Fyrri konungabók 1 - Biblían (2007)

Átök um konungdæmið

1Davíð konungur gerðist nú gamall og aldurhniginn. Hann hélt ekki lengur á sér hita þótt vafinn væri klæðum.

2Þjónar hans sögðu því við hann: „Það ætti að leita að yngismey handa konunginum, herra okkar, sem gæti þjónað honum og hlynnt að honum. Sofi hún í faðmi hans mun konungurinn, herra okkar, halda á sér hita.“

3Þeir leituðu síðan að fríðri stúlku um allt Ísraelsríki, fundu loks Abísag frá Súnem og færðu konungi hana.

4Stúlkan var forkunnarfögur. Hún hlúði að konungi og þjónaði honum en hann kenndi hennar ekki.

5Adónía, sonur Haggítar, hreykti sér og gerði heyrinkunnugt: „Ég mun taka við konungdómi.“ Hann fékk sér vagn og hesta og fimmtíu manna lífvarðarsveit sem hljóp fyrir honum.

6Faðir hans hafði aldrei atyrt hann og spurt: „Hvers vegna hagarðu þér svona?“ Adónía var glæsimenni og næstur Absalon að aldri.

7Hann ráðgaðist við Jóab Serújuson og Abjatar prest og studdu þeir Adónía.

8En Sadók prestur, Benaja Jójadason, Natan spámaður ásamt Símeí og Reí og úrvalslið Davíðs fylgdu Adónía ekki að málum.

9Adónía lét færa sauði, naut og alikálfa til sláturfórnar við Sóheletstein sem er hjá Rógellind. Bauð hann öllum bræðrum sínum, sonum konungsins, og öllum Júdamönnum í þjónustu konungs til fórnarveislunnar.

10En hann bauð hvorki Natan spámanni, Benaja, úrvalsliðinu né Salómon, bróður sínum.

11Þá sagði Natan við Batsebu, móður Salómons: „Hefur þú ekki frétt að Adónía, sonur Haggítar, er orðinn konungur án vitundar Davíðs, herra okkar?

12Ég skal gefa þér ráð til þess að bjarga lífi þínu og Salómons, sonar þíns.

13Farðu til fundar við Davíð konung og segðu við hann: Herra minn og konungur. Þú hefur svarið mér, ambátt þinni, þennan eið: Salómon, sonur þinn, skal verða konungur eftir mig og hann skal sitja í hásæti mínu. Hvers vegna er Adónía þá orðinn konungur?

14Á meðan þú ert enn á tali við konunginn kem ég á eftir þér og staðfesti orð þín.“

15Batseba fór síðan til konungs í einkaherbergi hans. Hann var orðinn háaldraður og Abísag frá Súnem þjónaði honum.

16Batseba hneigði sig og varpaði sér niður frammi fyrir konungi. „Hvað vilt þú?“ spurði hann.

17Hún svaraði: „Herra, þú hefur svarið mér, ambátt þinni, þennan eið við Drottin, Guð þinn: Salómon, sonur þinn, skal verða konungur eftir mig og hann skal sitja í hásæti mínu.

18En nú er Adónía orðinn konungur án vitundar þinnar.

19Hann hefur fært fjölda nauta, alikálfa og fjár að sláturfórn og boðið öllum sonum konungs og prestinum Abjatar ásamt Jóab hershöfðingja. En Salómon, þjóni þínum, hefur hann ekki boðið.

20Herra minn og konungur, augu allra Ísraelsmanna beinast nú að þér. Þeir vænta þess að þú tilkynnir þeim hver sitja skuli í hásæti þínu eftir þinn dag, herra minn og konungur.

21Annars fer svo að við Salómon, sonur minn, verðum fordæmd þegar þú, herra minn og konungur, ert lagstur til hinstu hvíldar hjá feðrum þínum.“

22Á meðan hún talaði við konung kom Natan spámaður óvænt á vettvang

23og konungi var tilkynnt: „Natan spámaður er kominn.“ Hann gekk fyrir konung, laut honum og féll fram á ásjónu sína.

24Natan sagði: „Herra minn og konungur. Þú hlýtur að hafa sagt: Adónía skal ríkja eftir mig og hann skal sitja í hásæti mínu,

25enda fór hann niður eftir í dag og færði fjölda nauta og alikálfa og fjár að sláturfórn. Hann hefur boðið öllum sonum konungs, hershöfðingjunum og Abjatar presti til fórnarveislunnar og þeir eta og drekka með honum og hrópa: Adónía konungur lifi.

26Hann bauð hvorki mér, sem er þjónn þinn, Sadók presti, Benaja Jójadasyni né Salómon, þjóni þínum.

