Fyrri konungabók 3 - Biblían (2007)

Salómon kvænist

1Salómon mægðist við faraó Egyptalandskonung. Hann kvæntist dóttur faraós og fór með hana til borgar Davíðs. Þar bjó hún uns hann hafði lokið við að byggja sér hús og Drottni musteri og reisa múr umhverfis Jerúsalem.

2Þá færði almenningur sláturfórnir á fórnarhæðunum því að nafni Drottins hafði enn ekki verið reist hús.

3Salómon elskaði Drottin og sýndi það með því að breyta samkvæmt boðum Davíðs föður síns. Samt færði hann sláturfórnir og reykelsisfórnir á fórnarhæðunum.

4Fór konungur til Gíbeon til þess að færa sláturfórn en þar var helsta fórnarhæðin. Þar fórnaði Salómon þúsund brennifórnum á altarinu.

Draumur Salómons

5Nótt eina í Gíbeon birtist Drottinn Salómon í draumi. Guð sagði: „Segðu hvað þú vilt að ég gefi þér.“

6Salómon svaraði: „Þú hefur sýnt þjóni þínum, Davíð föður mínum, mikla góðvild. Enda lifði hann fyrir augliti þínu í trúmennsku, réttlæti og hjartans einlægni við þig. Þú hefur ekki látið af þessari miklu góðvild við hann heldur gefið honum son sem nú situr í hásæti hans.

7Drottinn minn og Guð, þú hefur gert þjón þinn að konungi í stað Davíðs, föður míns. En ég er enn ungur og óreyndur.

8Ég, þjónn þinn, er á meðal þinnar útvöldu þjóðar, mikillar þjóðar, sem hvorki verður talin né tölu á komið.

9Gefðu því þjóni þínum vilja til að hlýða þér svo að ég geti stjórnað þjóð þinni og greint gott frá illu. Hver getur stjórnað þessari miklu þjóð þinni?“

10Drottni féll vel að Salómon bað þessarar bónar.

11Þá sagði Guð við hann: „Af því að þú baðst um þetta, en baðst ekki um langlífi þér til handa eða auðlegð eða líf óvina þinna, heldur baðst um vitsmuni til að skynja hvað rétt er í málum manna, þá vil ég veita þér bæn þína.

12Ég gef þér hyggið og skynugt hjarta svo að þinn líki hefur ekki verið á undan þér og mun ekki koma eftir þig.

13Og líka gef ég þér það sem þú baðst ekki um, bæði auðlegð og heiður, svo að þinn líki skal eigi verða meðal konunganna alla þína daga.

14Og ef þú gengur á mínum vegum og varðveitir boðorð mín og skipanir, eins og Davíð, faðir þinn, gerði, þá mun ég gefa þér langa lífdaga.“

15Salómon vaknaði og var ljóst að þetta hafði verið draumur. Þegar hann kom til Jerúsalem gekk hann fram fyrir sáttmálsörk Drottins og bar fram brennifórnir og heillafórnir. Síðan hélt hann öllum þjónum sínum veislu.

Dómur Salómons

16Einu sinni komu tvær portkonur og gengu fyrir konung.

17Önnur þeirra sagði: „Með leyfi, herra minn. Þessi kona og ég búum í sama húsi og ég fæddi þar barn í viðurvist hennar.

18Á þriðja degi frá því að ég fæddi eignaðist þessi kona líka barn. Við vorum þar saman, enginn var með okkur í húsinu, við vorum þar tvær einar.

19En sonur þessarar konu dó um nóttina af því að hún hafði lagst ofan á hann.

20Hún reis þá upp um miðja nótt, tók son minn frá mér á meðan ég, ambátt þín, svaf og lagði hann við brjóst sér en dáinn son sinn lagði hún við brjóst mér.

21Ég fór á fætur um morguninn til þess að gefa syni mínum brjóst en þá sá ég að hann var dáinn. En þegar ég skoðaði hann nánar í dagsbirtunni sá ég að þetta var ekki sonur minn sem ég hafði fætt.“

22Hin konan sagði: „Nei, það er sonur minn sem er lifandi en þinn sonur er dáinn.“ „Nei, það er sonur þinn sem er dáinn, sonur minn er lifandi,“ svaraði sú fyrri. Þannig rifust þær frammi fyrir konungi.

23Þá sagði konungur: „Önnur ykkar segir: Það er sonur minn sem er á lífi en sonur þinn sem er dáinn. En hin segir: Þinn sonur er dáinn en minn er á lífi.“

24Og hann hélt áfram: „Færið mér sverð.“ Þegar sverð hafði verið sótt

25sagði konungur: „Höggvið barnið, sem lifir, í tvennt og fáið sinn helminginn hvorri.“

26Þá sagði konan, sem átti lifandi barnið, við konunginn því að móðurástin brann í brjósti hennar: „Æ, herra minn! Fáðu henni barnið sem lifir, láttu ekki deyða það.“ En hin sagði: „Það er best að hvorki ég né þú fáir það. Höggvið barnið í tvennt.“

27Konungur svaraði og sagði: „Fáið hinni konunni barnið sem lifir og deyðið það ekki því að hún er móðir þess.“

28Er allir Ísraelsmenn heyrðu um dóminn, sem konungurinn hafði kveðið upp, fylltust þeir lotningu fyrir honum því að þeir skildu að guðleg viska bjó í brjósti hans þegar hann kvað upp dóma.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help