Fimmta Mósebók 30 - Biblían (2007)

Heimför heitið

1Þegar allt þetta, blessunin og bölvunin sem ég hef lagt fyrir þig í dag, er yfir þig komið og þú minnist þeirra orða á meðal allra þeirra þjóða sem Drottinn, Guð þinn, hrekur þig til,

2munt þú og niðjar þínir snúa ykkur aftur til Drottins, Guðs þíns. Þið munuð hlýða boði hans af öllu hjarta og allri sálu, öllu sem ég býð þér í dag,

3þá mun Drottinn, Guð þinn, snúa við högum þínum. Hann mun sýna þér miskunn og safna þér saman frá öllum þeim þjóðum sem Drottinn, Guð þinn, hafði dreift þér á meðal.

4Jafnvel þótt nokkrir ykkar hafi hrakist allt til endimarka himins mun Drottinn, Guð þinn, safna ykkur saman og sækja þangað.

5Og Drottinn, Guð þinn, mun leiða þig aftur inn í landið sem forfeður þínir tóku til eignar. Þú munt taka það til eignar og hann mun láta þér farnast betur og gera þig fjölmennari en forfeður þína.

6Drottinn, Guð þinn, mun umskera hjarta þitt og hjarta niðja þinna svo að þú elskir Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu og allri sálu þinni svo að þú lifir.

7Þá mun Drottinn, Guð þinn, leggja allar þessar bölvanir á fjandmenn þína og andstæðinga sem hafa ofsótt þig.

8En sjálfur munt þú snúa við, hlýða boði Drottins og framfylgja öllum boðum hans sem ég set þér í dag.

9Og Drottinn, Guð þinn, mun veita þér ríkulega í öllu sem þú tekur þér fyrir hendur og í ávexti kviðar þíns, í ávexti búfjár þíns og í ávexti lands þíns því að Drottinn mun aftur gleðjast yfir þér, þér til heilla, eins og hann gladdist yfir forfeðrum þínum

10ef þú hlýðir boði Drottins, Guðs þíns, að halda fyrirmæli hans og lög sem skráð eru á þessa lögbók og ef þú snýrð aftur til Drottins, Guðs þíns, af öllu hjarta þínu og allri sálu þinni.

11Þetta boð, sem ég legg fyrir þig í dag, er ekki óskiljanlegt eða fjarlægt þér.

12Það er ekki uppi í himninum svo að þú þurfir að spyrja: „Hver vill stíga upp í himininn og sækja það og kunngjöra okkur það svo að við getum framfylgt því?“

13Það er ekki heldur handan hafsins svo að þú þurfir að spyrja: „Hver vill fara yfir hafið fyrir okkur og sækja það og kunngjöra okkur það svo að við getum framfylgt því?“

14Nei, orðið er mjög nærri þér, í munni þínum og hjarta svo að þú getur breytt eftir því.

Blessun og líf, bölvun og dauði

15Hér með legg ég fyrir þig líf og heill, dauða og óheill.

16Ef þú hlýðir boðum Drottins, sem ég set þér í dag, með því að elska Drottin, Guð þinn, ganga á vegum hans og halda boð hans, ákvæði og lög, munt þú lifa og þér mun fjölga og Drottinn, Guð þinn, mun blessa þig í landinu sem þú heldur nú inn í til að taka það til eignar.

17En ef hjarta þitt gerist fráhverft og þú hlýðir ekki og lætur tælast til að sýna öðrum guðum lotningu og þjóna þeim,

18lýsi ég því hér með yfir að ykkur verður gereytt. Þið munuð þá ekki lifa lengi í landinu sem þú heldur inn í yfir Jórdan að taka til eignar.

19Ég kveð bæði himin og jörð til vitnis gegn ykkur í dag: Ég hef lagt fyrir þig líf og dauða, blessun og bölvun. Veldu þá lífið svo að þú og niðjar þínir megið lifa

20með því að elska Drottin, Guð þinn, hlýða boði hans og halda þér fast við hann því að þá muntu lifa og verða langlífur í landinu sem Drottinn hét að gefa feðrum þínum, Abraham, Ísak og Jakobi.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help