúðu heim aftur ásamt öllum þjónum þínum.“

Davíð sættist við Símeí og Mefíbóset

16Konungur hélt þá heim á leið. Þegar hann kom að Jórdan voru Júdamenn komnir til Gilgal til móts við konung til að fylgja honum yfir Jórdan.

17Símeí Gerason, sem var af ættbálki Benjamíns frá Bahúrím, flýtti sér ásamt Júdamönnum niður eftir til móts við Davíð konung.

18Þúsund manns af ættbálki Benjamíns voru með honum. Síba, þjónn fjölskyldu Sáls, var ásamt fimmtán sonum sínum og tuttugu þjónum kominn að Jórdan á undan konungi.

19Þeir höfðu farið yfir á vaðinu til að flytja fjölskyldu konungs yfir og uppfylla óskir hans.

Þegar konungur var að leggja af stað yfir Jórdan varpaði Símeí Gerason sér niður frammi fyrir honum

20og sagði við hann: „Herra minn, sakfelldu mig ekki vegna afbrots míns. Gleymdu því sem ég, þræll þinn, braut af mér daginn sem þú, herra minn og konungur, fórst burt úr Jerúsalem. Erfðu það ekki við mig.

21Ég, sem er þræll þinn, viðurkenni að hafa brotið af mér. En ég er sá af ætt Jósefs sem kemur fyrstur hingað niður eftir til móts við þig, herra minn og konungur.“

22Þá spurði Abísaí Serújuson: „Á ekki að drepa Símeí fyrir að formæla Drottins smurða?“

23En Davíð sagði: „Gætið að sjálfum ykkur, Serújusynir. Ætlið þið nú að gerast andstæðingar mínir? Verður einhver líflátinn í Ísrael í dag? Svo mikið veit ég að það er ég sem er konungur í Ísrael.“

24Því næst sagði konungur við Símeí: „Þú skalt ekki deyja.“ Síðan staðfesti konungur þetta með eiði.

25Mefíbóset, sonarsonur Sáls, kom einnig niður eftir til móts við konung. Frá þeim degi, er konungur fór og þangað til hann kom aftur heill á húfi, hafði Mefíbóset hvorki þrifið fætur sína né skegg, né heldur þvegið föt sín.

26Þegar hann kom frá Jerúsalem á móti konungi spurði konungur hann: „Hvers vegna komstu ekki með mér, Mefíbóset?“

27Hann svaraði: „Herra minn og konungur, þjónn minn sveik mig. Ég, þræll þinn, sagði við hann: Leggið á ösnu mína. Ég ætla að ríða héðan með konungi því að ég er lamaður.

28Þjónn minn hefur rægt mig, þræl þinn, við þig, herra minn og konungur. Þú, herra minn og konungur, ert eins og engill Guðs. Gerðu því það sem þér sýnist.

29Þó að öll fjölskylda föður míns hafi ekki átt annað skilið af þinni hendi en dauða, herra minn og konungur, bauðstu mér, þræli þínum, samt sæti meðal þeirra sem setjast til borðs með þér. Hvaða rétt hef ég til að krefjast einhvers frekar af þér, konungur?“

30Konungur svaraði: „Hvers vegna ertu að orðlengja þetta? Ég er búinn að taka ákvörðun. Þið Síba skuluð skipta landareigninni.“

31Þá sagði Mefíbóset við konunginn: „Hann má fá allt landið úr því að þú, herra minn og konungur, ert kominn aftur heim heill á húfi.“

32Barsillaí frá Gíleað hafði komið niður eftir frá Rógelím til þess að fylgja konungi yfir Jórdan og kveðja hann.

33Barsillaí var orðinn háaldraður, áttatíu ára, og hafði séð konungi fyrir vistum meðan hann var í Mahanaím enda var hann stórauðugur maður.

34Konungur sagði nú við Barsillaí: „Komdu með mér. Ég skal sjá fyrir þér heima hjá mér í Jerúsalem.“

35Barsillaí svaraði konungi: „Ætli ég eigi svo mörg ár eftir ólifuð, konungur, að það taki því fyrir mig að fara upp til Jerúsalem með þér?

36Nú stend ég á áttræðu. Get ég þá enn greint á milli góðs og ills? Getur þræll þinn enn fundið bragð að því sem hann etur og drekkur? Get ég enn heyrt raddir söngvara og söngkvenna? Hvers vegna ætti ég, þræll þinn, að íþyngja herra mínum og konungi?

37Ég, þræll þinn, ætla ekki að fylgja þér, konungur, lengra en yfir Jórdan. Hvers vegna ætlar þú að launa mér það svo ríkulega?

38Leyfðu mér að fara aftur heim svo að ég geti dáið í heimaborg minni nærri gröf föður míns og móður. En hér er Kímham, þræll þinn. Hann getur farið með þér, herra minn og konungur. Fyrir hann geturðu gert það sem þér sýnist.“

39Konungur svaraði: „Kímham kemur með mér og ég mun gera það fyrir hann sem þú vilt. Ég skal gera hvað sem þú biður mig um.“

40Því næst fór allur herinn yfir Jórdan. Þegar konungurinn var kominn yfir Jórdan kyssti hann Barsillaí í kveðjuskyni og Barsillaí fór til síns heima.

41Konungurinn hélt áfram til Gilgal og Kímham með honum.

Allur her Júda og hálfur her Ísraels hafði fylgt konungi yfir.

42Komu þá allir Ísraelsmenn til konungs og sögðu við hann: „Hvers vegna hafa bræður okkar, Júdamenn, fengið að ræna þér frá okkur og fara með þig og fjölskyldu þína ásamt lífverðinum yfir Jórdan?“

43Júdamenn svöruðu Ísraelsmönnum og sögðu: „Það var vegna þess að konungurinn er nákominn okkur. Hvers vegna reiðist þið þessu? Höfum við neytt einhvers á kostnað konungs eða höfum við numið hann á brott eins og ránsfeng?“

44Ísraelsmenn svöruðu Júdamönnum: „Við eigum tíu sinnum meira í konungi. Auk þess erum við frumburðirnir en þið ekki. Hvers vegna hafið þið lítillækkað okkur? Urðum við ekki fyrri til að tala um að flytja konung aftur heim?“ Svar Júdamanna var enn harðorðara en ummæli Ísraelsmanna.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help