Júdítarbók 5 - Biblían (2007)

Herráðsfundur hjá Hólofernesi

1Hólofernesi, yfirhershöfðingja herja Assýríumanna, var tjáð að Ísraelsmenn hefðu búist til varnar. Þeir hefðu lokað fjallaskörðunum, víggirt alla háa fjallshnjúka og komið upp farartálmum á sléttunum.

2Hann varð frá sér af bræði og kallaði fyrir sig alla leiðtoga Móabíta, hershöfðingja Ammóníta og alla héraðsstjóra á strandlengjunni.

3Hann sagði við þá: „Kanaansmenn. Segið mér hvaða fólk það er sem býr í fjöllunum og hvers konar borgum það býr í. Hvað býr það yfir miklum herafla? Hvaðan kemur því máttur og styrkur? Hver er eiginlega konungur þess og fer fyrir hernum?

4Hvers vegna hefur þetta fólk eitt allra íbúa vestursins þverskallast við að koma til móts við mig?“

Ræða Akíors

5Akíor, fyrirliði allra Ammóníta, svaraði honum: „Hlýð þú á orð þjóns þíns, herra minn. Ég skal segja þér sannleikann um fólkið sem býr í fjalllendinu hér í grennd við þig. Ekkert ósatt orð skal fara um varir þjóns þíns.

6Þetta fólk er af Kaldeum komið.

7Það settist fyrst að í Mesópótamíu vegna þess að það vildi ekki fylgja þeim guðum sem feður þess höfðu tilbeðið í landi Kaldea.

8Það hafði snúið baki við trú og siðum forfeðra sinna og tekið að tilbiðja Guð himinsins sem það hafði komist í kynni við. Þess vegna ráku Kaldear þetta fólk úr nálægð guða sinna. Það flýði til Mesópótamíu og dvaldist þar langa hríð.

9Síðar sagði Guð þess fólkinu að taka sig upp frá dvalarstað sínum og halda til Kanaanslands. Þar settist það að og safnaði auði gulls og silfurs og miklum gripahjörðum.

10Síðar, er hungursneyð varð í öllu Kanaanslandi, fór það suður til Egyptalands. Þar dvaldist fólkið á meðan þar var nokkurt viðurværi að hafa. Þar fjölgaði því svo mjög að engri tölu varð á þjóðina komið.

11Þá snerist konungur Egypta gegn henni, kom þjóðinni með brögðum til að strita við tígulsteinagerð, auðmýkti hana og gerði hana að þrælum.

12En fólkið ákallaði Guð sinn sem laust allt Egyptaland með ólæknandi plágum. Þess vegna ráku Egyptar fólkið burt úr landi sínu.

13Guð þurrkaði Rauðahafið upp á vegi þess

14og leiddi fólkið til Sínaí og Kades Barnea. Það hrakti alla, sem bjuggu í eyðimörkinni, á brott.

15Síðan settist þjóðin að í landi Amoríta og afmáði alla Hesbonbúa með mætti sínum. Þegar þjóðin hafði farið yfir Jórdan sló hún eign sinni á allt fjalllendið

16og hrakti Kanverja burt og Peresíta, Jebúsíta, Síkembúa og alla Gírgasíta. Síðan bjó þjóðin lengi í landinu.

17Svo lengi sem fólkið syndgaði ekki gegn Guði sínum farnaðist því vel því að Guð, sem er með því, hatar ranglæti.

18Þegar það vék af þeim vegi, sem hann hafði beint því á, beið fólkið afhroð í hverri styrjöldinni af annarri og var herleitt til framandi lands. Musteri Guðs þess var jafnað við jörðu og borgir þess féllu í óvinahendur.

19Þar sem þetta fólk sneri sér á ný til Guðs síns fékk það að snúa aftur heim úr dreifingunni. Hefur það tekið Jerúsalem, þar sem helgidómur þess er, og sest að í fjalllendinu sem áður var í eyði.

20En verði nú, voldugi herra, fólki þessu á eða syndgi það gegn Guði sínum og við komumst að raun um ávirðingar þess, skulum við leggja upp í fjöllin og gjörsigra það.

21Hafi þjóðin ekki brotið gegn lögmálinu í neinu, þá skalt þú, minn herra, forðast hana því að Drottinn þjóðarinnar og Guð mun verja hana og við verða heimi öllum að athlægi.“

Viðbrögð mannfjöldans

22Þegar Akíor hafði lokið máli sínu kom upp mikill kurr hjá öllum sem stóðu umhverfis tjaldið. Yfirmenn í liði Hólofernesar og allir frá héruðunum á ströndinni og Móab kröfðust þess að Akíor væri tekinn af lífi.

23„Við látum Ísraelsmenn ekki hræða okkur,“ sögðu þeir. „Þetta er kraftlaus þjóð sem ekki getur veitt öfluga mótspyrnu.

24Þess vegna skulum við halda upp eftir og þjóðin verður auðveld bráð fyrir allan þinn her, voldugi Hólofernes.“

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help