Síraksbók 8 - Biblían (2007)

Hyggindi sem í hag koma

1Háðu ekki baráttu við voldugan mann,

þú gætir fallið í hendur honum.

2Þrátta eigi við auðugan mann,

hann kann að nota fé sitt þér til falls.

Gullið hefur mörgum manni spillt

og glapið huga konunga.

3Þrátta eigi við þrasgjarnan mann,

bæt ekki brenni á bál hans.

4Dragðu eigi dár að illa uppöldum,

þá kann hann að smána forfeður þína.

5Áfellstu ekki neinn sem bætir ráð sitt,

minnstu þess að vér allir erum sekir.

6Vanvirtu ekki neinn sem elli beygir,

ýmsir af oss munu einnig eldast.

7Fagna þú aldrei dauða neins,

minnstu þess að vér munum allir deyja.

8Vanvirtu eigi viturra orð,

leggðu alúð við líkingar þeirra.

Þaðan mun þér þekking koma

til þess að þjóna þjóðhöfðingjum.

9Gefðu gaum að því sem gamlir kveða,

þeir námu sjálfir af sínum feðrum.

Af þeim mátt þú hyggindi hljóta

sem verða þér hagfelld þegar álits þíns er leitað.

10Blástu eigi að glóðum syndarans,

ella kann bál hans að brenna þig.

11Ekki skaltu hopa fyrir óskammfeilnum

því að þá mun hann snúa orðum þínum gegn þér.

12Lána eigi þeim sem er þér voldugri,

gerir þú það máttu telja það tapað.

13Gakk eigi í ábyrgð um efni fram,

ef þú gerir það skaltu búast við að borga sjálfur.

14Deil eigi við dómara,

hann vinnur málið vegna stöðu sinnar.

15Ferðastu eigi með fífldjörfum,

hann mun valda þér mesta háska.

Hann lætur kylfu ráða kasti

og heimska hans mun kosta ykkur báða lífið.

16Bjóð ekki uppstökkum birginn,

far aldrei með þeim um óbyggðir.

Slíkum finnst hégómi að úthella blóði

og þegar enginn er til hjálpar ræðst hann á þig.

17Ráðgastu eigi við einfeldning,

hann getur ekki þagað yfir neinu.

18Lát eigi ókunna sjá það sem þú vilt leyna,

lítt veistu til hvers það kann að leiða.

19Segðu engum allan hug

svo að þér eigi heill hrapi.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help