27Ef þessu fer fram samkvæmt tilskipun þinni, herra minn og konungur, hvers vegna hefur þú þá ekki skýrt þjónum þínum frá því hver sitja skuli í hásæti þínu eftir þig, herra minn og konungur?“

Salómon verður konungur

28Davíð konungur svaraði: „Kallið Batsebu til mín.“ Hún gekk inn til konungs og þegar hún stóð frammi fyrir honum

29sór konungurinn: „Svo sannarlega sem Drottinn lifir, sem hefur bjargað mér úr öllum þrengingum,

30hef ég svarið þér eið við Drottin, Guð Ísraels, að Salómon, sonur þinn, skuli verða konungur eftir mig og sitja í hásæti mínu í minn stað. Ég mun standa við þennan eið nú í dag.“

31Batseba hneigði sig fyrir konungi, féll fram á ásjónu sína og sagði: „Herra minn, Davíð konungur, lifi ævinlega.“

32Þessu næst skipaði Davíð konungur: „Kallið til mín Sadók prest, Natan spámann og Benaja Jójadason.“ Þeir gengu fyrir konung

33og hann sagði við þá: „Takið með ykkur þjóna herra ykkar, látið Salómon, son minn, stíga á bak mínu eigin múldýri og farið með hann niður til Gíhonlindar.

34Þar skulu Sadók prestur og Natan spámaður smyrja hann til konungs yfir Ísrael. Þeytið síðan hafurshornið og hrópið: Salómon konungur lifi.

35Fylgið honum að því búnu upp eftir því að hann á að ganga inn og setjast í hásæti mitt. Hann skal verða konungur í minn stað. Ég hef ákveðið að hann skuli ríkja yfir Ísrael og Júda.“

36Benaja Jójadason svaraði konungi og sagði: „Þetta skal verða. Drottinn, Guð konungsins, herra míns, gefi það.

37Drottinn sé með Salómon eins og hann hefur verið með konunginum, herra mínum. Drottinn efli hásæti hans enn meira en hásæti herra míns, Davíðs konungs.“

38Sadók prestur, Natan spámaður og Benaja Jójadason héldu þá niður eftir í fylgd Kreta og Pleta. Þeir létu Salómon stíga á bak múldýri Davíðs konungs og fóru með hann til Gíhon.

39Sadók prestur hafði tekið olíuhornið úr tjaldbúðinni og smurði Salómon. Hafurshornið var þeytt og allur mannfjöldinn hrópaði: „Lifi Salómon konungur.“

40Síðan fylgdu allir honum upp eftir. Þeir blésu í pípur og fögnuðu stórum svo að jörðin skalf af hrópum þeirra.

41Þetta heyrðu Adónía og boðsgestir hans þegar þeir voru að ljúka máltíðinni. Er Jóab heyrði hornið þeytt sagði hann: „Hví er öll borgin í uppnámi?“

42Í sömu svifum kom Jónatan, sonur Abjatars prests, óvænt til þeirra. Þá sagði Adónía: „Komdu hingað. Þú ert traustur maður og flytur áreiðanlega góðar fréttir.“

43Jónatan svaraði og sagði við Adónía: „Öðru nær. Davíð konungur, herra okkar, hefur gert Salómon að konungi.

44Konungur sendi með honum Sadók prest, Natan spámann og Benaja Jójadason ásamt Kretum og Pletum. Þeir létu hann stíga á bak múldýri konungsins.

45Sadók prestur og Natan spámaður hafa smurt hann til konungs við Gíhon. Þaðan fóru þeir fagnandi upp eftir og öll borgin er í mesta uppnámi. Það er hávaðinn sem þið heyrðuð.

46Salómon er þegar sestur í hásæti konungs.

47Hirðmenn konungs komu til þess að árna Davíð konungi, herra okkar, heilla og sögðu: Guð þinn geri orðstír Salómons enn meiri en þinn og efli hásæti hans enn meira en þitt. Konungur laut höfði í rúminu þessu til samþykkis.

48Auk þess sagði hann: Lofaður sé Drottinn, Guð Ísraels, sem í dag hefur sett afkomanda minn í hásæti mitt og leyft mér að líta það.“

49Gestir Adónía skelfdust og stóðu upp. Fóru þeir hver sína leið.

50En Adónía óttaðist Salómon. Hann stóð upp, hélt til tjaldbúðar Drottins og greip um horn altarisins.

51Salómon bárust þessi boð: „Adónía óttast Salómon konung. Hann hefur gripið um horn altarisins og sagt: Salómon konungur sverji mér nú í dag, að hann láti ekki taka þjón sinn af lífi með sverði.

52Salómon svaraði: „Reynist hann drengur góður verður ekki eitt hár á höfði hans skert. En verði ills vart hjá honum hlýtur hann að deyja.“

53Því næst sendi Salómon konungur menn sem leiddu Adónía niður frá altarinu. Hann kom og laut Salómon konungi sem sagði honum að snúa aftur heim.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help