Harmljóðin 2 - Biblían (2007)

Drottinn hegnir Jerúsalem

1Hvílíkum sorta hefur Drottinn í reiði sinni

hulið dótturina Síon.

Frá himni varpaði hann til jarðar

vegsemd Ísraels

og minntist ekki fótskarar sinnar

á degi reiði sinnar.

2Vægðarlaust eyddi Drottinn

öllum dvalarstöðum Jakobs,

reif niður í bræði sinni

vígi Júdadóttur

og jafnaði þau við jörðu.

Hann svipti ríkið sæmd,

og ráðamenn þess.

3Í brennandi reiði hjó hann af

öll horn Ísraels,

dró að sér hægri höndina

er óvinirnir nálguðust

og brann í Jakobi eins og bál

sem eyðir öllu umhverfis.

4Hann spennti boga sinn eins og óvinur,

með styrkri hægri hendi,

og drap eins og fjandmaður

allt sem auganu var yndi

í tjaldi dótturinnar Síonar.

Hann úthellti heift sinni eins og eldi.

5Drottinn kom fram sem óvinur,

eyddi Ísrael,

lagði hallir hans í rúst

og braut niður virki hans.

Hryggð og harmi

olli hann Júdadóttur.

6Hann gerði tjaldbúð sína að moldarflagi,

umturnaði samkomustað sínum.

Drottinn lét hvíldardaga og hátíðir

gleymast í Síon

og útskúfaði í ákafri reiði sinni

konungi og prestum.

7Drottinn hefur hafnað altari sínu,

afneitað helgidómi sínum,

ofurselt í óvina hendur

hallarmúra hennar.

Þeir létu óp glymja í musteri Drottins

eins og á hátíðardegi.

8Drottinn hafði ásett sér að eyða

múr dótturinnar Síonar.

Hann þandi mælisnúru,

aftraði ekki hendi sinni frá því að eyða,

sló varnarvirki og múr harmi,

saman örmagnast þau.

9Hlið hennar eru sokkin í jörðu,

hann ónýtti og braut slagbranda hennar.

Konungur hennar og ráðamenn eru meðal heiðingjanna,

án leiðsagnar,

og spámenn hennar fá engar

vitranir frá Drottni.

10Öldungar dótturinnar Síonar

sitja þöglir á jörðinni.

Þeir hafa ausið mold yfir höfuð sín,

og gyrt sig hærusekk.

Meyjar Jerúsalem

hneigðu höfuð að jörðu.

11Augu mín daprast af gráti,

ég ólga hið innra

og galli mínu er úthellt á jörðina

sökum tortímingar dótturinnar, þjóðar minnar,

börn og brjóstmylkingar hníga magnþrota niður

á strætum borgarinnar.

12Þau segja við mæður sínar:

„Hvar er korn og vín?“

þar sem þau hníga máttvana niður eins og helsárir menn

á strætum borgarinnar.

Þau gefa upp öndina

í faðmi mæðra sinna.

13Hvernig get ég hughreyst þig, við hvað líkt þér,

dóttirin Jerúsalem?

Hverju á ég að jafna við þig til að hugga þig,

mærin Síonardóttir?

Sár þitt er stórt eins og hafið,

hver gæti læknað þig?

14Sýnir spámanna þinna um þig

voru tál og blekking.

Þeir afhjúpuðu ekki misgjörð þína

til þess að snúa við högum þínum

heldur birtu þér spár

sem voru tál og ginningar.

15Allir sem fram hjá fara

skella saman lófum,

fussa og hrista höfuðið

yfir dótturinni Jerúsalem:

„Er þetta borgin, hin alfagra,

yndi gervallrar jarðar?“

16Allir óvinir þínir

glenna upp ginið gegn þér,

fussa og gnísta tönnum

og segja: „Vér höfum afmáð hana!

Þetta er dagurinn langþráði,

vér lifðum það að sjá hann!“

17Drottinn hefur gert það sem hann ásetti sér,

látið það rætast

sem hann varaði við forðum daga.

Vægðarlaust hefur hann rifið niður,

látið óvinina hlakka yfir þér

og hafið horn fjandmanna þinna.

18Hrópa hátt til Drottins,

þú mærin, dóttir Síonar.

Lát tárin renna eins og læk

dag og nótt,

unn þér engrar hvíldar,

lát auga þitt ekki hvílast.

19Rís á fætur! Kveina um nætur

við upphaf hverrar vöku.

Úthell hjarta þínu eins og vatni

frammi fyrir augliti Drottins,

fórna höndum til hans

fyrir lífi barna þinna

sem hníga niður magnþrota af hungri

á öllum gatnamótum.

20Sjá, Drottinn, og hygg að

hvern þú hefur leikið þannig.

Eiga konur að eta afkvæmi sín,

börnin sem þær bera á örmum?

Á að myrða presta og spámenn

í helgidómi Drottins?

21Ungir og aldnir

liggja vegnir á strætunum,

sveinar og öldungar.

Meyjar mínar og æskumenn

féllu fyrir sverði.

Þú réðst þeim bana á reiðidegi þínum,

slátraðir vægðarlaust.

22Eins og þú kvaddir til hátíða

stefndir þú ógnum að mér hvaðanæva.

Enginn komst undan og lifði af

á reiðidegi Drottins.

Þá sem ég bar á örmum og ól önn fyrir

hefur óvinur minn afmáð.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help