Sálmarnir 39 - Biblían (2007)

1Til söngstjórans, eftir Jedútún. Davíðssálmur.

2Ég vil hafa gát á breytni minni

svo að ég syndgi ekki með orðum mínum.

Ég vil hafa taumhald á tungu minni

þegar guðleysingjar eru í nánd við mig.

3Ég var hljóður og þagði,

þögull, en kvöl mín ýfðist.

4Hjartað brann í brjósti mér,

ég stundi og eldurinn logaði upp.

Þá tók ég til orða og mælti:

5„Lát mig, Drottinn, sjá afdrif mín

og hvað mér er útmælt af dögum.

6Sjá, örfáar þverhendur hefur þú gert daga mína

og ævi mín er sem ekkert fyrir þér.

Andgustur einn eru allir menn. (Sela)

7Sem tómur skuggi gengur maðurinn um,

gerir háreysti um hégómann einan,

hann safnar í hrúgur en veit eigi hver þær hlýtur.“

8Hvers vona ég þá, Drottinn?

Von mín er öll á þér.

9Frelsa mig frá öllum syndum mínum,

lát mig eigi verða heimskingjum að spotti.

10Ég þegi, lýk ekki upp munni mínum

því að þetta er verk þitt.

11Léttu af mér bölinu sem þú lagðir á mig,

ég ferst af höggum handar þinnar.

12Þegar þú hirtir mann fyrir misgjörð hans

lætur þú yndisleik hans eyðast sem mölur væri.

Andgustur einn eru allir menn. (Sela)

13Heyr bæn mína, Drottinn,

legg eyru við ákalli mínu,

ver eigi hljóður þegar ég græt

því að ég er aðkomumaður hjá þér,

útlendingur eins og allir feður mínir.

14Líttu af mér svo að hýrni yfir mér

áður en ég fer burt og er eigi framar til.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help