Esekíel 24 - Biblían (2007)

Pottur á hlóðum

1Orð Drottins kom til mín á tíunda degi tíunda mánaðarins í níunda árinu:

2Mannssonur, skráðu nákvæmlega dagsetningu dagsins í dag. Konungurinn í Babýlon hóf árás á Jerúsalem einmitt þennan dag.

3Talaðu í líkingu til þessarar þvermóðskufullu þjóðar og segðu:

Svo segir Drottinn Guð:

Settu pott á hlóðir, settu hann upp.

Helltu í hann vatni,

4bættu í kjötstykkjum,

aðeins úrvalsbitum

af lend og bógi.

Fylltu hann bestu beinunum.

5Taktu það vænsta úr sauðahjörðinni.

Leggðu við undir pottinn,

láttu suðuna koma upp á kjötinu

og sjóddu beinin með.

6Þess vegna segir Drottinn Guð: Vei hinni blóði drifnu borg, pottinum sem er ryðgaður og ryðið næst ekki af. Taktu hvert kjötstykkið af öðru upp úr honum án þess að varpa hlutum um þau.

7Því að blóðið, sem hún úthellti, er enn í henni. Hún úthellti því á bera klöpp en ekki á jörðina til að það yrði hulið mold.

8Til að vekja reiði og hefna þessa úthellti ég blóði hennar á bera klöpp svo að það yrði ekki hulið.

9Þess vegna segir Drottinn Guð: Vei hinni blóði drifnu borg. Ég hleð einnig mikinn bálköst.

10Hrúgið upp viðnum, kveikið eld, fullsjóðið kjötið, hellið af því soðinu, látið beinin brenna.

11Setjið síðan tóman pottinn á glóandi kolin svo að hann hitni og eirinn verði glóandi og óhreinindin í honum bráðni og ryðið hverfi.

12En erfiðið var til einskis. Ryðið er svo mikið að það næst ekki af í eldinum.

13Ég ætlaði að hreinsa þig af sora ólifnaðar þíns en þú varðst ekki hrein. Þess vegna skaltu ekki verða hrein af saurgun þinni fyrr en ég hef svalað heift minni á þér.

14Ég, Drottinn, hef talað og ég mun framfylgja því sem ég hef sagt. Mér fallast ekki hendur, ég sýni enga vægð og iðrast einskis. Ég mun dæma þig eftir breytni þinni og verkum, segir Drottinn Guð.

Spámaðurinn missir konu sína

15Orð Drottins kom til mín:

16Mannssonur, nú svipti ég þig yndi augna þinna með sviplegum dauða. Þú skalt hvorki syrgja, gráta né fella tár.

17Andvarpaðu í hljóði og viðhafðu ekki sorgarsiði. Þú skalt binda á þig höfuðklæði þitt og setja skó á fætur þér. Þú skalt hvorki hylja skegg þitt né neyta sorgarbrauðs.

18Ég talaði við fólkið um morguninn. Eiginkona mín lést að kvöldi og ég gerði eins og fyrir mig hafði verið lagt morguninn eftir.

19Þá spurði fólkið mig: „Viltu ekki segja okkur hvað það merkir sem þú gerir?“

20Ég svaraði: Orð Drottins kom til mín:

21Segðu við Ísraelsmenn: Svo segir Drottinn Guð: Ég vanhelga helgidóm minn, hið háa varnarvirki ykkar sem er yndi augna ykkar og hjartans þrá. Synir ykkar og dætur, sem þið skiljið eftir, munu falla fyrir sverði.

22Og þið munuð fara að eins og ég hef gert: Þið munuð hvorki hylja skegg ykkar né neyta sorgarbrauðs.

23Þið munuð bera höfuðdúka og hafa skó á fótum. Þið munuð hvorki syrgja né gráta en veslast upp vegna synda ykkar og stynja hver með öðrum.

24Esekíel mun verða ykkur tákn: Þið munuð fara að alveg eins og hann. Þegar það verður munuð þið skilja að ég er Drottinn Guð.

25En þú, mannssonur, daginn, sem ég svipti þá varnarvirki sínu, gleði sinni og stolti, yndi augna þeirra og hjartans þrá, einnig sonum þeirra og dætrum,

26á þeim degi kemur flóttamaður til þín og færir þér fréttir.

27Á þeim degi lýkst munnur þinn upp og þú munt tala og ekki framar þegja. Þú verður þeim tákn og þeir munu skilja að ég er Drottinn.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help