1Bóas hafði gengið upp til þingstaðarins í borgarhliðinu og sest þar. Þá vildi til að lausnarmaðurinn, sem Bóas hafði talað um, gekk þar hjá. Bóas sagði: „Komdu hingað og sestu.“ Og hann kom og settist.
2Þá sótti Bóas tíu af öldungum borgarinnar og sagði: „Setjist hér.“ Og þeir settust.
3Síðan sagði hann við lausnarmanninn: „Naomí, sem er komin heim frá Móabssléttu, vill selja akurpartinn sem Elímelek frændi okkar átti.
4Mér fannst rétt að láta þig vita af þessu og segja þér frammi fyrir þeim sem hér sitja og öldungum fólks míns að kaupa akurinn. Ef þú vilt leysa hann til þín, þá leystu hann, en ef þú vilt það ekki segðu þá til svo að ég viti það því að þú ert lausnarmaður og ég næstur á eftir þér.“
Hinn sagði: „Ég ætla að leysa hann.“
5Þá sagði Bóas: „Um leið og þú leysir akur Naomí til þín þá hlýtur þú einnig að taka þér Rut hina móabísku að eiginkonu, ekkju hins látna, til þess að halda við nafni hans á arfleifð hans.“
6Þá sagði lausnarmaðurinn: „Þá get ég ekki leyst til mín eignina því að þá kynni ég að spilla arfleifð minni. Þú skalt sjálfur leysa hana til þín í minn stað því að ég get það ekki.“
7Nú var það forn venja í Ísrael, er leysa skyldi til sín eða kaupa eign, að maður tæki af sér ilskóinn og fengi hann hinum og skyldu þá kaupin standa. Það var til staðfestingar í Ísrael.
8„Kauptu akurinn,“ sagði lausnarmaðurinn við Bóas og tók af sér annan ilskóinn.
9Þá sagði Bóas við öldungana og alla viðstadda:
„Hér með eruð þið vitni að því að ég hef keypt af Naomí allt sem Elímelek átti og allt sem Kiljón og Mahlón áttu.
10Enn fremur hef ég keypt Rut hina móabísku mér að eiginkonu til þess að viðhalda nafni hins látna á arfleifð hans svo að nafn hans verði hvorki afmáð úr ætt hans né úr hliði borgar hans. Þið eruð vitni að þessu hér og nú.“
11Þá sagði allt fólkið í borgarhliðinu og öldungarnir: „Við erum vitni að þessu. Drottinn geri konuna, sem kemur í hús þitt, eins og Rakel og Leu sem báðar reistu Ísraels hús. Veitist þér vald í Efrata og frægð í Betlehem.
12Megi afkomendur þínir, sem Drottinn gefur þér með þessari stúlku, verða eins og ætt Peresar sem Tamar fæddi Júda.“
Bóas kvænist Rut. Ættartala Davíðs13Síðan gekk Bóas að eiga Rut. Hann gekk inn til hennar og Drottinn veitti henni getnað og hún fæddi son.
14Þá sögðu konurnar við Naomí: „Lofaður sé Drottinn sem lét þig ekki vanta lausnarmann nú í dag. Bóas verður nafntogaður í Ísrael.
15Hann mun styrkja þig og annast í ellinni. Tengdadóttir þín, sem elskar þig, ól hann. Hún er þér meira virði en sjö synir.“
16Naomí tók drenginn í fangið og varð fóstra hans.
17Nágrannakonurnar gáfu honum nafn og sögðu: „Naomí hefur eignast son.“ Þær nefndu hann Óbeð og var hann faðir Ísaí, föður Davíðs.
18Þetta er ættartala Peresar: Peres gat Hesrón,
19Hesrón gat Ram, Ram gat Ammínadab,
20Ammínadab gat Nakson, Nakson gat Salmón,
21Salmón gat Bóas, Bóas gat Óbeð,
22Óbeð gat Ísaí og Ísaí gat Davíð.
Who We AreWhat We EelieveWhat We Do
2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.