1Manasse var tólf ára þegar hann varð konungur og ríkti í Jerúsalem fimmtíu og fimm ár. Móðir hans hét Hefsiba.
2Hann gerði það sem illt var í augum Drottins og fylgdi andstyggilegum siðum þeirra þjóða sem Drottinn hafði rekið af höndum Ísraelsmanna.
3Hann endurreisti fórnarhæðirnar, sem Hiskía, faðir hans, hafði aflagt, reisti Baal ölturu og Asérustólpa eins og Akab Ísraelskonungur hafði gert, dýrkaði allan himinsins her og þjónaði honum.
4Hann reisti einnig ölturu í musteri Drottins sem Drottinn hafði sagt um: „Ég vil leggja nafn mitt á Jerúsalem.“
5Hann reisti ölturu handa öllum himinsins her í báðum forgörðum musteris Drottins.
6Hann lét son sinn ganga gegnum eld, stundaði galdur og spákukl og réð sér miðil og spásagnamann. Hann aðhafðist margt sem illt var í augum Drottins og vakti reiði hans.
7Í musterinu kom hann fyrir Asérulíkneski, sem hann hafði látið gera, en um musterið hafði Drottinn sagt við Davíð og Salómon, son hans: „Ég mun ævinlega leggja nafn mitt yfir þetta hús og yfir Jerúsalem sem ég hef valið úr öllum ættbálkum Ísraels.
8Ég mun aldrei framar hrekja Ísrael burt úr landinu, sem ég gaf forfeðrum þeirra, svo framarlega sem þeir gæta þess að hlýða öllu sem ég hef lagt fyrir þá og halda allt lögmál mitt sem Móse, þjónn minn, hefur lagt fyrir þá.“
9En þeir hlustuðu ekki og Manasse leiddi þá afvega svo að þeir unnu verri verk en þjóðirnar sem Drottinn hafði tortímt fyrir augum Ísraelsmanna.
10Drottinn talaði fyrir munn þjóna sinna, spámannanna, og sagði:
11„Manasse Júdakonungur vann svívirðileg verk og framdi meiri illvirki en Amorítarnir á undan honum með því að koma Júdamönnum til að syndga með hjáguðum sínum.
12Þess vegna segir Drottinn, Guð Ísraels: Ég mun senda slíkt böl yfir Jerúsalem og Júda að það mun skera í eyru þeirra sem um það heyra.
13Ég mun bera mælisnúru Samaríu að Jerúsalem og vega hana á vogarskálum Akabs ættar. Ég mun þurrka Jerúsalem eins og þegar skál er þurrkuð og henni síðan hvolft.
14Ég mun hafna þeim sem eftir eru af eignarlýð mínum og framselja þá í óvinahendur. Þeir skulu verða herfang og ránsfengur allra fjandmanna sinna
15af því að þeir gerðu það sem illt er í augum mínum og hafa vakið reiði mína allt frá því að forfeður þeirra fóru út úr Egyptalandi og til þessa dags.“
16Svo miklu saklausu blóði úthellti Manasse að Jerúsalem flaut öll í blóði. Auk þess kom hann Júdamönnum til að syndga svo að þeir gerðu það sem illt var í augum Drottins.
17Það sem ósagt er af sögu Manasse, verkum hans og syndum þeim sem hann drýgði er skráð í annála Júdakonunga.
18Manasse var lagður til hvíldar hjá feðrum sínum og grafinn í garðinum við hús sitt, í garði Ússa. Amón, sonur hans, varð konungur eftir hann.
Amón Júdakonungur19Amón var tuttugu og tveggja ára þegar hann varð konungur og ríkti í Jerúsalem tvö ár. Móðir hans hét Masullemet Harúsdóttir og var frá Jotba.
20Hann gerði það sem illt var í augum Drottins eins og Manasse, faðir hans, hafði gert.
21Hann fylgdi í öllu lifnaðarháttum föður síns, þjónaði sömu hjáguðum og faðir hans hafði þjónað og dýrkaði þá.
22Hann sneri baki við Drottni, Guði forfeðra sinna, og gekk ekki á vegum hans.
23Þá gerðu hirðmenn Amóns samsæri gegn honum og drápu hann í höll sinni
24en fólkið drap alla þá sem gert höfðu samsæri gegn Amón konungi og gerði Jósía, son hans, að konungi eftir hann.
25Það sem ósagt er af sögu Amóns og verkum hans er skráð í annála Júdakonunga.
26Hann var lagður í gröf sína í garði Ússa. Jósía, sonur hans, varð konungur eftir hann.
Who We AreWhat We EelieveWhat We Do
2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.