1Þá sagði Drottinn við Móse: „Nú geri ég þig að Guði fyrir faraó og Aron, bróðir þinn, skal verða spámaður þinn.
2Þú átt að segja allt sem ég fel þér og Aron, bróðir þinn, á að segja faraó það svo að hann leyfi Ísraelsmönnum að fara úr landi sínu.
3Ég mun forherða hjarta faraós og gera mörg tákn og stórmerki í Egyptalandi.
4Faraó mun ekki hlusta á ykkur, þess vegna mun ég leggja hönd mína á Egyptaland og leiða hersveitir mínar, þjóð mína, Ísraelsmenn, út úr Egyptalandi með þungum refsidómum.
5Þegar ég rétti út hönd mína yfir Egyptaland og leiði Ísraelsmenn burt frá Egyptum munu þeir komast að raun um að ég er Drottinn.“
6Móse og Aron gerðu það og fóru að öllu sem Drottinn hafði falið þeim.
7Móse var áttatíu ára og Aron áttatíu og þriggja ára þegar þeir töluðu við faraó.
Faraó daufheyrist8Drottinn ávarpaði Móse og Aron og sagði:
9„Ef faraó segir við ykkur: Gerið kraftaverk, skaltu segja við Aron: Taktu staf þinn og kastaðu honum niður frammi fyrir faraó. Hann verður að eiturslöngu.“
10Síðan fóru Móse og Aron til faraós og þeir gerðu það sem Drottinn hafði boðið þeim. Aron kastaði staf sínum frammi fyrir faraó og þjónum hans og hann varð að eiturslöngu.
11Þá kallaði faraó fyrir sig vitringa og galdramenn og spáprestar Egyptalands gerðu eins með fjölkynngi sinni.
12Hver þeirra kastaði staf sínum og stafirnir urðu að eiturslöngum en stafur Arons gleypti stafi þeirra.
13En hjarta faraós var hart og hann hlustaði ekki á þá eins og Drottinn hafði sagt.
Fyrsta plágan: Vatn breytist í blóð14Drottinn sagði við Móse: „Hjarta faraós er ósveigjanlegt, hann neitar að sleppa fólkinu.
15Farðu til faraós í fyrramálið þegar hann gengur niður að fljótinu. Þú skalt ganga til móts við hann á árbakkanum og hafa stafinn, sem varð að eiturslöngu, í hendi þér.
16Þú skalt segja við hann: Drottinn, Guð Hebrea, sendi mig til þín með þessi boð: Leyfðu þjóð minni að fara svo að hún geti þjónað mér úti í eyðimörkinni. Fram til þessa hefur þú ekki viljað hlusta á þetta.
17Svo segir Drottinn: Af þessu skaltu komast að raun um að ég er Drottinn: Með stafnum, sem ég hef í hendi mér, slæ ég á vatnið í fljótinu og þá breytist það í blóð.
18Fiskarnir í fljótinu munu drepast og fljótið fúlna svo að Egyptar vilja ekki drekka úr því.“
19Drottinn sagði við Móse: „Segðu við Aron: Taktu staf þinn og réttu hönd þína út yfir vatn Egypta, yfir fljót þeirra, yfir áveituskurði þeirra og yfir mýrar þeirra og yfir allar vatnsþrær þeirra og það verður að blóði. Blóð skal verða um allt Egyptaland, bæði í trékeröldum og steinkerum.“
20Þetta gerðu Móse og Aron eins og Drottinn hafði boðið. Hann reiddi upp stafinn og sló á vatnið í fljótinu fyrir augum faraós og fyrir augum þjóna hans og allt vatnið í fljótinu breyttist í blóð.
21Fiskarnir í fljótinu drápust og fljótið fúlnaði svo að Egyptar gátu ekki drukkið vatnið úr því. Blóð var um allt Egyptaland.
22Spáprestar Egypta gerðu þetta einnig með fjölkynngi sinni en hjarta faraós var hart og hann hlustaði ekki á þá eins og Drottinn hafði sagt.
23Faraó sneri þá burt, hélt heim til sín og lét sig þetta engu varða.
24En allir Egyptar grófu eftir drykkjarvatni umhverfis fljótið því að þeir gátu ekki drukkið vatnið úr því.
25Síðan liðu sjö dagar frá því að Drottinn sló á fljótið.
Önnur plágan: Froskar26Drottinn sagði við Móse: „Farðu til faraós og segðu við hann: Svo segir Drottinn: Leyfðu þjóð minni að fara svo að hún geti þjónað mér.
27Neitir þú henni um að fara sendi ég froska yfir land þitt.
28Fljótið verður morandi af froskum. Þeir skríða upp úr því, koma inn í hús þitt, alveg inn í svefnherbergi þitt og upp í rúm þitt, inn í hús þjóna þinna og þjóðar, inn í bakarofna þína og deigtrog.
29Froskarnir munu skríða á þér, þjóð þinni og öllum þjónum þínum.“
Who We AreWhat We EelieveWhat We Do
2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.