Jeremía 2 - Biblían (2007)

Ádeiluræður gegn Júda og JerúsalemÓtrú þjóð

1Orð Drottins kom til mín:

2Far og hrópa til Jerúsalembúa:

Svo segir Drottinn:

Ég minnist enn æskutryggðar þinnar,

kærleika þíns er þú sem brúður

fylgdir mér í eyðimörkinni,

landi sem enginn getur ræktað.

3Ísrael var helgaður Drottni,

frumgróði uppskeru hans.

Allir sem neyttu einhvers af honum urðu sekir,

ógæfa kom yfir þá, segir Drottinn.

4Hlýðið á orð Drottins, þér sem eruð af ætt Jakobs

og allir ættbálkar Ísraels!

5Svo segir Drottinn:

Hvaða rangindi fundu feður yðar hjá mér,

fyrst þeir hurfu frá mér

og eltu fánýt goð

og urðu því sjálfir fánýtir?

6Þeir spurðu ekki: Hvar er Drottinn

sem leiddi oss frá Egyptalandi

og vísaði oss veg í eyðimörkinni,

um þurrt og sprungið land,

skrælnað og niðdimmt,

land sem enginn fer um

og enginn maður byggir?

7Ég leiddi yður inn í gjöfult land

svo að þér gætuð notið ávaxta þess og gæða.

En þegar þér komuð inn í land mitt

saurguðuð þér það

og gerðuð erfðaland mitt að viðurstyggð.

8Prestarnir spurðu ekki: „Hvar er Drottinn?“

Þeir sem gættu laganna þekktu mig ekki,

hirðarnir sviku mig,

spámennirnir spáðu í nafni Baals

og eltu fánýt goð.

9Þess vegna hlýt ég að ákæra yður, segir Drottinn

og ég hlýt að ákæra barnabörn yðar.

10Farið til eyja Kitta og litist um

eða sendið til Kedars og spyrjist rækilega fyrir,

gangið úr skugga um

hvort annað eins hafi nokkru sinni átt sér stað.

11Hefur nokkur þjóð skipt um guði

þótt þeir væru engir guðir?

En þjóð mín hefur látið vegsemd sína

fyrir það sem ekkert er.

12Hryllið yður, himnar, titrið og nötrið, segir Drottinn,

13því að þjóð mín hefur gert tvennt illt:

Hún hefur yfirgefið mig,

uppsprettu lifandi vatns,

og grafið sér brunna,

sprungna brunna sem ekki halda vatni.

14Er Ísrael ánauðugur?

Er hann þrælborinn í húsi eiganda síns?

Hvers vegna hefur hann orðið bráð

15sem ljón grenjuðu yfir og öskruðu gegn?

Land hans var lagt í eyði,

borgir hans brenndar og yfirgefnar.

16Jafnvel menn frá Nóf og Takpanes

munu raka á þér hvirfilinn.

17Hefurðu ekki bakað þér þetta allt

með því að yfirgefa Drottin, Guð þinn,

er hann leiddi þig á veginum?

18Hvaða ávinning hefurðu af því

að fara til Egyptalands og drekka vatn úr Níl?

Hvað hefurðu upp úr því

að fara til Assýríu og drekka vatn úr Efrat?

19Illska þín mun aga þig

og fráhvarf þitt refsa þér.

Játa og ger þér ljóst

að þú líður böl og kvelst

af því að þú sveikst Drottin, Guð þinn,

og óttaðist mig ekki, segir Drottinn, Guð hersveitanna.

Hjáguðadýrkun

20Fyrir löngu braust þú af þér okið

og sleist af þér fjötrana.

Þú sagðir: „Ég vil ekki vera þræll.“

En á hverjum háum hól, undir hverju grænu tré,

lagðist þú og hóraðist.

21Þegar ég gróðursetti þig

varstu gæðavínviður,

hver græðlingur var af úrvalskyni.

Hvernig gastu breyst í illgresi, úrkynjaðan vínvið?

22Þótt þú þvægir þér með lút

og sparaðir ekki sápuna

verður synd þín óafmáanlegur blettur fyrir augum mér,

segir Drottinn Guð.

23Hvernig getur þú sagt: „Ég hef ekki saurgað mig,

ég hef ekki elt Baalana.“

Hyggðu að hegðun þinni í dalnum,

viðurkenndu hvað þú hefur gert.

Þú ert léttfætt úlfaldahryssa sem rásar um,

24stekkur síðan út í eyðimörkina

og frýsar af frygð.

Hver getur hamið losta hennar?

Þeir sem sækjast eftir henni þurfa ekki að þreyta sig,

þeir ganga að henni vísri á gangmálum.

25Hlífðu fæti þínum svo að þú gangir ekki af þér skóinn,

hlífðu kverkunum við þorsta.

En þú segir: „Nei, það er til einskis.

Ég laðast að þeim sem eru framandi og fylgi þeim.“

26Eins og þjófur skammast sín þegar hann er staðinn að verki

hljóta þeir sem eru af ætt Ísraels að skammast sín,

þeir, konungar þeirra og embættismenn,

prestar þeirra og spámenn.

27Þeir segja við trédrumb: „Þú ert faðir minn,“

og við steininn: „Þú hefur fætt mig.“

Þeir snúa við mér baki,

ekki andlitinu.

En þegar þeir eru í nauðum staddir segja þeir:

„Rís upp og hjálpa oss.“

28Hvar eru guðir þínir sem þú sjálfur hefur gert þér?

Þeir skulu rísa upp þegar þú ert í nauðum staddur

og hjálpa þér ef þeir geta.

Því að guðir þínir, Júda,

eru jafnmargir og borgir þínar.

Verðskulduð refsing

29Hvers vegna ákærið þér mig?

Þér hafið allir brugðist mér, segir Drottinn.

30Til einskis hirti ég syni yðar, þeir létu sér ekki segjast.

Eins og glefsandi ljón tortímdu sverð yðar spámönnunum.

31Þér sem nú lifið, gefið gaum að orði Drottins:

Hef ég verið eyðimörk fyrir Ísrael eða niðdimmt land?

Hvers vegna segir þjóð mín:

„Vér förum þangað sem oss sýnist,

vér snúum ekki aftur til þín.“

32Mun mær gleyma skarti sínu,

brúður belti sínu?

En þjóð mín hefur gleymt mér fyrir óralöngu.

33Það vefst ekki fyrir þér

að finna leið til elskhuga þíns.

Þú hefur gert þér illvirkin töm.

34Á klæðafaldi þínum

má jafnvel finna blóð úr fátæklingum,

saklausum mönnum sem þú stóðst þó ekki að innbroti.

Þrátt fyrir allt þetta

35segir þú: „Ég er saklaus.

Reiði hans gegn mér hefur sefast.“

En ég dreg þig fyrir rétt

vegna þess að þú segir: „Ég hef ekki syndgað.“

36Hversu auðvelt áttu með

að velja nýja leið?

En þú verður fyrir vonbrigðum með Egyptaland

eins og Assýría olli þér vonbrigðum.

37Þaðan verður þú einnig að ganga

með hendur á höfði

því að Drottinn hefur hafnað þeim sem þú treystir,

hjálp þeirra mun reynast þér fánýt.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help