1Um þessar mundir kvöddu Filistear út her sinn til að ráðast á Ísrael. Þá sagði Akís við Davíð: „Þú veist vel að þú og menn þínir verðið að fara með mér í hernaðinn.“
2Davíð svaraði Akís: „Þá muntu komast að raun um hvað þjónn þinn gerir.“ Þá sagði Akís: „Gott og vel. Ég geri þig að sérlegum lífverði mínum héðan í frá.“
Sál og miðillinn í Endór3Samúel var dáinn og allur Ísrael hafði grátið hann. Hann var grafinn í heimaborg sinni, Rama. En Sál hafði rekið alla miðla og spásagnarmenn úr landinu.
4Filistear söfnuðust nú saman og komu til Súnem og settu þar herbúðir en Sál kvaddi út allan Ísrael og setti herbúðir sínar í Gilbóa.
5Þegar Sál sá herbúðir Filistea varð hann svo skelfdur að hann missti móðinn.
6Síðan leitaði Sál úrskurðar Drottins sem gaf honum ekkert svar, hvorki í draumum, hlutkesti né fyrir munn spámanna.
7Þá skipaði Sál þjónum sínum: „Finnið fyrir mig særingakonu svo að ég geti farið til hennar og leitað úrskurðar hennar.“ Þjónar hans svöruðu honum: „Í Endór er særingakona.“
8Sál dulbjó sig til að þekkjast ekki og fór ásamt tveimur fylgdarmönnum til konunnar um nótt. Hann sagði: „Láttu anda flytja mér spámæli. Vektu upp þann sem ég nefni.“
9Konan svaraði: „Þú hlýtur að vita hvað Sál hefur gert. Hann hefur upprætt miðla og spásagnamenn úr landinu. Hvers vegna ertu að leggja gildru fyrir mig? Ætlarðu að drepa mig?“
10Þá sór Sál henni eið við Drottin og sagði: „Svo sannarlega sem Drottinn lifir mun þér ekki verða hegnt fyrir þetta.“
11Þá spurði konan: „Hvern á ég að vekja upp fyrir þig?“ Hann svaraði: „Vektu Samúel upp.“
12Þegar konan sá Samúel hljóðaði hún hástöfum og sagði við Sál: „Hvers vegna hefur þú blekkt mig? Þú ert Sál.“
13Konungurinn sagði þá við hana: „Vertu ekki hrædd. Hvað sérðu?“ Konan svaraði: „Ég sé guðlega veru koma upp úr jörðinni.“
14Hann spurði hana: „Hvernig lítur hún út?“ Hún svaraði: „Gamall maður, sveipaður skikkju, stígur upp.“ Þá skildi Sál að það var Samúel, hneigði andlit sitt til jarðar og varpaði sér niður.
15Þá sagði Samúel við Sál: „Hvers vegna hefurðu raskað ró minni og látið vekja mig upp?“ Sál svaraði: „Ég á nú í miklum þrengingum. Filistear ráðast á mig og Guð hefur yfirgefið mig. Hann svarar mér ekki lengur, hvorki fyrir munn spámanna né í draumum. Þess vegna hef ég kallað þig fram til þess að þú segir mér hvað ég á að gera.“
16Þá spurði Samúel: „Hvers vegna spyrðu mig? Drottinn hefur yfirgefið þig og er orðinn andstæðingur þinn.
17Drottinn hefur gert þér það sem hann boðaði af munni mínum. Drottinn hefur rifið konungdóminn úr hendi þér og fengið hann öðrum, hann hefur fengið hann Davíð.
18Sakir þess að þú óhlýðnaðist Drottni og lést Amalek ekki kenna á heift hans, eins og hann bauð, gerir Drottinn þér þetta í dag.
19Hann mun einnig selja Ísrael og þig Filisteum á vald. Á morgun verðið þið synir þínir hjá mér en Drottinn mun selja Ísraelsher í hendur Filisteum.“
20Sál féll jafnskjótt endilangur til jarðar því að hann varð skelfingu lostinn við orð Samúels. Auk þess var hann máttvana því að hann hafði ekki neytt matar í heilan sólarhring.
21Þegar konan kom til Sáls og sá hversu óttasleginn hann var sagði hún: „Ambátt þín hlýddi skipun þinni. Ég hætti lífi mínu með því að gera eins og þú baðst mig.
22En nú skalt þú gera það sem ambátt þín fer fram á. Ég ætla að færa þér matarbita svo að þú fáir að borða og þér aukist þróttur áður en þú leggur af stað.“
23En hann neitaði og sagði: „Ég vil ekkert borða.“ Þegar bæði þjónar hans og konan lögðu að honum lét hann loks undan. Hann stóð upp og settist á rúmið.
24Konan átti alikálf heima hjá sér. Hún slátraði honum í skyndi, sótti mjöl, hnoðaði deig og bakaði ósýrt brauð.
25Þetta bar hún síðan fyrir Sál og menn hans og þeir neyttu þess. Um nóttina lögðu þeir af stað og fóru leiðar sinnar.
Who We AreWhat We EelieveWhat We Do
2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.